Áætlun fyrir kynbótasýningar 2015 - Fjórðungsmót og fleira

Nú er sýningaráætlunin fyrir kynbótasýningar á Íslandi árið 2015 komin inn á vef RML undir Búfjárrækt/Hrossarækt/Kynbótasýningar.

Fjórðungsmót verður haldið á Austurlandi í ár og fagráð í hrossarækt er búið að ákveða einkunnalágmörk fyrir kynbótahross á mótið. Líkt og fyrir Landsmót á síðasta ári verða mismunandi lágmörk fyrir alhliða hross og klárhross.

Rétt er að benda á eftirfarandi reglubreytingar fyrir árið 2015:
Nú í vor verður þess krafist að búið verði að taka DNA-sýni til ætternsgreiningar úr hryssum sem mæta til dóms. Í fyrstu verður einungis gerð krafa um að búið sé að taka lífsýnið en ekki að greining hafi farið fram og ekki þarf því nauðsynlega að vera til sýni úr foreldrum hryssnanna. Það eru því gerðar minni kröfur til hryssna en stóðhesta hvað þetta varðar. Því er um að gera fyrir eigendur hryssna sem stefnt er með í kynbótadóm í vor að bregðast við þessari breytingu.

Einnig er rétt að benda á að samkvæmt nýrri reglugerð um velferð hrossa frá október 2014 er nú bannað að sýna á kynbótasýningum, hross með mélum með tunguboga og vogarafli: ,,Notkun á mélum með tunguboga og vogarafli er bönnuð á stórmótum, hvers kyns keppnum og sýningum“.

Spennandi ár er framundan með Fjórðungsmóti á Austurlandi og Heimsleikum í Danmörku svo dæmi séu tekin, hlökkum við hjá RML til samstarfsins við hestamenn í ár sem endranær og minnum á að við erum til þjónustu reiðubúin. 

Sjá nánar: 

Sýningaáætlun 2015

Lágmörk fyrir FM 2015

Ýmsar upplýsingar um kynbótasýningar

þk/okg