Pantanir á sýnatökuhylkjum – um nýtt pöntunarkerfi og niðurgreiðslur

Það styttist í vorið og því ekki seinna vænna fyrir sauðfjárbændur að fara að gera sig klára fyrir sauðburð. Eitt af því sem fyrir flesta verður ómissandi er sýnatökubúnaður til að taka DNA sýni úr lömbum. Hér verður nokkrum hagnýtum atriðum komið á framfæri.

Nýtt pöntunarkerfi
Nú er komið í notkun nýtt pöntunarkerfi, inn á heimasíðu RML, fyrir pantanir á hylkjum og töngum. Helstu breytingar gagnvart bóndanum eru að nú eru hylki og tangir keypt í gegnum vefverslun sem sett hefur verið upp á heimasíðunni. Hylkin sem bóndinn fær úthlutað verða skráð á bóndann í Fjárvís og því munu bændur geta séð þar hvaða hylki þeir eiga. Þá hefur Fjárvís verið forritaður þannig að hægt verður að fylgjast með því hvenær hvert hylki er farið af stað í greiningu. Þessi viðbót er ætluð til þess að minnka villuhættu þegar forskráning sýna fer fram og auka upplýsingagjöf til bænda.

Varðandi pantanir hylkja er rétt að hafa í huga að valmöguleikinn „sækja á starfsstöð“ verður aðeins í boði til 7. apríl, en eftir það verða öll sýni send í pósti til bænda og greiðir viðtakandi póstkostnað.

Niðurgreiðslur
Sýni vegna arfgerðagreininga á vegum RML eru nú greind hjá Íslenskri Erfðagreiningu. Kostnaður við hvert sýni er 1.600 kr án vsk. Inni í þessu verði er kostnaður við hylkin. Hylkin eru seld sér og kosta 300 kr. án vsk og standa því 1.300 kr. eftir þegar búið er að kaupa hylkið.

Matvælaráðuneytið greiðir hvatningastyrki sem koma til lækkunar á greiningarkostnaði. Sýni úr afkvæmum gripa sem bera ARR (verndandi arfgerð) verða niðurgreidd um 1.300 kr. Sýni úr afkvæmum gripa sem bera mögulega verndandi arfgerðir (T137, C151 eða H154 / AHQ) eru niðurgreidd um 650 kr .

Greiningarkostnaður með hylki mun því verða:

300 kr. án vsk úr afkvæmum gripa með ARR og 950 kr. án vsk úr afkvæmum gripa með mögulega verndandi arfgerðir.

Þá verða greiningar á öllum ásettum hrútum niðurgreiddar um 1.300 kr., þó þeir séu ekki undan greindum foreldrum.

Styrkirnir verða dregnir frá greiningarkostnaði þegar verkefnið verður gert upp í lok árs og verður þá miðað við upplýsingar í Fjárvís 13. desember, en þá ætti að liggja fyrir hvaða hrútar voru settir á.

Styrkupphæð er birt með fyrirvara um að heildarupphæðin sem er eyrnamerkt verkefninu dugi en áætlanir gera ráð fyrir umfangsmiklum sýnatökum og almennri þátttöku í verkefninu. Verður því að teljast ólíklegt að til þess komi að styrkirnir lækki.

Úr hvaða gripum skal taka sýni?
Áður en pantað er þurfa bændur að leggja niður fyrir sér umfangið. Þeir sem munu eiga meira af lömbum með V og MV arfgerðir en nýtast til ásetnings munu því þurfa að takmarka eitthvað sýnatökuna, en óþarfi er að greina mikið af lömbum sem fyrirsjáanlegt er að verði sláturlömb. Þar sem notaðir hafa verið arfblendnir hrútar og því „vinningslíkurnar“ 50% að lambið beri V eða MV arfgerð gæti þumalputtareglan verið að sýnatöku þörfin verði rúmlega tvisvar sinnum sá fjöldi lamba sem setja skal á eða selja. Líklegt er að flestar gimbrar sem bera V eða MV nýtist til ásetnings en ljóst að ekki verða allir hrútar settir á.

Áherslurnar ættu því að felast í því að taka sýni úr sæðingalömbunum, álitlegum ásetningslömbum sem gætu borið V eða MV arfgerðir og sérstaklega að reyna að ná úr öllum lömbum sem gætu verið arfhrein V/V eða MV/MV eða arfblendin V/MV. Mikill akkur er í því að koma upp hrútum sem fyrst sem bera tvö „græn flögg“ og á áhættusvæðum ætti annað flaggið að vera dökkgrænt (gripurinn beri a.m.k. eina ARR samsætu).

/okg