Afkvæmarannsóknir á hrútum haustið 2014

Á tveim síðustu áratugum hafa orðið undraverðar framfarir í kjötgæðum hjá íslensku sauðfé, öðru fremur vegna markviss ræktunarstarfs á því sviði. Við upphaf þessa tímabils komu tvö feikilega mikilvirk tæki til notkunar, fyrst ómsjáin 1990 og síðan EUROP-kjötmatið 1998. Þegar breytingin á kjötmatinu kom þá bárum við gæfu til að sameina afurðir þessara tveggja verkfæra í eitt vopn, afkvæmarannsóknir tengdar kjötgæðum hrúta. Viðbrögð bænda við þessum breytingum urðu mjög jákvæðar og fjölmargir þeirra tóku strax þátt í þessu starfi. Þarna byggðum við á eldri grunni frá traustu skýrsluhaldi og dreifðum afkvæmarannsóknum sem áður hafði verið unnið að um áratuga skeið.

Umfangið varð fljótt feikilega mikið og skipti fjöldi búa, sem tók þátt í starfinu þegar mest var, hundruðum og afkvæmahópar sem fengu sinn dóm voru á þriðja þúsund á ári. Mjög margar af stjörnum ræktunarstarfsins á síðasta einum og hálfum áratug voru uppgvötaðar í þessum rannsóknum. Áhrifin af þessu starfi og öðrum þáttum ræktunarstarfsins blasa í dag alls staðar við.

Í haust voru þessar afkvæmarannsóknir unnar á samtals 115 búum og fengu 1258 afkvæmahópar þar sinn dóm. Voru þær dreifðar um allt land þó að eins og áður sé þátttaka almennust á Vestur- og Norðurlandi.

Af hópunum haustið 2014 fengu 147 eða 12% þeirra 120 eða meira í heildareinkunn en samsvarandi hlutfall 2013 var 10,5%. Margir af hrútunum sem hér um ræðir eiga stöðvarhrúta sem feður eða 53% og hafði það hlutfall lítillega hækkað frá árinu áður. Feður topphrútanna eru nú margir, en það er talsverð breyting frá þeim tíma sem Kveikur 05-965 og Raftur 05-966 voru og hétu og synir þeirra fylltu alla slíka lista. Að þessu sinni átti Grábotni 06-833 umtalsvert flesta syni eða 53. Hæsta hlutfall sona sem klifu 120 stiga múrinn áttu hins vegar þeir Borði 08-838 og Gosi 09-850 en um fjórðungur sona hvors þeirra náði þeim mörkum.

Niðurstöður afkvæmarannsóknanna ásamt umsögnum um bestu afkvæmahópana má finna hér á heimasíðunni.
Afkvæmarannsóknir 2014

Kröfur í sambandi við framkvæmd afkvæmarannsóknanna er verið að auka. Til að þær þjóni sem best tilgangi sínum, að auka kjötgæði, eins og í þessu tilfelli, þá verður þungi rannsóknanna að beinast að veturgömlu hrútunum. Til að ná mestum árangri skiptir öllu að geta dæmt þá strax veturgamla fyrir þennan eiginleika. Bændur sem stunda ræktun af kappi eiga að líta á þetta sem sjálfsagðan verkþátt og niðurstöðurnar á að fá strax og nota við ásetning gimbra að haustinu. Miklu verðmætara er að setja dætur þeirra hrúta sem eiga að vera í ræktunarstarfinu í framtíðinni á heldur en þeirra sem fallnir eru þar út.

Hverja afkvæmarannsókn þarf að skipuleggja vel. Hóparnir þurfa að vera sem jafnastir gagnvart utanaðkomandi þáttum sem geta haft áhrif á niðurstöður. Niðurstöðurnar þurfa að endurspegla sem allra mest af þeim mun sem er á milli hópanna sjálfra. Hér má benda á truflandi þætti eins og þegar afkvæmahóparnir eru aðeins undan einum flokki áa; gemlingum, tvævetlum eða gamalám og dæmi koma fram um þetta í sambandi við topphrútana hér að framan. Á stórum fjárbúum þar sem þarf að nota þrjá eða fleiri hrúta á slíkan hóp áa (oftast gemlingana) þá er að vísu alveg mögulegt að hafa þá sem hóp innan rannsóknarinnar vegna þess að glöggva má sig á samanburði þessara hrúta hvers við annan.

Nú þurfa bændur að vanda sem mest framkvæmd rannsóknanna til að geta tryggt sem skjótastan og mikinn árangur. Reynslan hefur þegar kennt okkur að kerfið getur skilað ótrúlega miklu þegar vinnubrögð eru vönduð og rétt.

jvj/eib

Krapi 13-331
Krapi 13-331, Innri-Múla.
Myndina tók Ásgeir Sveinsson.

Barði 13-333
Barði 13-333, Leiðólfsstöðum.
Myndina tók Steinunn Ósk Jóhannsdóttir.