Bændahópar

Bændahópar er ný nálgun í ráðgjöf sem RML býður upp á og byggir á að ráðunautar leiða samvinnu og samtal milli bænda innan hvers hóps til að þeir geti miðlað þekkingu og reynslu sín á milli og náð markmiðum sínum.

Í fyrstu verður áherslan lögð á bætta nýtingu áburðarefna, bústjórn og hagkvæmari fóðuröflun, með þeim snertiflötum sem viðfangsefnið býður upp á.

Bændahóparnir eru byggðir á aðferðafræði sem reynst hefur mjög vel svo sem í Noregi, Finnlandi og Írlandi. Mjög góður árangur hefur náðst til dæmis varðandi aukna og betri uppskeru og bætta nýtingu aðfanga. Starfsmenn RML hafa notið leiðsagnar frá Anu Ellä, finnskum sérfræðingi hjá ProAgria, á sviði grasræktar og hóparáðgjafar, en hún hefur einnig komið að innleiðingu sambærilega aðferðarfræði í Noregi með góðum árangri. 

(Sjá til dæmis: frétt úr Búskap)

Hver Bændahópur samanstendur af um 10 bændum og tveimur starfsmönnum RML. Verkefnið er ársverkefni og hist er fimm sinnum auk þess sem sambandi er haldið í gegnum netmiðil þess á milli. Mikið er lagt upp úr að bændur deili reynslu sinni, bæði góðri og slæmri, undir leiðsögn ráðunauta auk þess sem ráðunautar koma inn með faglega þekkingu og leiða og halda utanum starfið sem fram fer í hópunum.

Í upphafi er ákveðið hvaða þætti skuli lögð áherslu á það árið, hver markmið hópsins eru, auk þess sem hópurinn setur sér reglur varðandi t.d. mætingar og hvaða gögn menn ætli að deila með hópnum. Fyrst er hist í fundarsal, eða sambærilegri aðstöðu, en næstu skipti er hist á bæ einhvers í hópnum.

Dæmi um viðfangsefni í Bændahópum:

  • Áburðarnýting, búfjáráburður, tilbúinn áburður og kölkun
  • Framleiðslukostnaður út frá áburðarkostnaði
  • Aukinn þéttleiki fóðurjurta í túnum, ísáningar
  • Blöndur, tegundir og yrki
  • Fóðurgæði – hvernig fóður viljum við og hvernig getum við náð því markmiði
  • Heilbrigði jarðvegs
  • Tækjabúnaður 

Erlendis er það reynslan að sérhver Bændahópur heldur áfram, oft lítið breyttur, ár eftir ár og góð tengsl myndast meðal bændanna og góður árangur næst. 

Næstu Bændahóparnir munu fara af stað fljótlega eftir næstu áramót.

Ráðunautar RML fóru til Finnlands og nutu leiðsagnar Anu Ellä, og annarra starfsmanna hjá ProAgria. Ferðin var mjög lærdómsrík og fróðleg. Anu hefur einnig komið hingað til lands þar sem frekari kennsla fór fram til að liðsinna í innleiðingu þessa nýju nálgun í ráðgjöf til bænda hjá RML.

Verð fyrir þátttöku á bændahóp árið 2024 verður 115.000.- kr. án vsk. 

Til gamans eru hér að neðan myndir frá Finnlandsferðinni.