Sýnataka úr búfjáráburði

Mykjupoki
Mykjupoki

Þegar bændur og ráðunautar gera áburðaráætlanir er lögð áhersla á að nýta heimafengin áburðarefni sem best. Góð nýting búfjáráburðar er helsta leiðin til þess að lækka hlut tilbúins áburðar án þess að koma niður á magni og gæðum uppskeru. Til þess að það sé hægt er mikilvægt að þekkja efnainnihald sem best. Á flestum búum er hins vegar aðeins hægt að styðjast við meðalgildi á efnainnihaldi búfjáráburðar. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á áburðarefnum í búfjáráburði sýna að mikill breytileiki er milli bæja. Það má því ætla að eftir nokkru sé að slægjast fyrir bændur að láta efnagreina sinn búfjáráburð.

Helsti áhrifavaldur í efnainnihaldi búfjáráburðar er fóðrið. Ef mikið er af fosfór í fóðri skilar það sér í auknu fosfórmagni í mykjunni og ef fóðrið inniheldur mikið prótein og kalí skilar það sér í auknu köfnunarefni og kalí. Það eru því gild rök fyrir því að mykja undan geldneytum sé rýrari af áburðarefnum en mykja undan kúm sem fóðraðar eru fyrir mjólkurframleiðslu. Af þessu sögðu má sjá að ekki er hægt að heimfæra gildi fyrir efnainnihald mykju undan mjólkurkúm og geldneytum ef safnrými eru aðskilin.

Hvernig á að standa að sýnatöku?
Mikilvægt er að sýnið sé sem næst því að vera þverskurður af þeim búfjáráburði sem við viljum vita efnainnihaldið í. Þurrt sauðatað er til að mynda erfitt í sýnatöku vegna þess hve misleitt það er. Því þarf að skipuleggja slíka sýnatöku vel með það markmið að ná yfir breytileikann með mörgum sýnum. Þegar um er að ræða upphrærðan búfjáráburð fer sýnatakan fram um leið og mykjunni er keyrt út. Margir þekkja að mykjan er mis þykk frá fyrsta ferð mykjudreifara til þeirrar seinustu. Því þarf að framkvæma sýnatöku í nokkur skipti meðan dreifing fer fram. Hvað upphrærðan búfjáráburð varðar skal taka mið af eftirfarandi verkferli:

Taka skal sýni 5 sinnum meðan á útdælingu stendur, 5 lítrar hverju sinni er ágætt. Ekki úr því allra fyrsta (brunnur getur verið fullur af vatni) en síðan með sem jöfnustu bili og seinasta sýnið tekið úr seinustu tankfylli.

Þessum sýnum er steypt saman í kerald og þegar allt er komið er hrært vel og endanlegt sýni tekið í litla fötu eða brúsa (2 l er ágætt) lokað vel og sýnið merkt.

Þegar um er að ræða búfjáráburð sem er ekki er á fljótandi formi svo sem þurrt sauðatað eða áburð úr safnhaug, getur ferlið verið ögn flóknara. Líkt og þegar tekið er sýni úr upphrærðri mykju er mikilvægt að sýnið sem sent er til greiningar endurspegli þann efnivið sem nýta á sem áburð. Það þarf því að taka sýni á nokkrum stöðum úr safninu til þess að fanga breytileika sem þar er að finna.

Best er að taka sýni um leið og búfjáráburður er keyrður út. Ein leiðin til þess taka sýni úr óhrærðum búfjáráburði er að nota plastdúk sem breiddur er út á tún sem borið er á. Ágætt viðmið er notast við 3x3 metra dúk. Síðan er einfaldlega borið á túnið og sá búfjáráburður sem á dúknum lendir er tekinn upp og settur í ker (mikilvægt að taka búfjáráburðinn sem fyrst af dúknum). Þetta þarf að endurtaka nokkrum sinnum þannig að sýni fáist sem víðast úr hauggeymslu eða safnhaug. Að þessu loknu er sýnunum hrært vel saman í kerinu og eitt hlutsýni tekið sem á að endurspegla þann áburð sem í haugnum er.

Þegar sýni er tekið beint úr safnhaug þarf að taka 10 - 20 sýni úr haugnum og setja saman í ker. Gæta þarf að taka sýni bæði kjarna haugsins sem og jöðrum enda getur verið nokkur breytileik þar á milli. Hægt er að nota skóflu eða gaffal við verkið en einnig getur þurft að nota ámoksturstæki til að moka frá svo þægilegra sé að taka sýni úr miðju haugsins. Að þessu loknu er hrært upp kerinu og eitt hlutsýni er tekið.

Ef geyma þarf sýnin lengi þarf að frysta þau, en geymsla á svölum stað í eina til tvær vikur skiptir ekki máli.

Hægt er að fá sýnin greind hjá Efnagreiningu ehf. á Hvanneyri og kostar það 11.500 kr. Jarðræktarráðunautar RML geta aðstoðað við túlkun á niðurstöðum efnagreininga og fært inn í Jörð.is þar sem hægt er að nota þær við gerð áburðaráætlunar. Einnig geta ráðunautar RML aðstoðað við að koma sýnum í efnagreiningu.

Mikilvægt er að sýni sem á að nota í vor berist Efnagreiningu á Hvanneyri sem fyrst. Næsta stein- og snefilefnagreining verður framkvæmd upp úr 20. apríl og svo hálfum mánuði síðar.

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá ráðunautum RML í jarðrækt í síma 5165000 eða hjá Efnagreiningu á Hvanneyri í síma 661-2629.

Sjá nánar

Dæmi um niðurstöðublað frá Efnagreiningu