Styrkir vegna afkvæmarannsókna í sauðfjárrækt

Líkt og undanfarin ár geta bændur fengið styrk út á afkvæmarannsóknir á hrútum en verkefnið er styrkt af fagfé sauðfjársamnings.

Skilyrðin eru eftirfarandi:

  • Í samanburðinum þurfa að vera a.m.k. 5 veturgamlir hrútar (fæddir 2013). Sjálfsagt er að hafa eldri hrúta með í uppgjörinu ef þeir eru samanburðarhæfir.
  • Hjá hverjum hrút þurfa að liggja fyrir upplýsingar um a.m.k. 8 lömb af sama kyni sem hafa verið ómmæld og stiguð og a.m.k. 15 lömb með sláturupplýsingar.
  • Æskilegt er að ærhóparnir sem hrútarnir eru notaðir á séu sem best samanburðarhæfir, því er t.d. ekki marktækt að bera hrút sem eingöngu er notaður á gemlinga saman við hrúta notaða á blöndu af eldri ám. 
  • Vista þarf uppgjörið í fjárvis.is og senda síðan tilkynningu á ee@rml.is fyrir 15. nóvember. Rétt er að tilgreina nafn og kennitölu þess sem er viðtakandi styrksins og fjölda veturgamalla hrúta í uppgjörinu.

Styrkupphæðin er 2.000 kr. á hvern veturgamlan hrút. Rétt er að benda á að þegar uppgjörið er gert er hægt að henda út lömbum sem skekkt geta niðurstöður s.s. undanvillingum. Nákvæmast er að nota eingöngu gengna tvílembinga. 

Ráðunautar RML geta veitt mönnum aðstoð og leiðbeiningar eftir því sem þörf krefur um tæknileg atriði eða túlkun niðurstaðna. Hins vegar ef menn vilja að ráðunautar sjái alfarið um uppjörið á rannsókninni þá fellur það undir gjaldskylda vinnu.

Leiðbeiningar varðandi uppgjör:
Veljið „afkvæmarannsókn“ í Fjárvís.is. Farið svo í uppgjör og veljið „lifandi lömb“ og síðan „kyn“. Þá er hægt að sækja hrútalista. Velja þarf síðan hrútana sem eiga að vera með í uppgjörinu. Þá er sóttur lambalisti. Þarna má henda út lömbum ef þurfa þykir. Síðan er valið „Reikna uppgjör“. Þá koma niðurstöður byggðar á mati á lifandi lömbum. Ef í ljós kemur að einhver hrútanna á ekki nógu mörg afkvæmi má endurtaka leikinn og skilja þá hrúta eftir, ef allt er klárt þá má vista uppgjörið.

Þá er leikurinn endurtekinn fyrir kjötmatshlutann. Farið er í uppgjörið og valið „kjötmat“. Setja þarf vægi á vöðva og fitu. Almennt er notað 50% vægi á hvorn eiginleika. Síðan er hrútalistinn sóttur, og þar á eftir lambalistinn. Ef allir hrútarnir hafa náð tilskildum fjölda (15 sláturlömbum hver) og búið að undanskilja þau lömb, sem bóndinn telur að eigi ekki heima í samanburðinum, þá er rétt að vista uppgjörið. Þar með er afkvæmarannsóknin frágengin.

ee/okg