Ræktunarmarkmið fyrir ísl. holdanautastofninn

Almennt ræktunarmarkmið holdagripa
Í framtíðarskipulagi í ræktun íslenskra holdagripa skal lögð áhersla á sjálfbært eldi og heilbrigða gripi með tilliti til þéttleika vöðva og hóflegrar fitu. Gripir skulu hafa góða fóðurnýtingu þar sem stefnt er að hámarksnýtingar beitar og gróffóðurs. Stefnt er að því að halda skyldleika stofnsins í lágmarki, ásamt því að auka fjölbreytileika innan búa með áframhaldandi þróun og notkun á sæðingum og úrvals þarfanautum.

Sérstök ræktunarmarkmið fyrir einstaka eiginleika
Ræktunarmarkmið fyrir kjöt
Stefnt skal að því að rækta þéttholda, bollanga og boldjúpa holdagripi, með þykka vöðva samfara hóflegri fitu með fíngerðri beinabyggingu. Stefnt skal að því að nær öll innlögð holdanaut fari í holdfyllingarflokk R eða betri, þar af 10% í holdfyllingarflokk U. Þá skal stefnt að því 80% af innlögðum holdanautum fari í fituflokka 2 til 3.

Ræktunarmarkmið fyrir vaxtargetu
Hámarka skal vaxtarhraða svo æskilegum fallþunga sé náð á sem skemmstum tíma. Stefnt er að því að meirihluti nauta nái meira en 250 kg fallþunga við að hámarki 18 mánaða aldur.

Ræktunarmarkmið fyrir frjósemi
Leggja skal áherslu á að rækta frjósama gripi sem eiga auðvelt með burð og hafa góða mæðraeiginleika. Stefnt skal að því að kýr beri a.m.k. einum kálfi á ári og kvígur festi fang eigi síðar en við 16 mánaða aldur. Einnig skal stefnt að minni vanhöldum á kálfum og að a.m.k. 90% lifandi fæddra kálfa skili sér við fráfærur.

Ræktunarmarkmið fyrir mjólkurlagni
Leggja skal áherslu á að auka mjólkurlagni þannig að hver kýr mjólki að lágmarki einu bráðþroska afkvæmi á ári. Mæður skili heilbrigðum kálfum með góðan vöxt að lokinni sumar-/haustbeit.

Ræktunarmarkmið fyrir heilbrigði og endingu
Stefnt skal að því að rækta endingargóða og heilbrigða gripi sem eru rólegir í umgengni. Leggja skal áherslu á að halda skyldleika í lágmarki og stækka erfðahóp þessa stofns með innflutningi og sæðingum. Einnig skal huga vel að eiginleikum sem stuðla að endingu gripa, svo sem fótaheilbrigði, klaufheilsu og burðareiginleikum.

Leiðir til að ná settum markmiðum

    • Traust og nákvæmt skýrsluhald er grunnurinn að góðu ræktunarstarfi.
    • Stefnt skal að því að nýta svo þær upplýsingar til útreikninga á kynbótamati, fyrir hverja þá eiginleika sem við getum nýtt í þessum stofni.
    • Auka aðgengi að DNA-staðfestingum á ætterni, til að sannreyna ætterni og auka þ.a.l. öryggi kynbótaútreikninga.
    • Sala úrvalsnauta og sæðingastarfsemi verða enn stærstu þættirnir í dreifingu á erfðaefni innan stofnsins og þar skal leitast við að hafa úrval nauta sem best hverju sinni.
    • Gæta þarf að innbyrðis skyldleika nauta og að hámarksnotkun hvers nauts sé hófleg.
    • Ákveðin vöktun þarf að vera á kjötgæðum t.d. bragðgæðum, fitusprengingu, meyrni o.fl. Skilgreina ætti hvað er mikilvægt hverju sinni, fylgjast með markaðnum og uppfæra eftir þörfum og kröfum hans á hverjum tíma.
    • Heilbrigðisskoðun þarfanauta er í höndum framleiðenda en það eykur öryggi bænda á framleiðslugripum og getur komið í veg fyrir tap í formi tekna og kynbóta.
    • Ómmælingar á bakvöðva og bakfitu eru nauðsynlegar fyrir val á framtíðar kynbótagripum. Framtíðarmöguleikar eru til innleiðingar á mælingum á fitusprengingu. Ómmælingar eru framkvæmdar af ráðunautum RML og gögnin nýtt til framtíðar kynbótastarfs.
    • Holdagripadómar nýtast við val á ásetningi, öflun upplýsinga um þróun kynbóta í stofninum í heild sinni ásamt því að auka öryggi í kaupum og sölu á kynbótagripum milli framleiðenda.

      Stefna ber að sérstöku kynbótamati fyrir íslenska holdagripi. Tillaga að vægi eiginleika sem koma til útreikninga á heildarkynbótamati:
      Eiginleiki Vægi
      Fallþungi 25%
      Gerð 10%
      Fita 10%
      Vaxtarhraði (fall) 35%
      Frjósemi 10%
      Mæðraeiginleikar 10%
      Samtals 100%