Gróffóðurkostnaður

Kostnaður við gróffóðuröflun
Fóðuröflun nautgriparæktar, sauðfjárræktar og hrossaræktar á Íslandi byggist fyrst og fremst á grasrækt og nýtingu graslendis. Það er því mjög mikilvægt að hafa góða kostnaðarvitund gagnvart þeim þáttum sem mynda kostnað við öflun gróffóðurs. Eðli málsins samkvæmt þá byggist kostnaðurinn á flóknu samspili umhverfis-, tækni- og bústjórnarlegra þátta. Árangur til hagræðingar í þessum atriðum byggir þar af leiðandi á að bændur séu vel meðvitaðir um þá. Hér á eftir er stiklað á stóru varðandi þetta. Hjá RML hafa verið unnin nokkur reiknilíkön undanfarin ár sem ráðunautar styðjast við þegar gróffóðuröflunarkostnaður er skoðaður hjá einstaka búum og leitað er leiða við að lækka hann til skemmri eða lengri tíma.

Ræktunartíðni
Kostnaður við endurræktun túna er hluti af fóðuröflunarkostnaðinum. Það er mismunandi hvað kostnaður við endurræktun túna er hár og fer það eftir aðstæðum á hverjum stað. Þessar misjöfnu aðstæður hafa eðlilega mikil áhrif á ákvarðanir um endurræktun en þar má m.a. nefna halla lands, grjóts í jarðvegi og hættu á kali. Mikilvægt er að vanda til verka og leiða hugann að öllum þáttum sem geta orðið til þess að bæta árangur af endurræktuninni þar sem grunn/upphafs kostnaðurinn er sá hinn sami. Því er þýðingarmikið að vega og meta alla þá þætti sem bætt geta útkomuna þegar á heildina er litið þó að hugsanlega þurfi að leggja í meiri vinnu og/eða kostnað í upphafi. Þá þarf að hafa í huga að við jarðvinnslu losnar koltvísýringur út í andrúmsloftið og því mikilvægt að ávinningur endurræktunarinnar skili sér í betra kolefnisspori annars staðar í framleiðsluferli búsins.

Tilgangur endurræktunar er fyrst og fremst að auka gæði gróffóðurs og uppskerumagns en einnig spilar inn þörf á sáðskiptum tengd annarri ræktun, hreinsun skurða, þörf á að kalka eða til að slétta tún til að auka afköst í heyskap og minnka viðhald búvéla.

Þegar vel tekst til og notaðar eru uppskeru- og kraftmiklar fóðurjurtir (grös og/eða smárar) má fá sem mest út úr hverri landeiningu og áburður skilar sér í magni og gæðum eins og best verður á kosið. Það fer síðan eftir búgrein og framleiðslu og öðrum aðstæðum viðkomandi bús hvar mörkin liggja varðandi hversu ört skynsamlegt er að endurrækta tún. Hafa verður í huga að ending sáðgresis í túnum getur verið mjög breytilegt eftir umhverfisaðstæðum en hægt er að hafa mikil áhrif á endinguna með réttri meðferð túnanna svo sem varðandi sláttutíma, beitarálagi og umferð.

Tilraunir hér á landi með vallarfoxgras hafa sýnt að uppskera fellur jafnt og þétt frá endurræktunarári og samantekt tilrauna sína að á fjórða ári getur hún verið um 77% af uppskeru fyrsta árs eftir sáningu(1). Enn mikilvægara er þó að auka gæði uppskerunnar og þar með fóðrunarvirðið (fóðurgildi*átgeta). Rannsóknarniðurstöður og reynsla bænda benda til þess að hlutdeild sáðgresis sé að mestu horfið úr túnum eftir 5-7 ár og hafa skoðanir á túnum leitt í ljós að rýrnun nemur um 7% að jafnaði á ári(1). Ending sáðgresis byggir mikið til á umhverfisþáttum eins og sýrustigi og framræslu og síðan á meðferð túna svo sem sláttutíma og beitarálagi. Því er ljóst að mikilvægt er að vanda vel til endurræktunar og huga vel að meðferð túna til þess að sáðgresi skil góðri uppskeru og endist vel.

