Fara í efni
Yellow Blue Green

Landbúnaður og náttúruvernd

Landbúnaður og náttúruvernd eru hugtök sem eiga það sameiginlegt að þau túlka að einhverju leyti nýtingu náttúruauðlinda. Þessi hugtök skarast þ.a.l. mjög mikið en athafnir í þeirra þágu og grunnstoðir beggja byggja á sjálfbærum náttúrugæðum. Þó greina megi á milli þeirra þessa miklu skörun eru þau knúin áfram af gagnstæðum pólum. Hugtakið landbúnaður byggir á nýtingu þeirra náttúrugæða sem eru fyrir hendi, en hugtakið náttúruvernd á því að láta þau ósnortin og leyfa kröftum náttúrunnar að sjá um mótun umhverfisins án inngripa mannsins. Náttúruvernd nær þó yfir mun víðara svið en að girða af svæði og láta þau þróast af duttlungum náttúrunnar og í vissum tilfellum getur samspil manna og náttúru talist æskilegt.

Yellow Blue Green

Hvað er náttúruvernd?

Náttúruvernd er samheiti yfir verkefni sem snúa að verndun, viðhaldi og endurheimt náttúrulegra landslagsgerða, náttúruminja og líffræðilegrar fjölbreytni. Verkefni í náttúrvernd eru unnin í samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, en markmið þeirra er að stuðla að verndun fjölbreytni íslenskrar náttúru, tryggja eftir föngum þróun hennar á eigin forsendum og vernda það sem er sérstakt og sögulegt. Einnig eiga lögin að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúrugæða, endurheimt raskaðra vistkerfa og auknu þoli íslenskra vistkerfa gegn náttúruhamförum og hnattrænum umhverfisbreytingum. Í lögum um náttúruvernd er gert ráð fyrir samspili manna og náttúru en að samskipti þar á milli spilli hvorki lífi, lofti, landi né legi. Með öðrum orðum miða lögin að vernd og nýtingu náttúruauðlinda, þar sem við á, með sjálfbærum hætti.

 

 


Tilgangur náttúruverndar er:

  • að viðhalda náttúrugæðum fyrir komandi kynslóðir og stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.
  • að stuðla að því að sérkennum náttúru sé viðhaldið eða þau fái að þróast á eigin forsendum.
  • að varðveita landslag sem er sérstætt eða fágætt og hefur fagurfræðilegt eða menningarlegt gildi.
  • að standa vörð um óbyggð víðerni.
  • að stuðla að verndun líffræðilegrar fjölbreytni, viðhalda fjölbreytni vistgerða innan náttúrulegra útbreiðslusvæða og stuðla að endurheimt vistkerfa.
  • að viðhalda tegundafjölbreytni lífvera og erfðafræðilegri fjölbreytni þeirra.
  • að vernda og endurheimta náttúrleg búsvæði til að tegundir lífvera nái að viðhalda sér í lífvænlegum stofnum.
  • að varðveita jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu auk þess að viðhalda heildarmynd jarðfræðilegra ferla og fyrirbæra sem gefa yfirlit um jarðsögu landsins.
  • að vernda lífríki og náttúrleg sérkenni vatna- og hafsvæða innan lögsögu landsins.

-

Lög um náttúruvernd

Samspil landbúnaðar við þróun náttúrunnar

Víða um heim eru landslag og náttúra mikið til mótuð af landbúnaði og búsetu manna. Lífkeðjur og vistkerfi hafa þróast í þúsundir ára með ákveðinni notkun lands og mennirnir hafa á sama tíma lært að vinna með duttlungum náttúrunnar. Þetta á sérstaklega við þegar horft er til landbúnaðarsvæða og þar sem ákveðið jafnvægi hefur myndast má líta á áhrif manna sem hluta náttúrulegrar framþróunar. Víða hefur þessi aldagamla keðja lífs rofnað og jafnvægið riðlast, en aukin umsvif í landbúnaðarframleiðslu hafa víða leitt til hnignunar á náttúrugæðum og líffræðilegum fjölbreytileika. Ísland er í þessu ekki undanskilið þar sem hér hefur verið stundaður landbúnaður frá landnámi sem hefur sett mark sitt á landslag og náttúru.

