DNA-sýni / Skeiðgen

Framkvæmd
Eftirtaldir starfsmenn RML annast DNA-sýnatökur og örmerkingar eftir því sem óskað er eftir (rml@rml.is). Innheimt er fyrir DNA sýnatökur skv. verðskrá RML.

Eftirtaldir starfsmenn RML koma að stroksýnatökum:

  • Anna Guðrún Grétarsdóttir, Óseyri 2, 603 Akureyri. S: 516-5005  agg@rml.is
  • Anna Lóa Sveinsdóttir, Miðvangi 2, 700 Egilsstaðir. S: 516-5006 als@rml.is
  • Eyþór Einarsson, Borgarsíðu 8, 550 Sauðárkrókur. S: 516-5014  ee@rml.is
  • Guðrún Hildur Gunnarsdóttir, Óseyri 2, 603 Akureyri. S: 516-5034 gudrunhildur@rml.is
  • Halla Eygló Sveinsdóttir, Austurvegi 1, 800 Selfoss. S: 516-5024  halla@rml.is
  • Kristján Óttar Eymundsson, Borgarsíðu 8, 550 Sauðárkrókur. S: 516-5032 koe@rml.is
  • Linda Margrét Gunnarsdóttir, Óseyri 2, 603 Akureyri. S: 516-5009 linda@rml.is
  • Pétur Halldórsson, Austurvegi 4, (2. hæð), 860 Hvolsvöllur. S: 862-9322 petur@rml.is
  • Sigurlína Erla Magnúsdóttir, Borgarsíðu 8, 550 Sauðárkrókur. S: 516-5046 sigurlina@rml.is
  • Steinunn Anna Halldórsdóttir, Langanesvegi 2, 680 Þórshöfn. S: 516-5045  sah@rml.is

Arfgerðargreiningar
Allt frá árinu 2006 hefur markvisst verið boðið upp á arfgerðargreiningar hrossa á Íslandi. Greining sýna var í upphafi á hendi fyrirtækisins Prokaria sem nú er hluti þekkingarfyrirtækisins Matís (www.matis.is). Verkefninu var í upphafi ýtt af stað með tilstyrk Stofnverndarsjóðs íslenska hestsins sem lagði fram fjármuni til greiningar á sýnum úr sýndum hryssum. Með þessu móti varð hratt og örugglega til góður grunnur sýna úr virkum ræktunarhluta íslenska hrossastofnsins.

Tilgangur þessarar vinnu er fyrst og síðast sönnun/staðfesting á ætterni ræktunargripa. Augljóst má vera að kórréttar ætternisupplýsingar eru grunnforsenda þess kynbótaskipulags sem unnið er eftir í markvissri hrossarækt og auðvitað allri búfjárrækt. Hér haldast þétt í hendur réttar skráningar og einstaklingsmerkingar gripa (örmerkingar) og sýnataka, enda sýni aldrei tekin úr ómerktum gripum.

Afleiddir kostir þessa starfs eru m.a. að einfalt er að greiða úr faðernismálum þar sem hryssur hafa verið hjá fleiri en einum hesti, einfaldari leiðréttingar vafatilfella og/eða þar sem ætternisupplýsingar eru á huldu og einnig má nefna sýnatöku sem öflugt verkfæri til úrskurðar í deilumálum um eignarhald gripa. Þá er ótalinn sá gæðastimpill í sölu- og markaðsstarfi sem ótvírætt fylgir hrossi með staðfest ætterni.

Staðfesting á ætterni er kvöð á öllum stóðhestum sem koma til kynbótadóms. Enginn stóðhestur hlýtur dóm nema sýnatökuskilyrði séu uppfyllt. Fjögurra vetra (og yngri) hestum nægir venjulegt stroksýni úr nös með hefðbundinni sýnatöku en komi hestar til dóms 5v., eða eldri, er einnig skilyrt að blóðsýni hafi verið tekið úr gripnum. Dýralæknar vítt og breitt um landið annast blóðsýnatöku, oftast samhliða hæklamyndatöku 5v. stóðhestsefna. Blóðsýnin eru varðveitt til framtíðar á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum.

