Greiðslumark mjólkur 2015 verður 140 milljónir lítra

Í nýútkominni reglugerð um greiðslumark mjólkur og beinar greiðslur til bænda verðlagsárið 2015 er kveðið á um meiri aukningu á greiðslumarki en dæmi eru um áður. Greiðslumarkið eykst um 15 milljónir lítra eða 12% milli ára, úr 125 milljónum lítra á því ári sem senn er á enda í 140 milljónir lítra árið 2015.  Heildarupphæð beingreiðslna er 5.591,8 milljónir kr., samanborið við 5.466 milljónir á þessu ári. Að raungildi er hún óbreytt milli ára. Þetta þýðir að meðalbeingreiðslur lækka í 39,94 kr. á lítra úr 43,73 kr á lítra.

Nokkrar breytingar er að finna í reglugerð næsta árs frá þeirri sem nú er í gildi. Ein stærsta breytingin er sú að til þess að eiga rétt á óskertum A-hluta beingreiðslna þarf framleiðsla að nema að lágmarki 100% af greiðslumarki viðkomandi bús, samanborið við 95% á yfirstandandi ári. Þá eru gerðar talsverðar breytingar á innbyrðis skiptingu beingreiðslna. Hlutdeild A-greiðslna, sem greiddar eru án tillits til framleiðslu í hverjum mánuði að því tilskildu að framleiðsla á lögbýlinu sé a.m.k. 100% af greiðslumarki eins og áður sagði, fara úr 47,67% af heildarupphæðinni niður í 40%. B-greiðslur, sem greiddar eru eftir framleiðslu allt að greiðslumarki hvers framleiðanda, eru því sem næst óbreyttar, lækka úr 35,45% af heildarupphæð beingreiðslna, niður í 35%. C-greiðslur, sem greiddar eru eftir framleiðslu innan greiðslumarks eftir einstökum mánuðum, hækka úr 16,88% í 25%. Innbyrðis skipting C-greiðslna milli mánaða verður þannig að 15% upphæðarinnar greiðist mánaðarlega á tímabilinu júní-nóvember og 10% í desember. Þannig bætast nú C-greiðslur á júnímánuð og er ástæðan sú að á þeim tíma hefur dregið nokkuð hratt úr mjólkurframleiðslunni. 

Þá eru einnig þau nýmæli í reglugerðinni að henni fylgja viðaukar með verklagsreglum um útdeilingu á óframleiðslutengdum og/eða minna markaðstruflandi stuðningi. Þessar breytingar eru mjög til bóta og auka gegnsæi í útdeilingu fjármuna, en þeir skiptast með eftirfarandi hætti milli einstakra verkefna: 98,2 milljónir kr. renna til gras- og grænfóðurræktar, 54,8 milljónum kr. er varið til greiðslna sem tengjast gæðaskýrsluhaldi, 27,1 milljón kr. fer til stuðnings við nýliða í stétt mjólkurframleiðenda og 13,3 milljónir kr. renna til þróunarsjóðs búgreinarinnar.

Sjá nánar:

Reglugerð um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda verðlagsárið 2015

/gj