 

Hvernig geta landbúnaður og náttúruvernd stutt hvort annað

Sterk tengsl eru á milli landbúnaðar og náttúrunnar. Þetta samspil sést víða í daglegum bústörfum en bændur hafa í flestum tilvikum góða tilfinningu fyrir sérkennum náttúru og náttúrgæðum og bera virðingu fyrir landinu enda er afkoma þeirra undir þeim auðlindum komin sem landið býður. Dæmi eru um að ákveðin verkefni og bústörf hafi jákvæð áhrif á lífríki og umhverfi þar sem sjálfbær notkun náttúruauðlinda til langs tíma hefur þróað aðstæður sem styðja við náttúruleg vistkerfi og búsvæði lífvera. Þetta skilar jákvæðum áhrifum til náttúrunnar en að sama skapi skila heilbrigð og virk vistkerfi meiri uppskeru og öðrum náttúruafurðum til landbúnaðarins sem hefur jákvæð áhrif á afkomu bænda.

 

-

Dæmi um verkefni í landbúnaði
sem hefur jákvæð áhrif á náttúruna:

Markvissar beitarstýringar geta auðgað fuglalíf. Þetta á við um stýringu á beitarálagi á búsvæðum ýmissa fuglategunda. Þar má nefna að ýmsar mófuglategundir, t.d. heiðlóa, kjósa sé búsvæði þar sem umhverfisaðstæður hafa þróast af hæfilegu beitarálagi og eru þessar tegundir háðar þeirri landnotkun.

Dæmi um aðgerðir í náttúruvernd
sem hafa jákvæð áhrif á landbúnað:
 

Verndun eða endurheimt náttúrulegra vistkerfa, hvort heldur sem um ræðir votlendis- eða þurrlendisvistgerðir, viðheldur náttúrugæðum. Endurheimt votlendis miðlar vatni í nærliggjandi umhverfi auk þess að varðveita kolefnisforða sem eykur frjósemi í jarðvegi. Endurheimt þurrlendisvistgerða eykur fjölbreytni og magn beitargróðurs, auk þess sem í tilfelli endurheimtar náttúrulegra skóga eykst skjól fyrir búfé.

 

 

 

 

 
 
 

 


Verkefni og aðgerðir í náttúruvernd sem falla vel að landbúnaði

Ýmis verkefni og/eða aðgerðir á sviði náttúrverndar geta fallið vel að landbúnaði. Land sem er skilgreint sem landbúnaðarland er hlutfallslega stór hluti landsins og samanlagt eru bændur og aðrir eigendur bújarða stærstu landeigendur á Íslandi fyrir utan ríkið. Íslenskir bændur eru þ.a.l. gjarnan nefndir „gæslumenn landsins“ enda hafa þeir sterk tengsl við náttúruna.

-

Möguleg verkefni sem bændur geta tekið að sér á bújörðum sínum eru:

  • Verndun svæða, staða og/eða sérstakra náttúrufyrirbæra
  • Endurheimt landgæða og sjálfbær landnýting
  • Verndun, viðhald og/eða endurheimt vistkerfa, búsvæða og lífbreytileika
  • Endurheimt, viðhald og verndun votlendis og vatnasvæða
  • Umsjón friðlýstra svæða (t.d. viðhald og gerð göngustíga, hliða og girðinga)
  • Stjórnun á veiði
  • Vöktun og rannsóknir á náttúru

Jákvæð áhrif verkefna eða aðgerða sem bændur vinna í náttúruvernd

Verkefni/aðgerðir geta:

  • bætt lífsskilyrði fyrir almenning, t.d. með hreinna vatni, betra lofti o.fl.
  • skapað fjölbreyttari störf til sveita
  • stuðlað að nýliðun/ættliðaskiptum
  • styrkt dreifbýli á jaðarsvæðum
  • gefið möguleika til að marka sérstöðu í markaðsmálum
  • eflt nýsköpun
  • kallað fram jákvæða ímynd á landbúnaði og vörum unnum úr landbúnaðarafurðum