Tarfurinn kynbótapakki - nú er rétti tíminn að panta

Hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er boðið upp á gerð kynbótaáætlana og hafa fleiri og fleiri kúabændur áttað sig á gagnsemi þess að láta gera slíka áætlun fyrir sig.

Þessi þjónusta RML er tvíþætt og er annars vegar greining á hjörðinni og hins vegar pörunaráætlun. Þegar þessar áætlanir eru gerðar er tekið tillit til skyldleika og passað í hverju og einu tilfelli upp á að velja ekki naut sem eru mikið skyld viðkomandi grip, horft er á kynbótagildi, bæði hjá nautinu og kúnni (eða kvígunni) s.s. hvar hennar helstu kostir liggja, hverjar afurðirnar eru og hvernig útlitsdómur hennar er. Nautavalið er síðan byggt á þessari greiningu þannig að reynt er að ná sem hæstri kynbótaspá mögulegra afkvæma án þess að nota einstök naut of mikið.

Áður en hafist er handa við að vinna kynbótaáætlun er gripalisti sendur til bóndans og honum gefinn kostur á að skrá athugasemdir við gripina, s.s. ef einhverjar kýr reynast glæsigripir eða gallagripir, þó svo að kynbótagildið segi ekki endilega til um það. Tekið verður tillit til þessara athugasemda þegar áætlunin er unnin, og með því að skrá slíkar athugasemdir fær bóndinn nákvæmari kynbótaáætlun. Þegar gerð áætlunarinnar er lokið, er hún send til bóndans, en í áætluninni er einnig gerð greining á stöðu búsins og kynbótagildi hjarðarinnar. Þannig fær bóndinn góða mynd af því hvernig búið stendur í samanburði við önnur bú. Einnig er gerð greining á útliti gripanna og hverjir séu helstu kostir og gallar hjarðarinnar.

Í pörunaráætluninni koma fram tillögur að nautavali, þannig er mælt með einu „aðal-nauti“ og síðan eru tvö naut valinn til vara í hverju tilfelli. Einnig kemur fram hvert kynbótagildi væntanlegs afkvæmis verði, sé kýrin sædd með sæði úr „aðal-nautinu“. Miðað er við að nota óreynd naut í um helmingi tilfella, eins og mælt er með að bændur geri.

Sæðingaáætlanir eru plastaðar þannig að þær þoli bleytu, því hægt að hafa þær í fjósinu án þess að þær skemmist.

Áskrift að Tarfinum er til eins árs í senn. Í slíkri áskrift fá bændur sæðingaáætlun tvisvar á árinu, en greiningu á hjörðinni einu sinni.

Einnig er hægt að panta stakar sæðingaáætlanir.

Nú er rétti tíminn til að panta!

Það er hægt að gera hér í gegnum heimasíðuna eða með því að hafa beint samband við RML í síma 516-5000.

Sjá nánar

Panta TARFINN 

eng/okg