Nýtt kynbótamat og ný reynd naut til notkunar

Kraki 09002
Kraki 09002

Fagráð í nautgriparækt fundaði í gær og ákvað hvaða reyndu naut verða til notkunar í vetur. Ákveðið var að gera ekki aðrar breytingar en þær að setja tvö ný naut í notkun sem reynd naut úr árgangi 2009. Þetta eru þeir Kraki 09002 frá Egilsstaðakoti í Flóa undan Þolli 99008, móðurfaðir Soldán 95010, og Bolti 09021 frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi undan Spotta 01028, móðurfaðir Snotri 01027. Þetta eru fyrstu nautin sem koma til notkunar sem reynd naut úr þessum nautaárgangi.

Ástæða þess að ákveðið var að gera ekki aðrar breytingar á dreifingu sæðis úr reyndum nautum er sú að fyrri dómar á þeim hafa í meginatriðum staðið og ekki orðið miklar breytingar á mati þeirra. Hafa verður þó í huga að töluvert er farið að ganga á sæðisbirgðir úr ákveðnum nautum en þau verða í notkun svo lengi sem sæði er til úr þeim. Þetta á við um Hjarða 06029, Sand 07014, Húna 07041, Lög 07047, Laufás 08003 og Klett 08030.

Af nautum fæddum 2008 eru þau naut sem áhugaverð eru til framhaldsnotkunar nú þegar komin í notkun. Ekkert þeirra nauta sem ekki voru komin með nægan dætrafjölda við keyrslu kynbótamats í júní s.l. slær þeim nautum sem þegar voru komin í notkun við. Má segja að afkvæmadómi árgangsins sé lokið.

Upplýsingar um reynd naut í notkun hafa verið uppfærðar á nautaskra.net auk þess sem kynbótamat hefur verið uppfært þar eins og í nautgriparæktarkerfinu Huppu.

Þá má geta þess að fagráð valdi Sand 07014 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum besta sæðinganaut fætt árið 2007 og verður ræktendum hans afhent viðurkenning á fagþingi nautgriparæktarinnar í mars n.k.

Sjá nánar:

Nautaskra.net

/gj