Heimildir:
(1) Jónatan Hermannsson, 1998. Sáðskipti I, Ráðunautafundur. 99-103.

Fóðurþarfir, gæði gróffóðurs.
Fóðurþarfir gripa eru mismiklar, m.a. eftir aldri þeirra og stærð. Það eru líka ólíkar kröfur sem við gerum til fóðurgæða eftir því hvaða búfjártegund fóðrið er ætlað og eins eru kröfur um fóðurgæði ólíkar eftir því á hvaða tímabili fóðrið er ætlað tilteknu búfé. Þannig eru ekki sömu kröfur gerðar til fóðurs sem ám er gefið miðsvetrar, fyrir fengitíma eða á sauðburði. Sama má segja um mjólkurkýr, fyrir þær eru gerðar meiri kröfur um fóðurgæði í byrjun mjólkurskeiðs en í lok þess. Fóður sem hentar kúm í geldstöðu er svo annarrar gerðar. Kröfur til fóðurs fyrir hross í brúkun eru aðrar en fyrir hross á útigangi.

Afurðastig búsins og væntingar um það ráða því hve stór hluti gróffóðurs þarf að vera úrvalshey og þar með hve hratt þarf að endurvinna túnin. Grænfóðurrækt að ákveðnu marki er einnig leið til að auka hlutfall af úrvals gróffóðri á búinu.

Gott gróffóður má segja að sé þannig að samsetning þess af helstu fóðurefnum henti því búfé sem það er ætlað hverju sinni. Mikilvægustu þættirnir sem horft er á eru innihald af orku og próteini en tréni og aska (stein- og snefilefni) skipta líka máli. Gróffóður getur ekki talist gott nema það sé lystugt og étist vel.

Með sláttutíma má hafa afgerandi áhrif á efnamagn uppskeru þar sem hlutfall breytist yfir vaxtartímann. Frá upphafi til enda vaxtartímans er í grófum dráttum hægt að segja að meltanleiki og þar með orkuinnihald lækki, trénismagn hækki, magn próteins, fosfórs og kalís lækki en önnur steinefni breytast óreglulega. Það er misjafnt milli grastegunda hve hratt þetta ferli er, t.d. lækkun meltanleika og próteins en smári heldur meltanleika sínum lengur en grös. Því fyrr sem slegið er verður magn uppskeru hins vegar minna og því þarf að vega og meta þarfir um magn og gæði uppskeru hverju sinni.

Grastegundir sem sáð er í nýræktir hafa eftirsóknarverða eiginleika umfram þær tegundir sem fyrir eru. Þar getur verið um að ræða meiri uppskeru (grös) eða betra og lystugra fóður (grös og belgjurtir). Flestar grastegundir sem sáð er í tún eiga að geta gefið talsvert meiri uppskeru af orkuríku gróffóðri en ríkjandi tegundir í eldri túnum. Mikilvægt er að vanda jarðvinnslu, sáningu og frágang þannig að illgresi og eldri gróður spilli ekki uppskeru. Ending sáðgresis er hins vegar misjafnlega góð og hlutdeild þess í uppskerunni lækkar með árunum, misjafnlega hratt eftir tegundum, ræktunarskilyrðum og meðferð.

Nýræktir eða nýleg tún ættu að gefa talsvert meiri uppskeru en gömul tún af gróffóðri sem flokka má sem afurðafóður fyrir mjólkurkýr og sem úrvals sauðburðarhey. Jafnframt á gróffóður af nýlegri túnunum að vera lystugra og hafa þannig talsvert meira fóðrunarvirði en það sem gömlu túnin gefa. Þegar minni kröfur eru gerðar um orkuinnihald við slátt verður uppskerumunurinn ekki eins mikill milli yngri túna og eldri.

Ýtarefni:
Ingvar Björnsson, 2001. Gróffóður á kúabúum. Landbúnaðarháskóli Íslands, 38.

Ríkharð Brynjólfsson, 1994. Áhrif háarsláttar á uppskeru og gæði heyja. Ráðunautafundur, 206-2013. Þóroddur Sveinsson, 2001.

Vallarfoxgras er grasið mitt, 1. hluti. Freyr 97, 7-14.