Frá og með sýningavori 2015 var sú regla tekin upp að stroksýni hafi verið tekið úr öllum hryssum og geldingum sem koma til kynbótadóms, þ.e. sýnataka og skráning sýnis í W-Feng áður en hrossið er skráð til dóms. Ekki er þó skilyrði að sýni séu fyrirliggjandi úr foreldrum hryssanna/geldinganna; líkt og kveðið er á um fyrir stóðhesta.

Hrossaræktendur vítt og breitt um landið útfæra sínar sýnatökur með ýmsum hætti. Velflestir hafa þó valið þá skynsamlegu leið að taka sýni úr öllum sínum stofnhryssum í upphafi enda ófyrirséð hvaða hryssur muni reynast heilladrýgstar í framræktun, áður en reynslan tekur af tvímæli. Víða er því ágæta verklagi fylgt að taka sýni úr öllum folöldum, sumir setja mörkin við merfolöld og hestfolöld sem eiga að halda sínu og enn aðrir ræktendur velja stífar úr folaldahópnum. Hér er rétt að árétta að DNA-sýni má taka úr gripnum hvenær sem er á lífsleiðinni.

DNA sýnatakan
Sem fyrr segir má taka DNA-sýni hvenær sem er á æviskeiði grips og raunar eftir að því lýkur ef hægt er að komast í tæri við sýni úr vef (hár/bein). Hefðbundin stroksýnataka er framkvæmd með því að væta tvo langa bómullar pinna með slími úr nös. Heppilegast og þægilegast er því að eiga við tamin hross og/eða folöld strax á fæðingarári eða á fyrsta vetri. Sýnin eru send Matís við fyrsta hentugleika sem alla jafna greinir öll innsend sýni innan mánaðar frá því að þau berast í hús. Ath. þó að hægt er að óska eftir sérstakri flýtimeðferð. 

Alls eru greind 17 erfðamörk í hverju sýni, samkvæmt evrópskum stöðlum og í takt við greiningar í öðrum hrossakynjum (ISAG-staðall). Niðurstöður staðlaðra greininga eru keyrðar jafnharðan inn í WorldFeng, Upprunaættbók íslenska hestsins (www.worldfengur.com). Rannsóknarstofur í Danmörku, Hollandi, Svíþjóð og Þýskalandi annast greiningar með sama hætti og Matís og birta niðurstöður sínar með samræmdum hætti í W-Feng. Almennir notendur Fengs sjá táknmyndir fyrir útkomu greininganna. Þar kemur fram hvort gripur er sannaður í föður-/móðurlegg eða hvorutveggja og/eða hvort greint sýni er til úr viðkomandi grip þó ekki sé hægt að bera saman við framættir.

Haust og vetur er góður tími fyrir ræktendur til að skoða sína stöðu m.t.t. DNA-sýna í stóðinu. Sérstaklega má árétta að missa ekki af eldri hryssum sem eiga uppvaxandi ættboga og möguleg stóðhestsefni í sínum afkvæmahópi. 

Allar frekari upplýsingar veita starfsmenn hrossaræktarsviðs RML.

Sjá nánar:
Viðtal Eiðfaxa við Pétur Halldórsson ráðunaut RML, birt 20. janúar 2024
DNA-sýni/Örmerkingarmenn, frétt af vef RML 3. mars 2023
DNA-sýni kynbótahrossa 2023, frétt af vef RML þann 21. apríl 2023
Matís - Leiðbeiningar fyrir sýnatöku úr hestum
DNA-sýnatökuskýrsla
Myndband, DNA-sýnataka - Hvað segja bændur - N4

Worldfengur
Verðskrá RML
Skeiðgenið - vissa eða spá?
Áhrif skeiðgensins á ganghæfni íslenskra hrossa
Ég C!