RML leitar að þátttakendum í ómmælingum holdagripa

Ómmælingar á holdagripum eru komnar til Íslands. Í Bandaríkjunum og fjölda landa í Evrópu, þar á meðal Noregi, nota bændur sömu aðferð við ræktun holdagripa. Rannsóknir sýna að tiltölulega hátt arfgengi er á þykkt hryggvöðva og -fitu (<0,3) í Aberdeen Angus og því er upplagt að byggja ræktunina á því.

Íslenski holdanautastofninn samanstendur aðallega af blöndu þriggja kynja, Galloway, Limosín og Abeerdeen angus. Færa má rök fyrir því að stofninn sé frekar gamall og má gera ráð fyrir að erfðaframfarir hafi verið litlar þangað til hið nýja erfðaefni var flutt til landsins. Með tilkomu nýja erfðaefnisins frá Noregi hefur aukist áhugi meðal holdagripabænda á því að geta stundað markvissari ræktun og m.a. valið ásetninginn með tilliti til þykktar bakvöðva og -fitu. Því ákvað RML að innleiða ómmælingar holdagripa vorið 2024 sem viðbót við útlitsdóma sem voru innleiddir vorið 2023. Ditte Clausen og Linda Margrét Gunnarsdóttir fengu þjálfun í hvoru tveggja í Noregi síðasta vor.

Holdakynin eru mismunandi þegar kemur að vöðvadýpt og fitulagi, því er nauðsynlegt að kortleggja meðaltal íslenska holdastofnsins. RML er því að leita að þátttakendum í gagnasöfnunina. Allir holdagripabændur geta tekið þátt ef neðangreindum kröfum er mætt:

  • Aðeins eru mæld bakvöðvi og -fita á holdagripum
  • Gripirnir (kvígur og naut) þurfa að vera á aldursbilinu 290-460 daga
  • Tökubás þarf að vera tiltækur eða rólegir gripir í áreiðanlegum læsigrindum
  • Æskilegast er að hafa þungaskráningu sem eru ekki eldri en 7 daga frá mælingu en ekki krafa
  • Rafmagn þarf að vera til staðar, ef um mikinn fjölda gripa er að ræða

Þróunarfé nautgriparæktarinnar styrkir RML við gagnasöfnun og eru ómmælingarnar því bændum að kostnaðarlausu. Bændur geta nýtt mælingarnar við val til ásetnings með leiðbeiningum ráðunautar RML, en gögnin munu einnig nýtast til kynbótamats á þessum eiginleikum í framtíðinni.

Ef þið hafið áhuga endilega hafið samband við Lindu (s: 516-5009, linda@rml.is) eða Ditte (s: 516-5011 ditte@rml.is).

/okg