Kynbótamat

Það kynbótamatskerfi sem notað er í nautgriparækt á Íslandi var fyrst tekið í notkun árið 1993. Matið byggir á skilgreindum ræktunarmarkmiðum og eru afurðir lagðar til grundvallar matinu ásamt útlitsdómi.  Notast er við BLUP-einstaklingslíkan sem byggir á öllum tiltækum upplýsingum um grip ásamt upplýsingum um ættingja hans.  Helsti kostur aðferðarinnar er að kynbótaeinkunnir allra gripa verða samanburðarhæfar þar sem tekið er tillit til erfðaframfara í stofninum. 

Vorið 2018 var þetta kerfi endurbætt og í stað mjólkurskeiðsafurða er nú dagsnyt lögð til grundvallar við kynbótamatsútreikninga, svokallað mælidagalíkan. Það líkan er unnið af Jóni Hjalta Eiríkssyni og byggir á MSc-verkefni hans við LbhÍ. Þar voru m.a. metnir erfðastuðlar fyrir mjólkurmagn, fitumagn, próteinmagn og frumutölu á fyrstu þremur mjaltaskeiðum með slembiaðhvarfslíkani. Í ljós kom að arfgengi allra eiginleika reyndist lægst í upphafi mjaltaskeiðs en hæst um eða eftir mitt mjaltaskeið. Þá var arfgengi afurðaeiginleika metið hærra í þessari rannsókn en í eldri rannsóknum á stofninum. 
Við keyrslu kynbótamats í október 2021 var nýtt frjósemismat tekið í notkun en það byggir á bili frá burði til fyrstu sæðingar, bili frá fyrstu til síðustu sæðingar og fanghlutfalli við fyrstu sæðingu hjá kvígum í stað bils milli burða áður. Frjósemismatið er unnið af Þórdís Þórarinsdóttur og byggir á MSc-verkefni hennar við LbhÍ. 
Í janúar 2022 var tekið upp nýtt endingarmat sem byggir á fjölbreytu-einstaklingslíkani í stað feðralíkans áður.
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins annast kynbótamatsútreikninga í nautgriparækt og í dag hefur Þórdís Þórarinsdóttir veg og vanda að þeirri vinnu. 

Hvenær er kynbótamat keyrt?
Kynbótamat er keyrt fimm sinnum ári og hefst keyrsla á eftirfarandi dögum:

  • 20. janúar
  • 20. mars
  • 20. maí
  • 20. september
  • 20. nóvember

Niðurstöður eru að jafnaði lesnar inn í Huppu 2-4 dögum eftir að keyrsla hefst.

Frekara lesefni um kynbótamatskerfið má nálgast í eftirfarandi greinum:

Kynbótamat fyrir íslenskar kýr - gögn og líkön 
Nýtt kynbótamat fyrir frjósemi 
Kynbótaskipulag fyrir íslenska kúastofninn 
Dagsnyt til grundvallar kynbótaútreikningum 
Innleiðing mælidagalíkans við kynbótamat íslenskra mjólkurkúa 
Erfðastuðlar fyrir íslenskar mjólkurkýr með mælidagalíkani   (á ensku)
Samanburður á notkun mælidagalíkans og mjaltaskeiðslíkana við kynbótamat fyrir afurðir og frumutölu íslenskra kúa   (á ensku)

Eldra efni um kynbótamat:
Nýja kynbótamatskerfið 
Nýtt kynbótamat í nautgriparækt 
Kynbótamat fyrir endingu mjólkurkúa