Skráning á folöldum í heimarétt

Skráning á folöldum í heimarétt WF fer þannig fram að smellt er á hnappinn „Fang- og folaldaskráning“ þá opnast gluggi eins og sést hér fyrir neðan. Þarna þarf að byrja á að smella á „Niðurstaða“ en þá opnast línur með eftirfarandi möguleikum; eitt folald, tvö folöld, dauðfætt eða hryssa fórst. Eins og sjá má á mynd 1 hefur verið valið „Eitt folald“ og þar með er næst hægt að smella á „Skrá folald“.

Mynd 1: Skráning á folaldi

Þá opnast gluggi þar sem hægt er að skrá inn upplýsingar um folaldið. Stóðhesturinn kemur sjálfkrafa upp, síðan er sett inn nafn (sé búið að nefna folaldið), fæðingardagur, kyn, númer (þrír síðustu stafirnir í fæðingarnúmerinu), litur og litanúmer. Lengi vel var það þannig að þegar folald var skráð í gegnum heimarétt þá skráðist eigandi móður sjálfkrafa sem ræktandi og eigandi að folaldinu. Eins og sjá má neðst á mynd 2 er kominn möguleiki á að taka út hak þar sem stendur „Eigandi móður skráður sem ræktandi og eigandi folalds“.


Mynd 2: Skráning á foldaldi, sjálfvirk skráning á ræktanda og eiganda

Ef hakið er tekið út þá opnast nýir gluggar „Fjöldi ræktenda“ og „Fjöldi eigenda“ (sjá mynd 3). Ef valið er að ræktendur séu t.d. tveir þá opnast möguleiki að skrá inn tvo aðila. Sama gerist ef valið er að eigandi sé einn þá opnast möguleiki á að skrá einn eiganda. Ef eigendur hefðu verið fleiri hefðu opnast fleiri reitir til að skrá inn kennitölur.


Mynd 3: Skráning á folaldi, skrásetjari skráir upplýsingar um ræktanda og eiganda

Dálítið er um að það vanti skráningu á lit á hrossum í WF en við viljum endilega að hann sé skráður. Upplýsingar um litanúmerakerfið er að finna í WF. Litakerfið er þannig upp sett að lit er lýst með fjórum tölustöfum. Fyrsti tölustafurinn segir til um aðallit (rautt, brúnt..), sá næsti blæbrigði (ljósrautt, dökkrautt o.s.frv.), þriðji tölustafurinn segir til um hvort hrossið er einlitt, tvílitt eða með stjörnu, nös, sokk o.s.frv. Fjórða og síðasta talan er enn frekara auðkenni, s.s. glófext, vagl í auga, glaseygt o.s.frv. Þegar litanúmer er slegið inn kemur WF upp með mynd af þeim lit sem varð fyrir valinu þannig það ætti að auðvelda skráninguna á litnum (sjá mynd 4). Þetta er því ekki eins flókið og það kannski virðist við fyrstu sýn.


Mynd 4: Skráning á lit

Ástæða þess að litur er skráður á þennan hátt er að þá er hægt að skoða á auðveldan hátt fjölda ákveðinna lita í stofninum. Ef litur væri eingöngu skráður með orðum s.s. rauðstjörnóttur þá gætum við ekki unnið á sama hátt með þessar upplýsingar. Það er hins vegar um að gera að lýsa litnum líka með orðum, ekki hvað síst ef hrossið hefur einhver einkenni sem ekki rúmast innan þessa talnakerfis.

Ef eitthvað er óljóst varðandi skýrsluhaldið er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið rml@rml.is eða hringja í síma 516-5000.