Ræktunarmarkmið

Almenn ræktunarmarkmið

Í framtíðarskipulagi á ræktun íslenska sauðfjárstofnsins skal lögð áhersla á að varðveita sérkenni hans ásamt því að framrækta þá eiginleika sem mestu máli skipta fyrir sjálfbæra og hagkvæma sauðfjárframleiðslu hverju sinni. Stöðugt þarf að bæta alla helstu framleiðslueiginleika, þ.e. frjósemi, afurðasemi, kjöt- og ullargæði. Mikilvægt er að rækta jafnt hyrnt sem kollótt fé, viðhalda skal öllum litaafbrigðum og sérkennum öðrum svo sem forystuhæfileikum, frjósemiserfðavísum og ferhyrndu fé. Sérstaka áherslu skal leggja á heilbrigði stofnsins og endingu gripa. Gæta skal að nauðsynlegum erfðabreytileika í stofninum og halda aftur af óæskilegri aukningu í skyldleikarækt. Jafnframt þarf að hvetja til samfélagslegrar ábyrgðar þegar kemur að ræktun og verndun þessara stofna.

Sérstök ræktunarmarkmið fyrir einstaka eiginleika

Frjósemi
Leggja skal áherslu á að auka eðlislæga frjósemi sauðfjárstofnsins þannig að fullorðnar ær eigi ekki færri en tvö lömb að jafnaði og að veturgamlar ær festi fang og eignist að jafnaði ekki færri en eitt lamb.
Einnig skal stefnt að því að minnka vanhöld lamba sem kostur er og stefna að því að 95% þeirra lamba sem fæðast að vori komi til nytja að hausti.

Mjólkurlagni
Leggja skal áherslu á að auka mjólkurlagni ánna þannig að ærin mjólki að lágmarki tveimur bráðþroska lömbum.

Vaxtargeta
Hámarka skal vaxtarhraða svo æskilegum fallþunga sé náð á sem skemmstum tíma. Leggja skal áherslu á bráðþroska í sumarhögum.

Skrokkgæði
Stefnt skal að því að rækta þéttholda og bollangt fé, þ.e. langt m.v. legglengd, með þykka vöðva samfara hóflegri fitu og léttum beinum. Stefnt skal að því að nær allir innlagðir dilkar fari í holdfyllingarflokk R eða betri, þar af 40% í holdfyllingarflokka E og U. Hvað fituflokkunina snertir skal stefnt að því að 90% innlagðra dilka fari í fituflokka 2 og 3. Jafnframt þarf að huga að því að hin rómuðu bragðgæði íslenska dilkakjötsins haldi sér.

Ullargæði
Leggja skal áherslu á ræktun hvítrar og hreinhvítrar ullar þar sem leitast verður við að lágmarka gular illhærur og að útrýma þeim hvítu. Leggja skal áherslu á ullarmagn og forðast skal toggrófa ull og svartar doppur í hvítri ull.

Heilbrigði og ending
Leggja skal áherslu á að rækta endingargott og heilbrigt fé sem einnig er rólegt í umgengni. Útrýma ber áhættuarfgerðum gagnvart riðuveiki. Einnig skal hugað að eiginleikum sem stuðlað geta að aukinni endingu ánna og þar með auknum æviafurðum. Þar má nefna burðarhjálp, júgurhreysti, og fótstöðu/styrkleika fóta. Gætt skal að því að ræktun á afurðamiklu fé leiði ekki til aukinnar stærðar á fullorðnum gripum.

Forystufé
Stefnt skal að framræktun og verndun forystufjár innan hins íslenska sauðfjárkyns. Tryggja þarf ætternisskráningu forystufjár og stýra hrútanotkun þannig að skyldleikarækt aukist hægt.

Leiðir til að ná settum markmiðum
Traust og nákvæmt skýrsluhald sauðfjárbænda verður áfram grunnur upplýsingaöflunar fyrir ræktunarstarfið í sauðfjárrækt.
Stefnt skal að því að kynbótamat byggt á upplýsingum skýrsluhaldsins verði reiknað fyrir sem flesta eiginleika.
Sæðingastarfsemin verður áfram mikilvægasti þátturinn í dreifingu erfðaefnisins innan stofnsins og þar skal leitast við að hafa úrval þess hrútastofns sem sæðingastöðvarnar hafa aðgang að hverju sinni. Hrútastofninn skal endurspegla mismunandi þarfir sauðfjárbænda til að ná settum ræktunarmarkmiðum. Gæta þarf að innbyrðis skyldleika hrúta og hámarksnotkun hvers sæðingarstöðvarhrúts skal vera 5.000 sæddar ær.
Markmið dóma á lifandi lömbum samkvæmt dómsskala er að lýsa eiginleikum sem varða kjötgæði, ullargæði og heilbrigði. Hagnýting dóma fer fram í ásetningsvali og afkvæmarannsóknum.

Frjósemi
Stefnt skal að því að bjóða uppá arfhreina hrúta með frjósemiserfðavísa á sæðingastöð sem valkost til að auka frjósemi.

Mjólkurlagni
Huga þarf að endurbótum á útreikningi afurðastigs.

Ull
Endursetja þarf litalykla í skýrsluhaldi til samræmis við erfðir sauðalita.

Vaxtargeta
Leggja skal áherslu á bráðþroska á sumarhögum. Skilgreina þarf betur vöxt lamba af beit í úthaga eða haustbeit á ræktuðu landi. Stefnt skal að því að reikna vaxtarhraða lamba í grömmum á dag.

Kynbótaeinkunn
Setja skal saman til viðmiðunar kynbótaeinkunn sem endurspeglar ræktunaráherslur á hverjum tíma fyrir sig. Í þessari einkunn skulu hverju sinni vera þeir eiginleikar sem kynbótamat er reiknað fyrir. Í dag væru þeir því, gerð, fita, frjósemi og mjólkurlagni en til lengri tíma skal horft til eiginleika sem taka mið af vaxtargetu og eiginleikum sem stuðla að bættu heilbrigði og endingu.
Stefnt skal að því að í skýrsluhaldi sauðfjárræktarinnar sé verkfæri þar sem hægt verði að meta einstaka gripi út frá ræktunaráherslum hvers bús.
Jafnframt skal stefnt að því að reikna hagrænt vægi eiginleika sem unnið er með í ræktunarstarfi.

Samþykkt af fagráði í sauðfjárrækt 16. apríl 2012.

Síðast uppfært 03.02.2017