Ný nautaskrá og ungnautaspjöld komin í dreifingu

Nautaskrá Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands er komin úr prentun og er í dreifingu með hefðbundnum hætti þessa dagana. Skráin er að þessu sinni með aðeins breyttu sniði á þann veg að þau naut sem áður hafa verið í skrá eru ekki kynnt jafnítarlega og þau sem ekki hafa verið í nautaskrá áður. Þannig eru „eldri“ nautin nú þrjú á síðu meðan að þau nýrri fá heilsíðu hvert að venju. Þá er útlit skráarinnar uppfært og fært til nútímalegra horfs að segja má. Við vonum að skráin nýtist vel við val á nautum til notkunar í vetur.

Þá eru jafnframt komin ungnautaspjöld með upplýsingum um fleiri óreynd naut fædd 2013 sem sæði úr á eftir að fara í dreifingu. Um er að ræða 8 naut sem koma til dreifingar á næstu vikum eftir því sem útsendingu og dreifingu fram vindur. Dreifing þessara spjalda fer fram samhliða dreifingu nýrrar nautaskráar.

Nautin sem hér um ræðir eru Bolli 13041 frá Ytra-Gili í Eyjafirði, Kjáni 13044 frá Káranesi í Kjós, Kokkur 13046 frá Vatnsenda í Eyjafirði, Kasper 13047 frá Kúskerpi í Skagafirði, Kuggur 13048 frá Núpi 3 undir Eyjafjöllum, Ýmir 13051 frá Klauf í Eyjafirði, Skári 13054 frá Þverlæk í Holtum og Steri 13057 frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum.

Á nautaskra.net er að finna samsvarandi upplýsingar og birtast á ungnautaspjöldunum og í nautaskránni. Þar er jafnframt að finna pdf-skjöl, bæði af ungnautaspjöldunum og nautaskránni.

Að lokum má nefna að nautaskránni fylgir núna spjald með ábendingum vegna skyldleika og er það spjald einnig finnanlegt sem pdf-skjal á nautaskra.net. Fari svo ólíklega að spjöldin eða nautaskráin berist ekki einhverjum kúabændum á næstu dögum biðjum við menn að hafa samband við RML eða Nautastöðina á Hesti.

/gj