Of stutt eða löng geldstaða er neikvæð

Geldstaða sem nemur 5 vikum eða skemmri tíma hefur neikvæð áhrif á nyt komandi mjólkurskeiðs, en ekki fæst heldur nein svörun í nyt við lengingu geldstöðu úr 6-7 vikum í 10-11 vikur. Þetta kemur m.a. fram í rannsóknaniðurstöðum frá Landscentret, Dansk Kvæg í Danmörku. Gagnasafn í rannsóknina var keyrt út úr skýrsluhaldi danskra bænda og tekur yfir mjaltaskeiðsafurðir 341.243 kúa af SDM, RDM og Jersey-kyni.
Meginviðfangsefni rannsóknarinnar var að greina áhrif geldstöðulengdar á afurðir og heilsufar á komandi mjólkurskeiði.
Niðurstöðurnar sýna að:

  • Kýr sem standa stutt geldar (undir 5 vikum) skila að meðaltali 2 kg lægri dagsnyt fyrstu 100 daga mjólkurskeiðsins en þær kýr sem fá hæfilega geldstöðu (6-7 vikur).
  • Að jafnaði hækkar nyt lítið þó geldstöðutíminn lengist úr 6-7 vikum í 10-11 vikur.
  • Ávinningur getur verið af lengri geldstöðu ungra kúa (á 2. kálfi) og hjá kúm sem hafa verið geltar í hárri nyt.
  • Neikvæð áhrif langrar geldstöðu eru hvað mest hjá kúm sem eru þurrkaðar upp í mjög lágri nyt.
  • Frumutala lækkar með lengri geldstöðu. Veik tilhneiging er í þá átt að hlutfall kúa sem eru meðhöndlaðar við júgurbólgu lækki með lengri geldstöðu.
  • Kýr sem standa stutt geldar fá sjaldnar doða (bráðadoða).
  • Hlutfall þeirra kúa sem fá súrdoðameðhöndlun stígur eftir því sem geldstaðan lengist. Þetta er nátengt holdafari kúnna en feitum kúm er hættara við súrdoða.
  • Takmarkað eða ekkert samband fannst milli geldstöðulengdar og erfiðleika við burð.
  • Förgunarhlutfall hækkar með lengri geldstöðu sem tengist áreiðanlega aukinni hættu á meltingar- og efnaskiptasjúkdómum, sérstaklega súrdoða.
  • Kúm er frekast slátrað á mjólkurskeiði eftir mjög stutta eða mjög langa geldstöðu.

 

 

Stutt geldstaða
< 5 vikur

Hæfileg geldstaða
6-8 vikur

Löng geldstaða
> 10 vikur

Afurðir

-

+

+ / -

Heilsufar

-

+

-

Júgurbólga

-

+

+

Ending (förgun)

-

+

-

Hagkvæmni

-

+

-

 

En hvað er hagkvæmt?
Kjörlengd geldstöðu hlýtur að taka mið af því hve miklu mjólkurmagni er fórnað með því að gelda kýrnar samanborið við aukningu í nyt á komandi mjólkurskeiði.
Áðurnefndar athuganir í Danmörku sýna að lenging geldstöðu úr 3 ½ viku í 4-5 vikur skilar 150 kg mjólkur meira fyrstu 305 daga mjólkurskeiðsins. Vika í viðbót, þ.e. 5-6 vikur, skilar 50 kg að auki.
Að öllu jöfnu er hagkvæmara að lengja stutta geldstöðu en geldstaða lengri en 7-10 vikur skilar ekki hagnaði. Við lengri geldstöðu en 7-10 vikur minnkar nytin fyrstu 305 daga mjólkurskeiðsins um 100 kg fyrir hverja viku sem geldstaðan lengist um.
Það má því segja að lengri geldstaða en 7 vikur eigi engan rétt á sér nema um sé að ræða mjög holdgrannar kýr og/eða kýr í mjög hárri nyt.

