Afkvæmarannsóknir í sauðfjárrækt 2016

Góð þátttaka var í afkvæmarannsóknum síðastliðið haust en 82 bú uppfylltu skilyrði afkvæmarannsókna. Meðal skilyrða var að hver hrútur þyrfti að hafa, að lágmarki, kjötmatsupplýsingar fyrir 15 afkvæmi og líflambadóma fyrir 8 afkvæmi af sama kyni. Skilyrði að í samanburðinum séu að lágmarki 5 hrútar og þar af 4 veturgamlir, en styrkur er eingöngu greiddur á veturgömlu hrútana.

Að vanda kemur fram þó nokkuð af mjög spennandi kynbótahrútum í þessum afkvæmarannsóknum bænda og líkt og áður er horft hýru auga til sumra þeirra sem álitlegra stöðvahrúta í framtíðinni. Í niðurstöðum er hrútum raðað eftir heildareinkunn sem byggir á einkunnum fyrir þrjá þætti; fallþunga, flokkun sláturlamba og niðurstöðum úr líflambamælingum. Þáttur ómmælinga í þessu hefur talsvert gildi því í gegnum þetta starf er unnið að kynbótum á bakvöðvanum, sem er jú dýrmætasti hluti skrokksins.

Niðurstöður eru aðgengilegar hér á heimasíðunni ásamt umsögnum um þá hrúta sem mesta athygli vekja og eins er fjallað um afkvæmarannsóknir sem haldnar voru vegna prófunnar á hrútum fyrir sæðingastöðvarnar.

Afkvæmarannsóknir 2016

/ee