RML hefur í samstarfi við Búnaðarsamband Eyjafjarðar, Búnaðarsamband Suðurlands og Búnaðarsamtök Vesturlands látið hanna og forrita smáforrit eða app til þess að panta og skrá kúasæðingar. Appið er hannað og forritað af Mtech Digital Solutions í Finnlandi. Appið er til í frjótækna- og bændaútgáfu og hér fyrir neðan eru stuttar leiðbeiningar fyrir bændaútgáfuna. Frír aðgangur að appinu fylgir almennum skýrsluhaldsaðgangi í Huppu. Athugið að aðgangur að lögbundnum skýrsluskilum gefur ekki aðgang að FANG.
Hvar næ ég í appið?
Fyrir síma/spjaldtölvur með Android-stýrikerfi er hægt að ná í appið í Google Play Store.
FANG á Play Store
Fyrir síma/spjaldtölvur með iOs-stýrikerfi (iPhone/iPad) verður að nota vefútgáfuna. Smellið hér fyrir vefútgáfu FANG.
Fyrir borðtölvur má einnig nota vefútgáfuna sem getur verið þægilegt, t.d. í fjóstölvunni.
Nýjasta útgáfa er nr. 1.0.99.
Innskráning
Til þess að skrá sig inn í Fang eru notuð sömu notendanafn og lykilorð og til að tengjast Bændatorgi og/eða Huppu. Athugið að lykilorðið að Bændatorgi þarf að innihalda a.m.k. 3 stafi svo það gangi að Fang appinu. Notendur sem eru með styttra lykilorð þurfa því að breyta/uppfæra það í a.m.k. 3 stafi. Mælt er með að nota mun lengri lykilorð og blanda saman há- og lágstöfum sem og sértáknum (t.d. #, $, %, &). Það eykur öryggi. Athugið ekki nota séríslenska stafi í lykilorðum (eins og á, í, ú, ý). Það getur skapað vandamál.

Sláið inn notandanafn (username) og lykilorð (password) og smellið á innskráning (login).
Stillingar
Þegar innskráningu er lokið gæti þurft að stilla á íslensku í fyrsta skipti. Þá er farið valmyndina (strikin þrjú efst til vinstri) og smellt á stillingar (settings).

Þar er hægt að skipta um tungumál, velja íslensku í stað ensku.

Panta sæðingu og/eða fangskoðun
Þegar panta á sæðingar og/eða fangskoðanir er smellt er á strikin þrjú efst til vinstri og síðan valið „Ný pöntun“. Þá kemur upp nafn og númer búsins.

Smellið á nafn búsins og þá opnast gripalisti búsins. Í gripalistanum eru allar lifandi kýr og kvígur, 11 mánaða og eldri. Listinn sýnir gripanúmer, nafn og föður. Ef svo vill til að tveir gripir eða fleiri eru með sama gripanúmer (t.d. gripur fæddur á búinu og aðkeyptur gripur með sama gripanúmer) er hægt að smella á gripina og þá opnast gluggi þar sem fullt einstaklingsnúmer fram.

Veljið þann grip sem á að sæða/fangskoða í listanum. Smellið á gripinn. Þá opnast gluggi þar sem hægt er að panta sæðingu eða fangskoðun með tökkunum neðst á skjánum, "Bæta við sæðingu" eða "Bæta við fangskoðun". Athugið að með tímanum safnast upp saga gripsins í þessum glugga þar sem sjá má pantanir og eldri aðgerðir.

Þegar búið er að velja að bæta við sæðingu opnast gluggi þar sem hægt er að setja inn athugasemdir (frjáls texti), óska eftir að sætt verði með ákveðnu nauti og/eða ákveðinni sæðistegund.

Til þess að óska eftir ákveðnu nauti er smellt á "VELDU NAUT" og þá opnast listi með þeim nautum sem eru í boði. Nautið sem óskað á eftir er valið úr listanum og smellt á "Lokið". Athugið að ef til er pörunaráætlun í Huppu koma þau þrjú naut sem ráðlagt er nota samkvæmt henni efst í listanum sem tillögur.

