Mjólkurskýrsla - leiðbeiningar

Hægt er að skrá mjólkurskýrslu með rafrænum hætti í nautgriparæktarkerfinu HUPPU sem finna má á slóðinni www.huppa.is. Til þess að fá aðgang að HUPPU má hafa samband við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Fyrir þá sem ekki skrá mjólkurskýrslur sjálfir í HUPPU eiga eftirfarandi leiðbeiningar við:

Leiðbeiningar um útfyllingu á mjólkurskýrslu, burði, afdrifum og flutningum gripa milli búa

Mjólkurskýrsla
Á mjólkurskýrslu eru aðeins skráðar mjólkurmælingar og kjarnfóður ásamt athugasemdum ef þarf. Skrá skal 0 í reitinn „Mæling kg“ ef kýr er í geldstöðu en hafi gripnum verið fargað skal setja bandstrik og gera grein fyrir afdrifum á eyðublaðinu „Burðir/afdrif/flutningar gripa“.
Hægt er að skrá fleiri en eina athugasemd ef menn vilja og skal þá skrá þær með bandstriki á milli athugasemdalykla
Fremsti dálkur mjólkurskýrslunnar hefur dálkaheitið “Nýborin” Mikilvægt er að merkja með krossi í þennan dálk hjá þeim gripum sem eru nýbornir en ekki hefur náðst að mæla úr.
ATH ekki er nauðsynlegt að merkja í þennan reit ef nýbornar kýr eða kvígur hafa mælingu á skýrslunni.

Burðir/afdrif/fang
Sérstakt eyðublað er nú fyrir skráningar á burðum, afdrifum og fangskráningu. Þetta á við um gripi sem eru á mjólkurskýrslu. Sama skráningartafla er fyrir allar þessar skráningar og eru burður eða fang skráð í sömu reiti en greint á milli um hvort er að ræða með skráningarlyklunum 1 fyrir burð og 2 fyrir fang.
Ekki þarf að skrá fang með sæðinganautum þar sem þær upplýsingar koma nú inn í HUPPU í gegnum fangskráningu frjótækna.
Afdrifaskráning er aftast í töflunni og þar er gerð grein fyrir gripum sem afsettir eru af skýrslu, fargað eða seldir. Mikilvægt er að tilgreina móttökubú eða sláturhús, hvort sem um er að ræða förgun eða sölu.
ATH að sami reitur er notaður til að skrá móttökubú nýfæddra kálfa sem seldir eru af búinu.

Nýir gripir á skýrslu
Í töflunni nýir gripir á skýrslu eru skráðir þeir gripir sem koma nýir á mjólkurskýrsluna. Nauðsynlegt er að skrá allar upplýsingar um gripina svo skráningarfólk sjái auðveldlega um hvaða grip er að ræða.
Mikilvægt er að tilgreina sölubú þar ef um aðkeypta gripi er að ræða.

Flutningar gripa
Gripir í uppeldi
Förgun eða sölu á gripum sem eru í uppeldi er hægt að skrá í þessa töflu. Mikilvægt er að þetta sé gert til að gengið verði frá skráningu hvað þetta varðar og gripilisti búsins haldist réttur. Mikilvægt er að gefa upp fullt einstaklingsnúmer gripsins til að ekki fari milli mála um hvaða grip er að ræða.
Einstaklingsnúmer gripsins samanstendur af 7 stafa búsnúmeri og 4 stafa gripanúmeri og allar þessar upplýsingar sjást á eyrnamerki gripsins

Keyptir gripir
Hér eru skráðir inn á búið þeir gripir sem hafa verið keyptir frá síðustu skýrsluskilum. Hér er einnig mikilvægt að gefa upp fullt einstaklingsnúmer grips ásamt kyni, kaupdagsetningu og sölubúi.
Eigi gripurinn að hafa valnúmer á þínu búi er hægt að skrá það í reitinn valnúmer og séu fyrir hendi upplýsingar um númer móður er gott að láta það fylgja með.