Framræsla
Á seinustu öld hafði framræsla votlendis mikil áhrif á landbúnað og lagði hún grunn að stórum hluta landbúnaðarframleiðslu dagsins í dag. Þó að í dag hafi dregið verulega úr greftri nýrra skurða til framræslu er mikilvægt að hreinsa upp úr og viðhalda framræslukerfum á ræktarlandi.

Góð framræsla hefur ýmis jákvæð áhrif á ræktunarskilyrði og jarðveg. Megin tilgangur framræslu er að lækka grunnvatnsstöðu þannig að laust vatn úr stærri holum jarðvegs geti sigið burt. Við það kemst loft niður í jarðveginn og þurrlendis nytjaplöntur geta þrifist þar. Við þessa auknu loftun kemst súrefni að jurtaleifum og örðum lífrænum efnum sem ekki hafa náð að rotna að fullu í vatnssósa umhverfi fyrir framræslu4. Þessar leifar fara að rotna og við það losnar um næringarefni sem í þeim voru bundin. Við rotnunina myndast CO2 sem skilar sér upp í andrúmsloftið (3,4).

Samhliða endurræktun nota margir tímann í að bæta framræsluna og hreinsa upp úr eldri skurðum sem gengið hafa úr sér. Í illa framræstu landi verða léleg loftskipti niður í jarðveginn og koltvísýringur byggist upp í jarðvegi. Köfnunarefni tapast einnig að hluta vegna afnítrunar og meiri líkur eru á því að þolið illgresi nái sér á strik í túnum(1).

Þurr jarðvegur hlýnar fyrr á vorin og er að jafnaði heitari yfir vaxtatíman en rakur jarðvegur(4).

Það fylgir því kostnaður að hreinsa og viðhalda framræslukerfum. Það hefur þó verið sýnt fram á góð framræsla hefur jákvæð áhrif á ræktun og að sá útlagði kostnaður skili sér í bættu ræktarlandi. Í illa framræstum spildum getur komið fram lélegri lifun nytjaplantna og minni uppskera. Í tilraun með vallarrýgresi á Írlandi sem framkvæmd var á lífrænni votlendisjörð jókst uppskera með betri framræslu og sem dæmi var 19% hærri uppskera þurrefnis á öðru ári í reitum með 90 cm vatnstöðu samanborið við 60 cm. Þegar áburðarskammtur af köfnunarefni var hækkaður varð uppskeru aukinn hins vegar ekki marktækur(2).

Heimildir og ítarefni.
(1)Ashman, M., & Puri, G. (2003). Essential soil science – A clear and concise introduction to soil science. Oxford: Blackwell Publising company.

(2)Burke W. (1969). Effect of Drainage on Crop Yield on Blanket Peat. Irish Journal of Agricultural Research, Vol. 8.

(3)Janzen, H. (2006). The soil carbon dilemma: Shall we hoard it or use it? Soil Biology &
Biochemistry 38.

(4)Þorsteinn Guðmundsson (2018). Jarðvegur – myndun, vist og nýting. Háskólaútgáfan.

Kölkun
Ef hækka þarf sýrustig ræktunarjarðvegs er nauðsynlegt að kalka enda hefur pH áhrif á aðgengi plantna að næringarefnum í jarðvegi. Kjörsýrustig fóðurjurta er á bilinu pH 5,5-7 og reynslan sýnir að oftar en ekki sé þörf á að hækka sýrustig í ræktunarlandi eigi að taka mið af því. Sýrustig jarðvegs er mismunandi eftir jarðvegsgerðum og umhverfisþáttum en ræktun hefur líka áhrif á sýrustig, ýmist til hækkunar eða lækkunar.

Bæði bein og óbein áhrif af kölkun
Óbein jákvæð áhrif kölkunar eru að með kalkgjafanum koma inn efni eins og katjónirnar Ca++ og Mg++ sem er mikilvægt fyrir uppskeruna og heygæði. Eins getur kölkun líka haft óbein jákvæð áhrif á örveruvirkni í jarðveginum með aukinni upptöku plantna á næringarefnum og umbreytingu þeirra. Kölkun hefur líka jákvæð áhrif á jarðvegsbygginguna og niðurbrot lífrænna efna í jarðvegi. En mikilvægast af öllu er kannski það að kölkun eykur nýtingu næringarefna og þar með áburðarefna.

