LOGN netfyrirlestrar 20. – 24. apríl

Í næstu viku höldum við netfyrirlestraröð LOGN áfram. Þá verða fluttir þrír spennandi fyrirlestrar um náttúru svæðisins sem nær yfir Mýrar í Borgarbyggð og sunnanvert Snæfellsnes. Fjallað verður um efni sem nær yfir náttúruvernd og gildi náttúruverndar, aðferðir við friðlýsingar, gróður og vistgerðir og fugla- og dýralíf. Það er öllum velkomið að fylgjast með, en hægt er að skrá sig inn og óska eftir tengingu á fyrirlestrana hér í gegnum heimasíðuna.

Endilega skráið ykkur inn og takið þátt í nýsköpun á sviði náttúruverndar. 

Mánudaginn 20. apríl kl 13:00

Náttúruvernd og friðlýsingar
Fjallað verður um náttúruvernd almennt og ástæðu þess að landsvæði voru og eru friðlýst. Þá verður farið yfir alþjóðlegt flokkunarkerfi verndarsvæða og ýmiss stjórnunarform. Loks verður reifaður ávinningur sem felst í náttúruvernd samhliða landbúnaði.

Flytjandi er Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

Miðvikudaginn 22. apríl kl. 13:00  

Vistgerðir á landi, í fjörum og ferskvatni og tillögur á náttúruminjaskrá 
Vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar Íslands verður kynnt og fjallað um vistgerðir á landi, í fjörum og ferskvatni sem finnast á Mýrum í Borgarbyggð og sunnanverðu Snæfelssnesi. Svæðið Mýrar-Löngufjörur er tilnefnt á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár vegna vistgerða á landi, í fjörum og ferskvatni og vegna fugla og verður gerð grein fyrir foresendum sem liggja að baki vali svæðisins. Að kynningunni koma Olga Kolbrún Vilmundardóttir landfræðingur og Sunna Björk Ragnarsdóttir sjáfarlíffræðingur en báðar starfa á Náttúrufræðistofnun Íslands í Urriðaholti og á Akureyri.

Föstudaginn 24. apríl kl. 13:00 

Fuglar og dýralíf 
Fjallað verður um auðugt fuglalíf, mikilvæg fuglasvæði og villt spendýr á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Mýrum í Borgarbyggð. Á þessu svæði eru alþjóðlega mikilvægar sjófuglabyggðir m.a. lunda og æðarfugls. Hér eru einnig mikilvægir viðkomustaðir margra farfugla eins og blesgæsar, margæsar, rauðbrystings, sanderlu og jaðrakans, fjaðrafellistöðvar álftar og æðarfugls og annað helsta varpland hafarnar. Refir eru algengir á þessu svæði og selalátur eru víða á skerjum. 

Flytjendur eru Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Ester Rut Unnsteinssdóttir dýravistfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands.  

Sjá nánar:
LOGN netfyrirlestrar - Skráning
Fyrri fyrirlestrar LOGN 

sts/okg