Styrkir vegna afkvæmarannsókna í sauðfjárrækt

Sú aðferð sem bændur eru hvattir til að nýta sér við mat á veturgömlum hrútum er að bera þá saman á grunni afkvæmadóma (afkvæmaprófa lambhrútana). Mörg undanfarin ár hafa verið í boði styrkir til bænda til að hvetja þessa vinnu áfram og mæta þeim kostnaði sem í þessu felst.

Þeir bændur sem uppfylla skilyrði um styrkhæfa afkvæmarannsókn eru hvattir til að ganga frá uppgjöri í fjárvís og senda síðan tilkynningu á ee@rml.is um að afkvæmarannsókn sé lokið.

Þegar gengið er frá afkvæmarannsókn í Fjárvís, þarf að hafa það í huga að heildarniðurstaða mun ekki verða til fyrr en búið er að vista annars vegar uppgjör fyrir lifandi lömb og hinsvegar kjötmatsuppgjör og að nákvæmlega sömu hrútar séu í báðum uppgjörum.

Gildandi reglur um styrkhæfar afkvæmarannsóknir settar af fagráði í sauðfjárrækt:

  • Í samanburði þurfa að vera 5 hrútar og að lágmarki séu 4 af þeim veturgamlir (fæddir 2015).
  • Undan hverjum hrúti þarf að ómmæla og stiga 8 lömb af sama kyni og hrúturinn þarf að eiga 15 afkvæmi með kjötmatsupplýsingar.
  • Hrútarnir skulu hafa verið notaðir á sem jafnasta ærhópa þar sem aldur er blandaður. Ekki er tekinn gildur afkvæmadómur hrúta sem notaðir er á veturgamlar ær, nema allir hrútarnir í samanburðinum séu notaðir á veturgamlar ær (gemlinga).
  • Ganga þarf frá afkvæmarannsókninni í Fjárvís.is (vista uppgjörið). Þeir sem ekki eru í netskilum leiti aðstoðar hjá ráðunautum RML.
  • Tilkynna þarf að uppgjöri sé lokið með því að senda tölvupóst á ee@bondi.is

Miðað er við að styrkur á hvern veturgamlan hrúta sé 3.500 kr. Ekki eru nein takmörk á því hve margir hrútar geta verið í samanburði. Miðað skal við að allar tilkynningar vegna afkvæmarannsókna 2016 séu komnar til RML fyrir 10. des.

ee/okg