Athugið að það er ekki nauðsynlegt að óska eftir ákveðnu nauti frekar en menn vilja en mælt með því ef líklegt er að menn hitti ekki frjótækninn ef ekki er til pörunaráætlun.
Þegar smellt er á "Ekkert valið" aftan við sæðistegund opnast lítill gluggi þar sem velja má sæðistegund.

Að lokum er svo smellt á "Lokið" neðst á skjánum og þá er pöntunin komin í kerfið.
Í appinu er svo hægt að sjá hvenær áætlað er að frjótæknirinn sé væntanlegur á búið.
Panta fleiri en eina sæðingu/fangskoðun í einu
Þegar farið er í ný pöntun er hægt að panta fyrir fleiri en einn grip í einu. Það er gert með því að smella á "Fjöldapöntun" neðst á skjánum eftir að búið er að velja "Ný pöntun". Þá birtist kassi/reitur fyrir aftan hvern grip. Með því að haka í reitina eru þeir gripir sem á að sæða/fangskoða valdir.

Þegar búið er að velja þá gripi sem á að sæða/fangskoða er smellt a´"Halda áfram" neðst á skjánum. Þá opnast gluggi þar sem valið er hvort um er að ræða sæðingar eða fangskoðanir.

Eftir að búið er að velja hvort um er að ræða sæðingu eða fangskoðun kemur listi með þeim gripum sem valdir voru. Þar má sjá einstalkingsnúmer, nafn og hvort var pöntuð sæðing eða fangskoðun.

Hægt er að smella á hverja og eina pöntun og velja naut, sæðistegund og skrá inn athugasemdir. Jafnframt er hægt að breyta pöntun þannig að hafi t.d. verið pöntuð sæðing er hægt að breyta henni í fangskoðun.

Á skjámyndinni hér að ofan má t.d. sjá að pöntuninni fyrir Spöng var breytt í fangskoðun og búið er að opna pöntunina fyrir Pumpu til þess að velja naut, sæðistegund og/eða skrá athugasemd. Þegar búið er að ganga frá pöntun fyrir alla valda gripi er smellt á vista pantanir. Þá er pöntun frágengin.
Of stuttur tími frá burði
Ef pöntuð er sæðing fyrir grip sem bar fyrir minna en 60 dögum kemur upp aðvörun um að ekki sé ráðlegt að sæða svo fljótt eftir burð. Þessi aðvörun hindrar ekki að pöntuð sé sæðing en gefur til kynna að ef till sé ekki ráðlegt að sæða gripinn svo snemma eftir burð.

Áætluð koma frjótæknis
Þegar pöntun er lokið er pöntunin sýnileg í pöntunum þar til frjótæknir hefur skráð hana í vinnulista dagsins. Þá hverfur hún úr listanum og áætlaður komutími frjótæknis birtist ásamt því hvaða frjótækni er um að ræða. Áætlaður komutími er reiknaður út frá vegalengd og ákveðnum forsendum. Auðvitað geta veður og færð haft áhrif en áætlaður komutími uppfærist stöðugt eftir því hvernig vinnu frjótæknis vindur fram. Það er því rétt að gera ráð fyrir að þessi tímasetning sé um það bil og gripurinn eða gripirnir séu til reiðu a.m.k. 10-15 mín. fyrir áætlaðan komutíma. Þannig sparast tími og líkur á góðum árangri aukast til muna.

Pantanir sem gerðar eru fyrir klukkan 9.30 á morgana fara í verkefni dagsins hjá frjótæknum. Pöntunum sem gerðar eru eftir klukkan 9.30 er ekki víst að verði sinnt í dag. Hægt er að panta hvenær sem er sólarhringsins og alltaf hægt að bæta við pöntunum. Til þess að skoða hvort búið er að panta fyrir viðkomandi grip sem á að sæða á morgun má fara í pantanir og velja framundan. Þá kemur upp listi með pöntunum morgundagsins.

Með því að smella á pöntunina er hægt að sjá fyrir hvaða grip/i var pantað. Þarna er einnig hægt að eyða pöntun ef rangt var pantað. Í þessu tilviki var pöntuð sæðing á Svört 1490. Til er pörunaráætlun fyrir Svört þar sem lagt er til að nota Grána 23010, Flamma 22020 eða Strók 22023. Rauða hjartað sýnir að viðkomandi bóndi/bændur hafa óskað eftir öðru nauti.
