Loftslagsvænn landbúnaður

Loftslagsvænn landbúnaður, samstarfsverkefni stjórnvalda, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Skógræktarinnar og Landgræðslunnar er mjög öflugt verkefni í loftslagsmálum landbúnaðarins.

Loftslagsvænn landbúnaður hófst í ársbyrjun 2020 þegar fimmtán sauðfjárbúum var boðin þátttaka. Verkefnið hefur stækkað jafnt og þétt og eru nú 27 sauðfjárbú þátttakendur, síðan bættust fjórtán bú í nautgriparækt við haustið 2021 og 15 bú til viðbótar haustið 2022. Hvert þátttökubú tekur þátt í fjögur til fimm ár í senn. Stjórn verkefnisins skipa fulltrúar RML, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar en jafnframt kemur að verkefninu fjölbreyttur hópur ráðgjafa þessara samstarfsstofnana.

Myndin sýnir þátttökubú í sauðfjárrækt:
 
Myndin sýnir þátttökubú í nautgriparækt:

 

Öflugt verkfæri í loftslagsmálum landbúnaðarins

Styrkleikar verkefnisins felast í grasrótarnálgun þar sem hvert þátttökubú setur sér aðgerðaáætlun sem tekur mið af aðstæðum, getu og möguleikum hvers bús. Það hvetur bændur til aðgerða og hefur jákvæð áhrif á nærsamfélagið. Aðgerðaáætlunin er verkfærakista og lykillinn að loftslagsvænum landbúnaði. Verkefnið miðar að því að stækka smám saman verkfærakistuna þannig að markmiðum landbúnaðarins um kolefnishlutleysi verði náð. Verkefnið nær inn á mörg svið loftslags- og umhverfisgæða ásamt því að skila mörgum óefnislegum afurðum en tengist einnig byggðamálum og menningu. 

Aðgerðaáætlun sem byggir á tækifærum til loftslagsvænna aðgerða
Í loftslagsvænum landbúnaði setja þátttakendur sér skriflega aðgerðaáætlun, sem er endurskoðuð árlega, um hvernig dregið skuli úr losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbinding aukin i búrekstrinum. Þátttakendur vinna markvisst að settum markmiðum í daglegum bústörfum. Það leiðir til samdráttar á losun frá landbúnaði og bætir í þekkingarbrunninn um loftslagsvænar aðgerðir íslensks landbúnaðar.

Ráðgjöf og fræðsla um hvernig hægt er að gera búreksturinn loftslagsvænni
Þátttakendur fá markvissa fræðslu og ráðgjöf um hvernig hægt er að gera búreksturinn loftslagsvænni með bættum búskaparháttum, skógrækt og landgræðslu. Á upphafsnámskeiði er farið yfir undirstöðuatriði loftslagsmála landbúnaðarins, á mánaðarlegum fjarfyrirlestrum tala sérfræðingar til að dýpka þekkingu þátttakenda frekar og á árlegum staðvinnustofum hittast þátttakendur og ráðgjafar.

Aðgerðaáætlunin
Aðgerðaáætlunin byggir á aðgerðalista sem hvert þátttökubú setur sér markmið undir, eitt eða fleiri. Aðgerðirnar hvetja bændurna til að móta markmið undir aðgerðum, sem þekkt er að geti stuðlað að loftslagsvænum búskaparháttum. Í aðgerðinni út fyrir boxið eru þeir hvattir til þess að koma með nýjar aðgerðir og markmið að umhverfis- og loftslagsaðgerðum en tækifærin þar eru mikil og oft koma fram loftslagsvænar aðgerðir sem eru fullar af nýsköpun, framsækni og spennandi möguleikum.

Aðgerðalistinn er meðfylgjandi:

Þátttökustyrkir og aðgerða- og árangurstengdar greiðslur
Til að standa straum af kostnaði þátttakenda í verkefninu hljóta þátttakendur þátttökustyrk. Á öðru ári verkefnisins taka við aðgerða- og árangurstengdar greiðslur sem byggja á aðgerðum og árangri settra markmiða hvers þátttakanda.

Fyrir hverja er verkefnið – hvernig get ég tekið þátt?
Verkefnið er fyrir sauðfjárbændur í gæðastýrðri sauðfjárrækt og nautgripabú sem uppfylla lögbundnar skýrsluhaldskröfur sbr. 4. gr. reglugerðar um stuðning við nautgriparækt. Reglulega er auglýst eftir þátttakendum, en auglýsingar eru birtar í Bændablaðinu og á heimasíðum RML, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Verkefnastjórn
Verkefnið er fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Verkefnastjórn skipa: Berglind Ósk Alfreðsdóttir, verkefnisstjóri, Borgar Páll Bragason RML, Gústav M. Ásbjörnsson, Landgræðslunni og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Skógræktinni. Allar nánari upplýsingar um verkefnið er hægt að fá hjá verkefnisstjóra á netfanginu berglind@rml.is og í síma 516-5000.

Loftslagsvænn landbúnaður í fjölmiðlum:
Viðtal við verkefnastjóra í Samfélaginu RÁS 1
Viðtal við Sigurbjörn Hjaltason þátttakanda í Samfélaginu RÁS 1 - mín 18:30
Viðtal við Sigurð Max þátttakanda í Bændablaðinu
Sauðfjárbú gera aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Fimmtán sauðfjárbú bætast við Loftslagsvænan landbúnað