Fóðrun í geldstöðu
Undanfarin ár hafa menn beint sjónum sínum í auknum mæli að fóðrun kúa í geldstöðu. Sú fóðrun er mjög mikilvæg og getur haft veruleg áhrif á frammistöðu kúnna á komandi mjólkurskeiði og jafnvel lengur. En hvernig á að fóðra kýr í geldstöðu?
Fóðrun í geldstöðu skal uppfylla orku- og próteinþarfir kúnna, þ.e. bæði til viðhalds og fósturvaxtar. Varasamt er að fóðra kýrnar þannig að þær bæti á sig holdum í geldstöðunni. Það þýðir að flestar kýr þurfa að vera í þeim holdum sem þær eiga að vera í um burðinn þegar þær eru geltar upp. Sterk fóðrun til þess að ná holdum og það að láta feitar kýr leggja af í geldstöðunni kann ekki góðri lukku að stýra. Þess vegna er brýnt að fóðra kýrnar rétt fyrir geldstöðuna, þ.e. á mjólkurskeiðinu sjálfu, eigi geldstöðufóðrunin að vera eins og best verður á kosið.
Holdastig upp á 3,0-3,5 við geldstöðu og þar með burð er kjörgildi eigi kýrnar að halda nyt. Lægri holdastigun þýðir að öllu jöfnu lægri nyt á komandi mjólkurskeiði. Eins og áður sagði eiga kýrnar að halda holdum á geldstöðutímanum, ekki bæta við sig og alls ekki leggja af. Holdgrönnum kúm veitir hins vegar sennilega ekki af að bæta aðeins við sig en þó ekki mikið, helst ekki meira 0,25 stigum og alls ekki yfir 0,5 stigum á holdastigunarkvarðanum.
Fóðrun í geldstöðu má skipta í þrjú tímabil; við upphaf geldstöðu, fyrri hluta geldstöðu og fyrir burð.

Fóðrun við upphaf geldstöðu
Upphaf geldstöðunnar má skilgreina frá því að farið er að gelda kýrnar og þar til mjólkurmyndun í júgrinu hefur stöðvast sem er u.þ.b. viku eftir að mjöltum er hætt. Til þess að gelda kýrnar er best að draga úr gjöf, sérstaklega orkugjöf, t.d með því að hætta kjarnfóðurgjöf alveg og hætta síðan mjöltum alveg. Nauðsynlegt getur verið að gefa lakara hey, þ.e. með lægri meltanleika, en varast skyldi að draga um of úr próteingjöf. Sé hlutfall próteins lágt í heyinu gæti þurft að bæta próteingjafa við fóðrið. Prótein á a.m.k. að vera 10% heildarfóðursins svo AAT-þarfirnar séu uppfylltar. Þá skal varast fóður með hátt kalsíum– og/eða kalíuminnihald, eins og t.d. grænfóður. Ekki má taka vatnið af kúm sem verið er að gelda.

Fóðrun á fyrri hluta geldstöðu
Eins og áður sagði mega kýrnar ekki tapa holdum í geldstöðunni. Það er því rétt að fóðra kýrnar eins og þarfir til viðhalds og fósturvaxtar segja til um og kannski rétt rúmlega það. Það eru um 5,5 FEm á dag fyrir 450 kg kú. Holdgrönnum kúm er rétt að gefa um 0,8 til 1,0 FEm meira á dag.

Fóðrun fyrir burð
Síðustu 2-3 vikur geldstöðunnar eykst fósturvöxturinn umtalsvert samfara því að átgeta kúnna minnkar vegna minnkandi vambarrýmis. Á þessum tímapunkti er mikilvægt að fóðrun sé sem næst þörfum og kýrnar ekki í neikvæðu orkujafnvægi. Mikilvægt er að venja kýrnar á síðustu vikum geldstöðunnar við það fóður sem þær eiga að fá eftir burðinn. Á þessum tíma eru fóðurþarfirnar orðnar um 6,5 til 7,0 FEm á dag og brýnt að gefa fóður með háan meltanleika. Ekkert er fengið með því að fara of hátt í kjarnfóðurgjöf fyrir burðinn. Góð þumalfingurregla er að við burð séu kýrnar að fá um 1/3 hluta þess sem þær fá mest eftir burð. Það þýðir að ef kýrnar fara hæst í um 10 kg kjarnfóðurs á dag væri kjarnfóðurgjöf um burð orðin 3,0-3,5 kg á dag. Prótein ætti að vera a.m.k. 15% heildarfóðursins á þessum tíma og gefa ætti steinefni og E-vítamín.

Heimildir:
Aaes, Ole 2003: Fodring af goldkoer skal styres stramt. Kvæg nr. 10: 14-17.
Kjeldsen, Anne Mette 2003a: Ny KvægForskning, 2003.
Kjeldsen, Anne Mette 2003b: Ingen okonomi i korte eller lange goldperioder. Kvæg nr. 10: 12.
Kjeldsen, Anne Mette 2003c: Goldperioder under fire-fem uger giver stor tab i ydelse. Kvæg nr. 10: 8-9.
Kjeldsen, Anne Mette 2003d: Lange goldperioder giver mere ketose og hojere dodlighed. Kvæg nr. 10: 10-11.

Guðmundur Jóhannesson
Pétur Halldórsson