Skýrsluhald í sauðfjárrækt 2014

Uppgjöri sauðfjárræktarinnar fyrir árið 2014 er lokið þó enn eigi eftir að birta ýmis gögn hér á heimasíðunni. Fyrir ári síðan voru niðurstöður skýrsluhaldsins í fyrsta skipti birtar þannig að afurðir væru reiknaðar í krónum talið eftir hverja vetrafóðraða á. Það er gert aftur núna en með aðeins breyttri aðferð þar sem reiknað er meðalverð á hverju búi út frá verðskrá sláturleyfishafa í viku nr. 40 haustið 2014, að teknu tilliti til geymslugjalds og gæðastýringarálags. Jafnframt eru niðurstöður fyrir einstakar bústærðir á landinu reiknaðar óháðar meðalverði.

Á síðustu árum hefur skýrsluhöldurum í sauðfjárrækt fjölgað gríðarlega og munar þar mest um aðila sem halda fáar kindur sér til gamans. Tæpur þriðjungur þátttakenda í skýrsluhaldinu er með færri en 100 ær og halda þessir aðilar um 6% kinda í landinu. Meginfjöldi kinda eða rúm 50% er á búum með 201-500 kindur. Dreifingu kinda og fjölda skýrsluhaldara eftir bústærð má sjá á myndinni sem fylgir.

 Dreifing skýrsluhaldara 2014

Niðurstöður útreikninga á meðalverði eftir hverja kind sýna skýrt að mikil tækifæri eru til að bæta afkomu sauðfjárbúa. Rétt er að taka fram að öll ásetningslömb reiknast inn í afurðir á búunum á sama verði og meðaldilkur búsins. Hver ær á landinu skilar því 19.200 krónum að jafnaði. Breytileikinn er talsverður og á þeim búum sem sýna besta niðurstöðu skilar hver ær tæpum 23.500 krónum á meðan að meðalærin á þeim búum sem sýna lakasta niðurstöðu skilar 14.700 krónum. Þarna munar 8.700 krónum á kind á búum í efsta og neðsta flokki. Meðalstórt sauðfjárbú með 400 kindur í efsta flokki hefur því rúmlega þremur milljónum meira í tekjur en bú af sömu stærð í neðsta flokki.

Þegar gögnin eru skoðuð betur sést glöggt hvað sóknarfærin eru mikil hjá veturgömlu ánum í landinu. Miðað við gögn úr forðagæsluskýrslum eru á bilinu 17-20% af ásettu sauðfé hér á landi gripir á fyrsta ári. Víða hefur fósturdauði verið vandamál í veturgömlum ám en það breytir ekki þeirri staðreynd að á landsvísu er tæpum 12% veturgamalla áa ekki haldið. Mjög er breytilegt eftir landsvæðum hvernig þessum málum er háttað. Jafnframt má sjá á þessum gögnum að á búunum þar sem arður eftir hverja kind er lítill er miklu hærra hlutfall af veturgömlum ám sem ekki er haldið og sáralítið um fleirlembdar ær ásamt því að þar er hærra hlutfall af geldum ám.

Samantekt þessara talna má nú finna hér á heimasíðunni. Auk þess hefur verið útbúinn listi yfir úrvalsbú árið 2014 en það eru bú þar sem næst góður árangur í mörgum þáttum í skýrsluhaldinu. Skilyrðin sem uppfylla þar til að komast á þann lista eru að fleiri en 100 ær séu á skýrslum og fædd lömb eftir fullorðnar ær fleiri en 1,9, fædd lömb eftir veturgamlar ær séu fleiri en 0,9, reiknað dilkakjöt eftir fullorðna kind sé landsmeðaltal eða meira (27,8 kg árið 2014), gerðarmat sláturlamba sé yfir 9,2, fitumat sláturlamba á bilinu 5,4-7,6 og hlutfall gerðar og fitu yfir 1,3.

Skýrsluhald í sauðfjárrækt 2014 - nánari greiningar
Bú sem náðu góðum árangri í skýrsluhaldi 2014 (Úrvalsbú) 

/eib