Ræktunarmarkmið

Almenn ræktunarmarkmið

Í framtíðarskipulagi á ræktun íslenska sauðfjárstofnsins skal lögð áhersla á að varðveita sérkenni hans ásamt því að framrækta þá eiginleika sem mestu máli skipta fyrir sjálfbæra og hagkvæma sauðfjárframleiðslu hverju sinni. Stöðugt þarf að bæta alla helstu framleiðslueiginleika, þ.e. frjósemi, afurðasemi, kjöt- og ullargæði.  Viðhalda skal jafnt hyrndu sem kollóttu fé ásamt eiginleikum sem geta haft hagrænt gildi eða talist til séreinkenna s.s. frjósemiserfðavísum, öllum litaafbrigðum, feldfjáreiginleikum og ferhyrndu fé. Sérstaka áherslu skal leggja á heilbrigði stofnsins og endingu gripa. Gæta skal að  erfðabreytileika í stofninum og halda aftur af aukningu í skyldleikarækt. Jafnframt þarf að hvetja til samfélagslegrar ábyrgðar þegar kemur að ræktun og verndun þessara stofna. 

Sérstök ræktunarmarkmið fyrir einstaka eiginleika

Frjósemi:
Leggja skal áherslu á að auka eðlislæga frjósemi sauðfjárstofnsins þannig að fullorðnar ær eigi ekki færri en tvö lömb að jafnaði og að veturgamlar ær festi fang og eignist að jafnaði ekki færri en eitt lamb. Einnig skal stefnt að því að minnka vanhöld lamba sem kostur er og stefna að því að 95% þeirra lamba sem fæðast að vori komi til nytja að hausti.

Mjólkurlagni:
Leggja skal áherslu á að auka mjólkurlagni ánna þannig að ærin mjólki að lágmarki tveimur bráðþroska lömbum.
Vaxtargeta: Auka skal vaxtarhraða svo æskilegum fallþunga sé náð á sem skemmstum tíma. Leggja skal áherslu á bráðþroska í sumarhögum.

Kjötgæði:
Stefnt skal að því að rækta þéttholda og bollangt fé, þ.e. langt m.v. legglengd, með þykka vöðva samfara hóflegri fitu og léttum beinum. Stefnt skal að því að nær allir innlagðir dilkar fari í holdfyllingarflokk R eða betri, þar af 60% í holdfyllingarflokka E og U. Hvað fituflokkunina snertir skal stefnt að því að 90% innlagðra dilka fari í fituflokka 2 og 3. Jafnframt þarf að huga að því að bragðgæði íslenska dilkakjötsins haldi sér.

Ullargæði:
Leggja skal áherslu á ræktun hreinna sauðalita með megináherslu á hvíta og hreinhvíta ull þar sem leitast verður við að lágmarka gular illhærur og að útrýma þeim hvítu. Leggja skal áherslu á ullarmagn og forðast skal toggrófa ull og svartar doppur í hvítri ull.

Heilbrigði og ending:
Leggja skal áherslu á að rækta endingargott og heilbrigt fé sem einnig er rólegt í umgengni. Útrýma ber áhættuarfgerðum gagnvart riðuveiki. Einnig skal hugað að eiginleikum sem stuðlað geta að aukinni endingu ánna og þar með auknum æviafurðum. Þar má nefna burðarhjálp, júgurhreysti, og fótstöðu/styrkleika fóta. Gætt skal að því að ræktun á afurðamiklu fé leiði ekki til aukinnar stærðar á fullorðnum gripum.

Leiðir til að ná settum markmiðum

Traust og nákvæmt skýrsluhald sauðfjárbænda verður áfram grunnur upplýsingaöflunar fyrir ræktunarstarfið í sauðfjárrækt.

Stefnt skal að því að kynbótamat byggt á upplýsingum skýrsluhaldsins verði reiknað fyrir sem flesta eiginleika.

