Hreyfiskynjarar

Hreyfiskynjarar geta bætt frjósemi verulega, minnkað vinnu og lækkað framleiðslukostnað með réttri notkun.

Á undanförnum árum hefur áhugi á notkun þeirra farið vaxandi, ekki síst með stækkandi hjörðum. Ástæðan er sú að hreyfiskynjarnar geta hjálpað við beiðslisgreiningu og þar með aukið frjósemi hjarðarinnar, dregið úr vinnuþörf og lækkað framleiðslukostnað. Fjölmörg fyrirtæki hafa svarað þessum aukna áhuga og markaðssetja nú skynjara og hugbúnað. Í töflunni hér fyrir neðan er að finna lista yfir nokkur þessara fyrirtækja. Hægt er að smella á vöruheitið til þess að fara á vefsíðu viðkomandi fyrirtækis. Vöruheiti og slóðir eru birtar hér til upplýsingar en því felst engin mismunun eða meðmæli með ákveðnum búnaði af hendi RML.

Kerfi (Framleiðandi) Einnig markaðssett sem
Afi Act II / AfiCollar (AFI) -
Activity Meter System (Delaval) -
Heatime (SCR) Semex AI24Lely Qwes
Heat Watch II(CowChips) -
MooMonitor+ (DairyMaster) SelectDetect (Select Sire Power)
SenseHub (MSD / Allflex)  
SensOor (Agis Automatisering) CowManager (Select Sires)
SmartTag (Nedap) CowScout (GEA), Real Time SmartTag (Boumatic)
Track a Cow (Animart) -

Með birtingu vöruheita er ekki verið að mæla með ákveðnum búnaði umfram annan af hendi RML. Þessi listi er ekki tæmandi yfir öll þau kerfi sem eru eða kunna að vera á markaði í dag og flest þeirra eru ekki seld á Íslandi.

 

Af hverju samanstanda kerfin?
Kerfin samanstanda venjulega af þrennu:

1) Hreyfiskynjara, sem mælir skrefafjölda eða hreyfingu, og er festur á fótlegg, eyra eða hálsband kýrinnar;
2) loftneti til að lesa af hreyfiskynjurunum; og
3) tölvu með hugbúnaði sem les og birtir upplýsingarnar.

Hvað er mælt og hvaða upplýsingar gefa kerfin?
Kerfin mæla einfaldlega hreyfingu eða virkni kúnna sem að hugbúnaður ber síðan saman við áður söfnuð gögn til að sjá hvort og/eða hreyfing eða virkni kúnna eykst eða minnkar. Upplýsingarnar eru gjarnan birtar í töflum, listum eða myndrænt og oft sýna kerfin ákjósanlegan tíma til að sæða.

Þessu til viðbótar fylgjast mörg þessara kerfa einnig með líkamshita, áttíma, jórtri og legutíma, þ.e. hversu lengi kýrnar standa eða liggja. Hreyfing/virkni kúnna er oft borin saman við aðra þætti og getur þá gefið vísbendingar um almennt heilsufar þeirra. Sum kerfanna geta einng staðsett gripina í fjósinu.

Notkun hreyfiskynjara
Mikilvægt er að nota hreyfiskynjara ekki blint og bera alltaf saman hreyfingu og dagafjölda frá síðasta beiðsli. Alltaf er þó nokkuð um meðvirkar kýr, það er kýr sem auka hreyfingu sína þegar aðrar kýr eru að beiða. Þá er mikilvægt að skoða vel hvenær hreyfitoppurinn er og sæða ekki fyrr en honum er náð. Annars er hætt við að verið sé að sæða á forbeiðsli.

Hversu auðvelt er að nota kerfið?
Gögn frá flestum kerfanna er hægt að nálgast úr tölvu eða snjallsíma. Sum kerfanna eru sjálfstæð (e. standalone) meðan að önnur eru tengd hugbúnaði mjaltakerfa. Í flestum tilfellum er aðeins grunntölvukunnátta nauðsynleg til að stjórna kerfinu og mörg fyrirtækjanna bjóða upp á þjálfun í notkun kerfisins.

Henta hreyfiskynjarar á mínu búi?
Hreyfiskynjarar vinna með flestum öðrum bústjórnarkerfum og bússtærð skiptir litlu máli. Dæmi eru um að hreyfiskynjarar séu notaðir á litlum búum með færri en 30 kýr, básafjósum með upp í 900 bása, lausagöngufjósum af öllum stærðum o.s.frv. Þannig að já, hreyfiskynjarar geta komið að notum á hvaða búi sem er.

Þurfa allar kýr að vera með hreyfiskynjara?
Það fer eftir því hvernig þú vilt nota kerfið. Í flestum kerfanna þarf 7-10 daga til að safna upplýsingum um hátterni gripanna, þ.e. finna út hvað er eðlileg hreyfing o.s.frv. Ef notkun hreyfiskynjaranna er bundin við að fylgjast með beiðslum er nóg að þeir gripir sem ekki eru fengnir séu með skynjara. Þeir eru þá fluttir á aðra gripi þegar viðkomandi gripir eru með staðfest fang. Sé ætlunin að nota búnaðinn til að fylgjast með heilsufari o.þ.h. þarf mun fleiri hreyfiskynjara.

Að hverju ætti ég að spyrja áður en ég kaupi hreyfiskynjara?
Hvaða þjálfun eða stuðningur fylgir kerfinu?
Hversu löng ábyrgð er á skynjurum og öðrum hlutum kerfisins?
Hversu stórt svæði þekur loftnetið? Mun kerfið geta lesið af gripum hvar sem er í fjósinu eða bara á ákveðnum svæðum/stöðum?
Er búnaðurinn í notkun á einhverju öðru búi þar sem ég get farið og skoðað hann?
Er kerfið samhæft við þann hugbúnað sem ég er með fyrir, t.d. mjaltakerfi?
Þarf nettengingu til að kerfið virki?

Leitið aðstoðar ef þörf er á. RML getur veitt ykkur góð ráð varðandi frjósemi og bústjórn, þar með talið notkun hreyfiskynjara.