Notendur Fjárvís athugið

Fjárvís var uppfærður um mánaðarmótin mars/apríl á þessu ári og allt viðmóti í kerfinu breyttist líkt og notendur ættu að hafa orðið varir við. Kerfið er ekki gallalaust og unnið er að því að fínstilla kerfið, það tekur tíma og mikilvægt að notendur láti vita um hluti sem ekki virðast vera réttir. Tvær villur fundust ekki fyrr en notendur fóru að nota kerfið enda misjafnt hvaða vinnulag er notað við skráningar. Þessar villur þurfa notendur sjálfir að athuga á sínum búum, hvort þær gildi um gripi þar og leiðrétta ef þarf.

Breyting á faðerni
Fyrri villan á ekki við alla notendur. Hún á aðeins við þá notendur sem voru að skrá beint í Fjárvís á tímabilinu 25 apríl - 6 maí. Þeir sem voru að skrá burðarfærslur á þeim tíma þurfa að athuga hvort faðerni sé rétt á lömbunum. Á þessu tímabili læddist inn villa sem átti það til að skrá annan föður að lömbum en þann sem notandi skráði.

Dauðfædd lömb
Seinni villan á einnig við afmarkaðan hóp notenda. Hún gildir aðeins þar sem verið var að uppfæra burðarfærslu þar sem 1 eða fleiri af lömbunum voru dauð og ekkert lambanúmer sett í þau. Þá kom fyrir þegar færslan var leiðrétt, t.d. ef athugasemd var sett við dauðfædda lambið að kerfið bjó til annað dauðfætt lamb um leið og vistað var í annað skipti. Þetta kemur því þannig út að ær sem átti 3 lömb og tvö voru skráð dauð kemur út eins og hún eigi 5 lömb og 4 þeirra dauð. Búið er að laga þessa villu en notendur þurfa sjálfir að athuga hvort hún gildi um einhverja gripi á þeirra búum.

Allar nánari upplýsingar um þessi atriði eru veittar í síma 516-5000 eða í tölvupósti á fjarvis@rml.is

/eib