Sæðingastarfsemin verður áfram mikilvægasti þátturinn í dreifingu erfðaefnisins innan stofnsins og þar skal leitast við að hafa úrval þess hrútastofns sem sæðingastöðvarnar hafa aðgang að hverju sinni. Hrútastofninn skal endurspegla mismunandi þarfir sauðfjárbænda til að ná settum ræktunarmarkmiðum. Gæta þarf að innbyrðis skyldleika hrúta og hámarksnotkun hvers sæðingarstöðvarhrúts skal vera 5.000 sæddar ær.

Markmið dóma á lifandi lömbum samkvæmt dómsskala er að lýsa eiginleikum sem varða skrokkgæði, ullargæði og heilbrigði. Hagnýting dóma fer fram í ásetningsvali og afkvæmarannsóknum.

Frjósemi:
Stefnt skal að því að bjóða uppá arfhreina hrúta með frjósemiserfðavísa á sæðingastöð sem valkost til að auka frjósemi. Stefna ber að þróun DNA-prófs fyrir hinu svo kallaða Lóugeni svo hagnýta megi þennan stórvirka frjósemiserfðavísi í ræktunarstarfinu á sama máta og Þokugenið.

Mjólkurlagni:
Huga þarf að endurbótum á útreikningi afurðastigs.

Vaxtargeta:
Leggja skal áherslu á bráðþroska á sumarhögum. Skilgreina þarf betur vöxt lamba af beit í úthaga eða haustbeit á ræktuðu landi.
Unnið skal áfram að þróun kynbótamats fyrir fallþunga.

Kjötgæði:
Setja þarf upp áætlun sem felur í sér vöktun á þáttum sem lúta að kjötgæðum (þ.m.t. þáttum sem tengjast bragðgæðum). Skilgreina þarf hvaða þætti mikilvægast er að horfa á og skilgreina viðmiðunargildi fyrir íslenskt lambakjöt. Skoða þarf hvort ástæða sé til að breyta áherslum varðandi fituflokkun með hliðsjón af niðurstöðum kjötgæðarannsókna.

Endurbæta þarf kynbótamat fyrir skrokkgæði með því að nýta gögn úr líflambadómum og þar með gera kynbótamatið öruggara.

Vinna þarf að því að teknir séu upp undirflokkar EUROP kjötmatsflokkunarkerfisins við mat á dilkakjöti svo nákvæmara mat fáist á framleiðsluna.

Heilbrigði og ending:
Skoða þarf hvaða þættir hafa mest áhrif á endingu ánna út frá skráningum á förgunarástæðum og athuga áhrif erfða á þá eiginleika. Jafnframt þarf að skoða með hvaða hætti er hægt að nýta upplýsingar um burðarvandamál í ræktunarstarfinu.

Unnið skal að rannsóknum á erfðagallanum bógkreppu. Þróa þarf DNA-próf svo arfgerðargreina megi gripi m.t.t. gallans og vinna þannig að útrýmingu hans.

Hvetja þarf til aukinnar skráningar á fullorðinsþunga áa svo grundvöllur skapist til að vinna með þennan eiginleika í ræktunarstarfinu og sporna við óæskilegri stækkun fjárins. Skilgreina þarf hver sé heppilegur fullorðinsþungi fyrir stofninn.

Kynbótaeinkunn:
Setja skal saman til viðmiðunar kynbótaeinkunn sem endurspeglar ræktunaráherslur á hverjum tíma fyrir sig. Í þessari einkunn skulu hverju sinni vera þeir eiginleikar sem kynbótamat er reiknað fyrir. Í dag væru þeir því, gerð, fita, frjósemi og mjólkurlagni en til lengri tíma skal horft til eiginleika sem taka mið af vaxtargetu og eiginleikum sem stuðla að bættu heilbrigði og endingu. Stefnt skal að því að í skýrsluhaldi sauðfjárræktarinnar sé verkfæri þar sem hægt verði að meta einstaka gripi út frá ræktunaráherslum hvers bús. Jafnframt skal stefnt að því að reikna hagrænt vægi eiginleika sem unnið er með í ræktunarstarfi.

Samþykkt af fagráði í sauðfjárrækt 27. apríl 2018.

Síðast uppfært 23.08.2019