Ræktunarmarkmið f. ísl. kúakynið

Ræktunarmarkmið fyrir íslenska kúakynið

Inngangur:
Í framtíðarskipulagi á ræktun íslenska kúakynsins skal lögð áhersla á að gera íslenska nautgriparækt svo sjálfbæra sem kostur er. Haft verður að leiðarljósi að samþætta framfarir þeirra eiginleika sem skipta meginmáli fyrir mjólkurframleiðslu á hverjum tíma en jafnframt skal gæta þess að halda ásættanlegum erfðabreytileika og sveigjanleika til að bregðast við breyttum aðstæðum. Íslenska kúakynið verði ræktað áfram sem megin framleiðslukyn greinarinnar. Kynbótaskipulag og ræktunarstarf taki mið af fjölþættum markmiðum með mikilli áherslu á eiginleika sem tengjast lífsþrótti og endingu. Lögð verði áhersla á að nýta erfðatækni til fullnustu við skipulagningu kynbótastarfsins. Lögð verði áhersla á samfélagslega samstöðu og skyldur þess við varðveislu hins líffræðilega fjölbreytileika. Í ljósi þessa eru ræktunarmarkmið íslenska kúakynsins eftirfarandi.

I. Almenn ræktunarmarkmið:
I.1 Afurðasemi, frjósemi, ending
Ræktunarmarkmið íslenska kúakynsins miðar að því að rækta heilbrigðar, frjósamar og endingargóðar kýr með samþættingu afurðaeiginleika og eiginleika er tengjast lífsþrótti og endingu í heildar kynbóteinkunn. Ræktunarmarkmið íslenska kúakynsins miðar að því að viðhalda miklum erfðabreytileika og lágmarka skyldleikarækt svo sem kostur er.

I.2 Sköpulag, skap og sérkenni
Ræktunarmarkimið er að rækta sterkbyggðar kýr og háfættar kýr með góða bolrýmd og gott skap. Ræktunarmarkmið er að rækta kollóttar kýr og viðhalda öllum mögulegum litaafbrigðum innan stofnsins.

II. Sérstök ræktunarmarkmið fyrir einstaka eiginleika
II.1 Afurðir
Ræktunarmarkmiðið miðar að því að rækta kýr sem skila miklum afurðum þegar á fyrsta mjaltaskeiði með áherslu á próteinframleiðslu.

II.2 Efnainnihald mjólkur
Sérstök áhersla skal vera á að auka tíðni þeirra verðefna sem bæta nýtingu og auka hollustu mjólkur.

II.3 Frjósemi
Leggja skal áherslu á að bæta frjósemi íslenska kúakynsins sem miðar að því að halda æskilegu bili milli burða, góðu fanghlutfalli, eðlilegri meðgöngu og burði lifandi hraustra kálfa.

II.4 Júgur- og spenagerð
Sérsök áhersla verði lögð á júgur séu vel borin og sterk, júgurband greinilegt. Spenar vel staðsettir og hæfilega langir (3,5-4,5 cm.) og sterklega valið gegn útstæðum framspenum.

II. 5 Mjaltir
Valið verði fyrir jöfnum hröðum mjöltum (m. mjaltahraði a.m.k 2-5-3 l/mín). Sérstök áhersla lögð á að velja gegn mismjöltum.

II.6 Júgurhreysti
Ræktunarmarkmiðið er að auka júgurhreysti og lækka tíðni júgurbólgu

III. Samsetning kynbótaeinkunnar
Yfirlit yfir vægi einstakra þátta í kynbótaeinkunn endurspeglar ræktunaráherslur á hverjum tíma. Núverandi vægi einstakra eiginleika kynbótaeinkunnarinnar er að finna í eftirfarandi töflu. Úrval fyrir afurðum er úrval fyrir fitu- og próteinframleiðslu þannig að afurðaeinkunnin er samsett úr einkunn fyrir fitumagni, próteinmagni og próteinprósentu í hlutföllunum 47% fitumagn, 48% próteinmagn og 5% próteinprósenta.

Vægi einstakra eiginleika

Eiginleiki Vægi - naut Vægi - kýr
Afurðir 36% 36%
Frjósemi 10% 11%
Frumutala 8% 9%
Júgur 10% 11%
Spenar 10% 13%
Mjaltir 8% 10%
Skap 8% 10%
Ending 10% 0%
Samtals 100% 100%