Kynbótamat sauðfjár

Kynbótamat gripa er reiknað út frá upplýsingum úr skýrsluhaldi, í því felst mat á kynbótagildi gripanna þ.e. hverju þeir eru líklegir til að skila til afkvæma sinna. Í sauðfjárrækt er reiknað kynbótamat fyrir fjóra eiginleika, gerð sláturlamba, fitu sláturlamba, frjósemi og mjólkurlagni.

Kynbótamat (BLUP) fyrir skrokkgæði (gerð og fitu): Kynbótamat er reiknað út frá upplýsingum úr kjötmati frá árunum 2007-2016. Meðaltal allra gripa í gagnasafninu er 100, hækkun um 10 stig þýðir 1 staðalfrávik frá meðaltali. Þegar rætt er um kynbótamat fyrir kjötgæði er átt við kjötmatseinkunn þar sem fitumatið vegur 50% en gerðarmatið 50%. (Vægið var gerð 40% og fita 60% frá 2002-2014)

Kynbótamat (BLUP) fyrir frjósemi og mjólkurlagni: Kynbótamat fyrir afurðaeiginleikana (frjósemi og mjólkurlagni) er byggt á upplýsingum 10 yngstu árganga ánna. Fyrir mjólkurlagni eru það ær fæddar 2006-2015, fyrir frjósemi ær fæddar 2006-2015. Fyrir hvorn eiginleika er reiknað mat fyrir fjögur fyrstu afurðaár ánna. Hvert ár hefur jafnt vægi (25%) í samsettri einkunn fyrir mjólkurlagni. Í samsettri einkunn fyrir frjósemi er vægi hvers árs breytilegt, vægi 1 vetra er 10%, vægi 2 vetra er 60%, vægi 3 og 4 vetra er 15% hvort ár. Meðaltal allra gripa í gagnasafninu er 100 og hækkun um 10 stig þýðir 1 staðalfrávik frá meðaltali. Fyrir yngstu hrútana eru upplýsingar um dætur enn litlar þannig að upplýsingar um nánustu ættingja vega mjög þungt í kynbótamati þeirra.

Kynbótamat (BLUP) - Heildareinkunn: Frá árinu 2012 er reiknuð heildareinkunn þar sem kynbótamat allra eiginleika er vegið saman í eina einkunn. Vægi skrokkgæða, frjósemi og mjólkurlagni er jafnt í þeirri einkunn. Einstaklingur með 120 í einkunn fyrir skrokkgæði, 110 fyrir frjósemi og 100 fyrir mjólkurlagni hefur þannig heildareinkunn 110. ((120+110+100)/3 = 110).

Síðast uppfært 03.02.2017