Sagan

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf. (RML) hóf starfsemi 1. janúar 2013 við sameiningu ráðgjafarþjónustu búnaðarsambandanna í landinu og ráðgjafarsviðs Bændasamtaka Íslands. 

Forsaga málsins

Á búnaðarþingi í febrúar 2012 var samþykkt ályktun þar sem sagði að stefnt skyldi að því að sameina ráðgjafarþjónustu búnaðarsambandanna og Bændasamtaka Íslands í eina rekstrarreiningu. Í framhaldi af því var skipaður starfshópur og ráðinn verkefnisstjóri, Ágúst Þorbjörnsson hjá Framsækni ehf. Þær tillögur voru lagðar til grundvallar starfi aukabúnaðarþings sem haldið var 29. október 2012.

Niðurstaða þingsins varð sú að samþykkja eftirfarandi ályktun: "Búnaðarþing, aukaþing 2012, samþykkir að stofna félag um leiðbeiningaþjónustu bænda. Félagið verði í eigu Bændasamtaka Íslands, en með sjálfstæðri stjórn og fjárhag. Stjórn félagsins skulu skipa framkvæmdastjóri BÍ auk fjögurra fulltrúa sem þingið velur. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Umboð stjórnar gildir til búnaðarþings 2013. Þingið felur stjórninni að ljúka nauðsynlegri undirbúningsvinnu og samningagerð til að starfsemi félagsins geti hafist í byrjun næsta árs. Búnaðarþing heimilar stjórn BÍ framsal fjármuna af búnaðargjaldi samtakanna og aðra fjármuni til stofnunar og rekstrar".

"Búnaðarþing, aukaþing 2012, felur stjórn og starfsmönnum hins nýja félags að leggja áherslur í starfi og uppbyggingu þess. Í þeirri vinnu verði m.a. tekið mið af þeim greiningum og tillögum sem fram hafa komið á fyrri stigum".