Nýjar erlendar samantektir – ekki augljóst samband vegna breytileika
Nú allra síðustu ár hafa verið teknar saman niðurstöður erlendra tilrauna til að reyna að finna mikilvæga þætti er snúa að sýrustigi jarðvegs og kölkun á uppskeru1. Þær niðurstöður undirstrika að erfitt getur verið að fá fram afgerandi almennar niðurstöður um áhrif kölkunar þar sem umhverfisaðstæður skipta mjög miklu máli auk þess sem bæði jarðvegsgerð og plöntutegund hafa líka lykil áhrif. Vísbendingar eru um að kölkun auki í raun alltaf uppskeru en vegna áhrifa margra umhverfisþátta sem erfitt er að hafa stjórn á í tilraunum þá kemur uppskeruaukning ekki alltaf fram. Í þessum erlendu samantektum kemur líka fram að ekki eru til spákúrfur byggðar á tilraunum sem segja til um uppskeruaukningu eftir mismunandi sýrustigi jarðvegs fyrir okkar helstu fóðurjurtir.

Áhrif kölkunar til hækkunar á pH
Þegar horft er á áhrif kölkunar er hægt að skipta þeim í tvennt, annars vegar áhrif á hækkun á pH í jarðvegi og hins vegar áhrif á uppskeru. Íslenskar niðurstöður eru ekki aðgengilegar, sem neinu nemur, en ef tekið er saman það sem kom fram í mjög stórri yfirlistgreiningu (e. meta-analysis)2 að þegar áhrif af kölkun á pH er skoðað eru þau mjög háð eiginleikum kalkgjafans (svo sem kornastærð og tegund) ásamt jarðvegeiginleikum, svo sem buffervirkni og lífrænu efni í jarðvegi.

Í fyrrnefndri yfirlitsgreiningu voru fjórar tegundir kalkgjafa bornar saman, Dolomite kalk (CaMg (CO3)2), leskja kalk (Ca(OH)2), Calcium carbonate (CaCO3) og Calcium oxide ((CaO) = brennt kalk). Leskjaða kalkið hækkaði pH í jarðvegi alltaf marktækt meira en hinar kalktegundirnar vegna meiri leysanleika. Hins vegar var aðeins marktæk hækkun á pH í jarðvegi með Dolomite kalki þegar magnið var orðið meira en 3 t/ha. Í rannsókninni kom fram að 3-6 t/ha af kjalkgjafa var „virkni þröskuldurinn“ til hækkunar á pH í jarðvegi óháð umhverfi þannig að meira magn en 6 t/ha skilaði ekki marktækt meiri pH hækkun. Virkni kalkgjafans fer annars eftir leysanleika hans sem fer m.a. eftir kornastærð en dreifingaraðferð virðist hafa minna að segja þó að betur komi út að koma kalkgjafa í samband við jarðveginn heldur en að dreifa á yfirborð. Og einnig er mikilvægt að hafa í huga að langtíma áhrif einstakra kalkgjafa skipta líka máli þó að ekki sé það tekið fyrir hér.

Jarðvegsgerðir breyta áhrifum kalkgjafa til hækkunar á pH
Þegar litið er til jarðvegsgerða þá kom fram að áhrif kölkunar er meiri í sendnum jarðvegi heldur en leirkenndum og þarf hefur lífrænt efni í jarðvegi mest áhrif. Aðeins var marktækur munur á áhrifum kölkunar eftir lífrænu efni í jarðvegi þegar það var annars vegar minna en 10 g/kg og svo hins vegar meira en 30 g/kg, þannig að jarðvegur með lífrænt efni á milli 10 og 30 g/kg var ekki marktækt frábrugðinn jarðvegi með lífrænt efni minna en 10 g/kg. Mjög mikilvægt er að hafa í huga að einstaka jarðvegsgerðir geta leitt til annarra áhrifa af kölkun á pH í jarðvegi. Tekið saman þá var það magn kalkgjafa sem var sá þáttur sem skipti mestu máli þegar kom að breytingum á pH í jarðvegi og þar á eftir kom lífrænt efni í jarðvegi (SOM) og svo upphaflegt pH gildi en síðast, og minnst mikilvægast, var dreifingaraðferð.

