Erfðagallinn flátta

Flátta er erfðagalli sem lýsir sér í því að fram- og afturspenar öðrum megin á júgrinu eru samvaxnir í einn spena, aðeins örlítið klofinn í endann. Víða um land er fólk að nota fláttu um samvaxna dvergspena við annan hvorn afturspenann. Í slíkum tilvikum er hins vegar ekki um fláttu að ræða.
Flátta er víkjandi galli sem ræðst af erfðavísi í einu sæti. Aðalatriðið í sambandi við slíka eiginleika er að átta sig á því að meinsemdin kemur frá báðum foreldrum, á annan hátt getur eiginleikinn ekki birst. Slíkum galla er ekki hægt, með fullri vissu, að útrýma úr stofninum meðan genið sjálft er ekki þekkt, þannig að það megi finna með arfgerðargreiningu

Fláttutilvik eru góðu heilli fátíð í íslenska kúastofninum. Laust fyrir 1960 kom eiginleikinn fyrir í dætrahópum undan nautum sem þá voru í afkvæmarannsókn í Laugardælum. Síðan virðast vart dæmi um slíka gripi um langt árabil og um tíma var talið að eiginleikanum hefði jafnvel verið útrýmt úr stofninum. Því miður er ekki svo. Laust fyrir 1990 kemur í notkun fyrsta nautið sem ber þennan galla (Draumur 84030). 

Síðan hafa örfá slík naut komið fram. Hins vegar er tíðni eiginleikans orðin mjög lág í stofninum, sem betur fer, og því illmögulegt að finna alla gripi við afkvæmarannsóknir. 

Lykilatriði er að sjálfsögðu að upplýsingar komi um alla gallagripi, vegna þess að þeir verða að hámarki 1-3 undan hverju nauti. Hættan er að sjálfsögðu, ef gallinn kemst í gegnum fyrstu hindrun, að naut sem bera hann komist í notkun sem reynd naut. Slíkt hefur því miður gerst. Þekkt eru tilvik undan Túna 95024 og Umba 98036 sem virðast báðir hafa búið yfir þessum galla.

Verði menn varir við fláttutilvik biðjum við um að tilkynnt sé um þau til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.