Fara í efni
Yellow Blue Green

Landbúnaður og líffræðileg fjölbreytni

Hvað er líffræðileg fjölbreytni?

Hugtakið „líffræðileg fjölbreytni“ skilgreinir breytileika á meðal lífvera í margbreytilegu umhverfi og nær til allra vistkerfa hvort sem er á landi, sjó eða í vötnum og þeirra vistfræðilegu kerfa sem þau tilheyra. Hugtakið nær til allra tegunda dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera s.s. baktería og veira sem finnast á jörðinni, til búsvæða þeirra, vistkerfa og vistgerða sem lífverurnar mynda. Það nær einnig til þess breytileika sem er að finna milli einstaklinga sömu tegundar og breytileika í erfðaefni þeirra.

Yellow Blue Green

Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða allra vistkerfa og nauðsynleg öllu lífi á jörðinni. Fjölbreytni í lífríki viðheldur heilbrigðum vistkerfum, virkni þeirra og hæfni til að þjóna tilgangi sínum. Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni eru vistkerfi skilgreind sem „kvik tengsl samfélaga jurta, dýra og örvera og hins ólífræna umhverfis þeirra sem starfrænnar heildar“. Vistkerfi eru þ.a.l. starfandi heild sem eru grunnur að tilveru alls lífríkis. 

Virkni vistkerfa getur verið á mismunandi skölum og eftir áherslum hverju sinni en starfsemi þeirra og geta fer eftir líffræðilegri fjölbreytni en ekki einungis fjölda tegunda. Með hnignun líffræðilegrar fjölbreytni fækkar valkostum fyrir lífverur sem skerðir möguleika þeirra til að breytast, þróast og lagast að breyttum aðstæðum. Líffræðilegur fjölbreytileiki hefur þannig bein áhrif á starfsemi og virkni vistkerfa.

 

 -

Með örðum orðum er líffræðileg fjölbreytni lykill að tilveru allra lífvera og getu vistkerfa til að þjóna tilgangi sínum og hæfni þeirra til að viðhalda viðbragðsgetu og seiglu.

 

 

Hnattrænt neyðarástand

Undanfarna áratugi eða aldir hefur mannkynið gengið hratt á auðlindir jarðar. Alvarlegar breytingar hafa orðið á lífríki jarðar og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni mælst í tugum prósenta á síðustu 50 árum. Loftslagsbreytingar og tap líffræðilegrar fjölbreytni eru með stærstu vandamálum nútímans. Þessi vandamál tengjast mjög mikið en eru því miður að miklu leyti höndluð sem aðskilin mál. Gunnur flestra náttúrumiðaðra lausna byggir á virkni vistkerfa, það á m.a. við um aðgerðir í loftslagsmálum og því er mikilvægt að samþætta þær við aðgerðir til verndar líffræðilegri fjölbreytni.

 

 

 

Líffræðilegur fjölbreytileiki í landbúnaði

Í landbúnaði felast mikil verðmæti í líffræðilegri fjölbreytni. Það á bæði við þegar kemur að almennu ræktunarstarfi bænda, t.a.m. búfjárrækt og akuryrkju, sem og nýtingu náttúruauðlinda í búrekstri t.d. úthagabeit grasbíta. Það er því mikilvægt fyrir bændur að reyna eftir fremsta megni að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni til að viðhalda heilbrigði bústofns og tryggja heilbrigði þeirra vistkerfa sem þeir eru háðir.

Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni má að hluta rekja beint til landbúnaðar. Undanfarna áratugi hafa bændur víða um heim gengið hratt á auðlindir náttúrunnar. Stækkun búa og aukin landnotkun hefur oft óafturkræf áhrif á virkni vistkerfa, afleiðingin getur verið eyðing búsvæða sem eykur líkur á hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Til að viðhalda náttúrugæðum og stemma stigu við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni geta bændur lagað bústjórn að umhverfinu og leitað lausnar þar sem búrekstur þeirra verður hluti náttúrunnar. Með þeim hætti verða auðlindir nýttar með sjálfbærum hætti innan þeirra marka sem vistkerfin þola og ná að starfa rétt.

-

Atriði sem gott er að hafa í huga við skipulag og þróun búrekstrar og landnýtingar:

  • Vernda villt eða hálfvillt vistkerfi og búsvæði sem hluta af heildstæðri áætlanagerð og skipulagi er varðar búskap, frístundabyggð eða þéttbýli
  • Vernda og endurheimta kolefnisrík vistkerfi – árangursmiðuð áætlun
  • Stunda búskap sem eykur búsvæðafjölbreytni frekar en minnkar
  • Haga ræktun og meðferð búsvæða þannig að líffræðileg fjölbreytni og kolefnisbinding varðveitist sem best
  • Hafa auga með breytingum lífríkisins og forðast innflutning framandi lífvera
  • Beita náttúrumiðuðum lausnum við endurheimt og mótvægisaðgerðir
  • Beita innsæi og skynjun á umhverfið og styrkja aðlögunarhæfni starfsins

-

Hér eru dæmi um aðgerðir sem hafa jákvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni

Aðgerðir | moi.hi.is

 

Mikilvægi verndunar líffræðilegrar fjölbreytni

Loftslagsbreytingar og tap líffræðilegrar fjölbreytni eru með stærstu vandamálum nútímans. Tilgangurinn með verndun líffræðilegrar fjölbreytni er að styrkja og varðveita til framtíðar þær tegundir sem skapað hafa lífríki jarðarinnar og að koma í veg fyrir að tegundir deyi út. Ef ekkert verður aðhafst í þeim málum mun hnignun halda áfram að aukast sem hefur keðjuverkandi áhrif og ýtir undir frekari loftslagsbreytingar.

-

Tengsl loftslagsbreytinga og líffræðilegrar fjölbreytni eru mikil, þar má nefna að:

  • Hlýnun hefur bein áhrif á lífkerfi á öllum skölum: einstakar lífverur > vistkerfi
  • Áhrif á útbreiðslu lífvera, þ.m.t. ágengar tegundir, - valda á heimsvísu allt að 60% af tapi líffræðilegrar fjölbreytni
  • Líffræðileg fjölbreytni mótar viðnámsþrótt allra lífkerfa: frumur > vistkerfi
  • Fjölbreytt vistkerfi binda kolefni betur – t.d. heilbrigður jarðvegur
  • Hnignandi vistkerfi losa kolefni

 

Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni

Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) var samþykktur á heimsráðstefnu um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro árið 1992. Fulltrúar Íslands undirrituðu samninginn á ráðstefnunni og gekk hann í gildi hér á landi árið 1994.

https://www.cbd.int/

-

Markmið samningsins eru þrjú: að vernda líffræðilega fjölbreytni, stuðla að sjálfbærri nýtingu hennar og tryggja ráðstöfunarrétt ríkja yfir erfðaefni sínu og skiptingu hagnaðar af nýtingu þess.

Samningurinn er mikilvægasta verkfærið til að varðveita líffræðilega fjölbreytni jarðar og náið samstarf og samráð er um framkvæmd hans og annarra alþjóðlegra náttúruverndarsamninga. Til þessa hafa 196 ríki gerst aðilar að samningnum um líffræðilega fjölbreytni. Auk samningsins eru tvær bókanir við hann sem fjalla um erfðabreyttar lífverur (Kartagena bókunin) og aðgang að erfðaefni til nýtingar og skiptingu hagnaðar af slíkri nýtingu (Nagoya bókunin) sem Ísland hefur ekki enn gerst aðili að.