Áhrif kölkunar á uppskeru
Þegar áhrif kölkunar á breytingar á uppskeru eru skoðaðar þá kemur skýrt fram að það er plöntutegundin sem er sá þáttur sem mestu skipti en þar á eftir kom jarðvegsgerð, svo tegund kalkgjafa og síðast dreifingaraðferð. Þannig að þegar skoða á áhrif kölkunar á pH sem gefur hámarks uppskeru verður að muna að tegundir hafa mismunandi kjörsýrustig og þola mis vel frávik frá því. Kölkun jók uppskeru marktækt mest hjá belgjurtum sem er í samræmi frekar hátt kjörsýrustig þeirra tegunda. Mikilvægt er að vera sér meðvitaður um að uppskeruaukning kemur ekki endilega fram strax heldur jafnvel á 3. og 4. ári(3).

Margir áhrifaþættir
Af öllu þessu er ljóst að það er alls ekki einfalt mál að segja til um hvað tiltekið magn af kalki þarf til að annað hvort að hækka sýrustig jarðvegs um tiltekið pH gildi eða til að fá tiltekinn uppskeruauka. Jarðvegsgerð skiptir mjög miklu máli í þessu sambandi og þar er jónrýmd jarðvegsins einna mikilvægust og lífrænt innihald hans. Til viðbótar við grunn jarðvegsgerð spila svo aðrir þættir veigamikið hlutverk eins og áfok. Hins vegar er ljóst að mikilvægt er að kalka og þannig hafa kölkun inni í ræktunarkostnaði. Ef tekið er dæmi frá Svíþjóð4 þá takmarkaðist uppskera mest af pH í jarðvegi, lífrænu efni í jarðvegi (SOM), plöntu nýtanlegu P og meðaltals árs hitastigi, í þessari röð. Of súr jarðvegur hafði þannig mest neikvæðu áhrifin á uppskeru en lífrænt efni í jarðvegi hafði óbein neikvæð áhrif á uppskeru með því að lækka pH gildi þar sem lífrænt efni var hátt. Sýring jarðvegs í ræktun bæði eykst og fer líka dýpra niður í jarðveginn með tímanum og því er mjög mikilvægt að hafa kölkun með sem þátt í ræktunar skipulagi og ræktunarkostnaði.

(1)Li, Y., Cui, S., Chang, S.X. og Zhang, Q. 2019, Liming effects on soil p Hand crop yield depend on lime material type, application method and rate, and crop species: a global meta-analysis. Journal of Soils and Sediments. 19:1393-1406.; Holland, J.E., White, P.J., Glendining, J.M., Goulding, K.W.T. og McGrath, S.P. 2019. Yield responses of arable crops to liming – An evaluation of relationships betwee yields and soil pH from a long-term liming experiment. European Journal og Agronomy, 105: 176-188.; Kirchmann, H., Börjesson, G., Bolinder, M.A., Katterer, T. og Djodjic, F. 2020. Soil properties currently limingting crop yields in Swedish agriculture – An analysis of 90 yield survey districts and 10 long-term field experiments. European Journal og Agronomy, 120.

(2)Li, Y., Cui, S., Chang, S.X. og Zhang, Q. 2019, Liming effects on soil p Hand crop yield depend on lime material type, application method and rate, and crop species: a global meta-analysis. Journal of Soils and Sediments. 19:1393-1406.

(3)Malhi, S.S., Nyborg, M. og Harapiak, J.T. 1998. Effects of long-term N fertilizer-induced acidification and liming on micronutrients in soil and in bromegrass hay. Soil & Tillage Research, 48: 91-101.

(4)Kirchmann H., Börjesson, G., Bolinder, M.A., Katterer, T. og Djodjic, F. 2020. Soil properties currently limingting crop yields in Swedish agriculture – An analysis of 90 yield survey districts and 10 long-term field experiments. European Journal og Agronomy, 120.