- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta og verðskrá
- Um okkur
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sér um og framkvæmir alla kynbótamatsútreikninga fyrir íslenskar kýr. Síðan í janúar 2022 er allt kynbótamat keyrt í danska forritinu DMU. Öll gögn eru fengin úr veflæga skýrsluhaldskerfinu og gagnagrunninum Huppu sem er í eigu Bændasamtaka Íslands.
Kynbótamatskerfi í nautgriparækt á Íslandi var fyrst tekið í notkun árið 1993 og var notað BLUP-einstaklingslíkan sem byggir á öllum tiltækum upplýsingum um grip ásamt upplýsingum um ættingja hans. Síðan þá hefur mikið vatn runnið sjávar og matið tekið miklum breytingum. Nýjasta og stærsta breytingin varð í október 2022 þegar allt kynbótamat í nautgriparækt var keyrt með erfðamengisúrvali (genomic selection). Var þar um að ræða eitt stærsta framfaraskref sem stigið hefur verið í íslenskri búfjárrækt frá upphafi.
Ræktunarmarkmið í íslenskri nautgriparækt er fjölþætt og eru ákveðnir eiginleikar vegnir saman í eina heildareinkunn sem byggir á hagrænu vægi eiginleikanna frá árinu 2019.
Erfðamat (GBLUP) er í meginatriðum frábrugðið hefðbundnu kynbótamati (BLUP) að því leyti að í stað ættartölu eru arfgerðir notaðar til að meta skyldleika gripanna. Ákveðinn viðmiðunarhópur er arfgreindur til þess að tengja arfgerðir við frammistöðu gripanna. Tölfræðilíkön kynbótamatsins eru svo "þjálfuð" til þess að meta kynbótagildi gripa í stofninum. Viðmiðunarhópnum þarf svo að viðhalda þannig að hann sé sem skyldastur stofninum á hverjum tíma en með hverri kynslóð taka arfgerðir breytingum, m.a. fyrir tilstilli endurröðunar erfðavísanna. Með erfðamati eykst öryggi á mati kynbótagildisins fyrir arfgreinda gripi en ekki fyrir óarfgreinda gripi.
Við mat á afurðum eru notuð fjölbreytu-einstaklings-líkön með slembiaðhvarfi og er dagsnyt lögð til grundvallar við kynbótamatsútreikninga, svokallað mælidagalíkan (Test Day Model). Líkönin, sem eru flókin og umfangsmikil, eru unnin af Jóni Hjalta Eiríkssyni og byggja á MSc-verkefni hans við LbhÍ.
Við mat á frjósemi eru notuð fjölbreytu-einstaklings-líkön og byggir matið á bili frá burði til fyrstu sæðingar, bili frá fyrstu til síðustu sæðingar og fanghlutfalli við fyrstu sæðingu hjá kvígum í stað bils milli burða áður. Frjósemismatið er unnið af Þórdís Þórarinsdóttur og byggir á MSc-verkefni hennar við LbhÍ.
Mat á útliti, mjöltum og skapi er keyrt með fjölbreytu-einstaklings-líkönum og er skipt í nokkra hluta eftir eðli eiginleikanna. Matið er í endurskoðun og núna er hluti matsins keyrður með gömlum líkönum og erfðastuðlum en búið að uppfæra aðra. Dæmi um uppfærðan eiginleika eru spenar þar sem miðað er við kjörgildi spenalengdar, -þykktar og -stöðu. Gripir sem sýna minnst frávik frá þessum kjörgildum í kynbótamati fá hæstu einkunnirnar. Þessi spenaeinkunn var þróuð af þeim Þórdísi Þórarinsdóttur, Agli Gautasyni og Jóni Hjalta Eiríkssyni.
Ending er metin með fjölbreytu-einstaklingslíkani og dagafjöldi frá 1. burði til loka 3ja mjólkurskeiðs lagður til grundvallar.
Hvenær er kynbótamat keyrt?
Eftir upptöku erfðamengisúrvals liggur ekki endanlega fyrir hvenær kynbótamat er keyrt nákvæmlega. Matið er þó keyrt a.m.k. einu sinni í mánuði, jafnvel oftar. Ferlið er enn í innleiðingu og eftir að móta skýrar.
Niðurstöður eru að jafnaði lesnar inn í Huppu 2-4 dögum eftir að keyrsla hefst.
Ábyrgðaraðilar fyrir keyrslu kynbótamats eru Þórdís Þórarinsdóttir og Guðmundur Jóhannesson.
Frekara lesefni um kynbótamatskerfið má nálgast í eftirfarandi greinum:
Kynbótamat fyrir íslenskar kýr - gögn og líkön
Nýtt kynbótamat fyrir frjósemi
Kynbótaskipulag fyrir íslenska kúastofninn
Dagsnyt til grundvallar kynbótaútreikningum
Innleiðing mælidagalíkans við kynbótamat íslenskra mjólkurkúa
Erfðastuðlar fyrir íslenskar mjólkurkýr með mælidagalíkani (á ensku)
Samanburður á notkun mælidagalíkans og mjaltaskeiðslíkana við kynbótamat fyrir afurðir og frumutölu íslenskra kúa (á ensku)
Ný og endurbætt spenaeinkunn
Nýtt og endurbætt kynbótamat fyrir endingu (Í nautaskrá 2022 á bls. 12)
Eldra efni um kynbótamat:
Nýja kynbótamatskerfið
Nýtt kynbótamat í nautgriparækt
Kynbótamat fyrir endingu mjólkurkúa