Tanksýnin gefa vísbendingar um fóðrun kúnna

Niðurstöður tanksýnanna gefa okkur mikilvægar upplýsingar hvort rétt sé staðið að fóðrun kúnna. Sérstaklega eru það niðurstöðurnar um úrefni, fríar fitusýrur, fitu, prótein, laktósa og frostmark sem ber að skoða. Hér eru nokkur dæmi um það hvernig megi lesa út úr tanksýnunum og meta ástand fóðrunarinnar. Þó ber að geta þess að ekki má horfa blint á eitt tanksýni heldur reyna að bera saman yfir lengra tímabil, enda getur eitt tanksýni mistekist, gefið villandi niðurstöður.
Í töflu 1 eru tekin nokkur dæmi um tanksýni þar sem eitthvað er að og með því að meta saman ólíka mæliþætti má komast til botns í vandræðunum sem eru á hverjum bæ fyrir sig. Ráðunautar í fóðrun geta hjálpað til við slík tilfelli, en þeir þurfa einnig að fá upplýsingar um fóðrið og fóðrunaraðferðir, holdstig kúnna og heilsu. Þá geta mjaltakerfi einnig verið vanstillt og valdið skemmdum á mjólkinni í tanknum.

Tafla 1 Dæmi um tanksýni.

  Úrefni
mMól/l
Fríar fitusýrur
mMól/l
Fita
%
Prótein
%
Laktósi
%
Frostmark
°C
Dæmi 1 7,1 0,3 4,09 3,31 4,79 -0,525
Dæmi 2 2,8 0,4 4,08 3,35 4,80 -0,527
Dæmi 3 5,7 1,2 3,34 3,33 4,65 -0,534
Dæmi 4 7,2 0,5 3,65 2,94 4,50 -0,528
Dæmi 5 3,5 0,1 4,05 3,05 4,75 -0,532
Dæmi 6 7,0 2,2 3,79 3,13 4,46 -0,530
Dæmi 7 5,4 0,5 4,28 3,61 4,29 -0,501
Dæmi 8 4,3 0,3 3,90 3,08 4,51 -0,509


Mjólkurmagn
Er samræmi milli innvegins mjólkurmagns og þess sem mælist úr kúnum dags daglega? Er samræmi milli fóðuráætlunarinnar sem unnið eftir og þess magns sem selt er til mjólkurbús, þegar búið er að draga frá mjólk sem fer í kálfa og heimilishald? Með því að vikta fóðurnotkun til eins dags er hægt að gera sér í hugarlund hversu mikið kýrnar éta og ættu að framleiða miðað við gæði fóðursins.

Úrefni gefur vísbendingar um prótein- og orku í fóðrinu
Þó úrefnainnihald hafi ekki áhrif á verð innlagðrar mjólkur gefur það okkur mikilvægar vísbendingar um fóðrunina og samræmi orku og próteins í fóðrinu. Almennt er talað um að úrefni í mjólk eigi að liggja á bilinu 3-6 mMól/l. Þá má reikna með að 100 gramma aukning á PBV á dag hækki úrefnagildið í tankmjólkinni um það bil 0,4 mMól/l. Sé orkuskortur í fóðrinu upp á 7 MJ (≈1 FEm ) hækka úrefni í mjólkinni um 0,5 mMól/ml. Sé offóðrað á AAT hækka úrefnin einnig örlítið.

Út frá dæmi 1 í töflu 1 liggur grunur á því að offóðrað sé á próteini, sérstaklega í ljósi þess að fríar fitusýrur eru á mjög góðu róli. Þetta er einfalt að laga með því að skipta um kjarnfóður og velja þá kjarnfóðurblöndu með lægra hrápróteininnihaldi.

Dæmi 2 er andstæða dæmis 1, hér vantar sennilega hráprótein í fóðrið og einfaldast er að skipta um kjarnfóðurblöndu og velja þá eina sem inniheldur meira hráprótein. Sumum bændum finnst kannski óþarfi að vera að horfa mikið á úrefnainnihaldið þar sem verðefnainnihaldið er á góðu róli, sérstaklega þar sem úrefnin hafa engin áhrif á mjólkurverðið til bóndans. Hins vegar getur of lágt eða hátt úrefnainnihald haft áhrif á frjósemi kúnna. Sé úrefni lágt fyrst eftir burð er hætt við að kýrnar liggi niðri og beiði ekki fyrst eftir burð. Sé úrefni hátt er hins vegar hætt á því að kýrnar haldi ekki en beiði þó eðlilega auk þess sem við fáum minni afurðir. Það er orkufrekt ferli fyrir kúnna að umbreyta köfnunarefninu í fóðrinu yfir á hættulaust stig (úrefni) og því magnast orkuskortur ef hann er til staðar.

Tafla 2

↑ Hækkað eða mjög hátt úrefni eða prótein
→ Meðal úrefni eða prótein
↓ Lágt úrefni eða prótein
   Túlkun (Dæmi)
Úrefni ↑
Prótein ↑
  Offóðrun á próteini en jafnframt offóðrun á orku
  (D: Kýr á seinni hluta mjaltaskeiðs á beit) 
Úrefni ↑
Prótein →
  Offóðrun á próteini og næg orka í fóðrinu
 (D: Kýr á miðju mjaltaskeiði með offramboð af próteini í fóðri)
Úrefni ↑
Prótein ↓
  Offóðrun á próteini og vanfóðrun á orku
 (D: Kýr á fyrri hluta mjaltaskeiðs með offramboð á próteini)
Úrefni →
Prótein ↑
  Nægilegt próteinframboð og mjög gott framboð á orku í fóðri
 (D: Kýr á seinni hluta mjaltaskeiðs með gott fóðurframboð)
Úrefni →
Prótein →
  Nægilegt prótein og orka í fóðrinu
 (D: Kýrnar eru fóðraðar eftir stöðu á mjaltaskeiði, fóðuráætlun passar vel)
Úrefni →
Prótein ↓ 
  Nægilegt prótein en örlítill orkuskortur
 (D: Kýr á fyrri hluta mjaltaskeiðs þar sem heildar fóður er ekki alveg hentugt)
Úrefni ↓
Prótein ↑
  Próteinskortur en ríkuleg fóðrun á orku
 (D: Kýr á seinni hluta mjaltaskeiðs sem fær nóg af orku (sérstaklega kolvetni)
Úrefni ↓
Prótein →
  Próteinskortur en sennilega nægileg orka í fóðrinu
 (D: Kýr á miðju mjaltaskeiði sem er fóðruð á orku umfram þarfir)
Úrefni ↓
Prótein ↓ 
  Undirfóðrun á bæði próteini og orku
 (D: Súrdoðatilfelli eða mjög mikið átleysi)

 

Fituinnihald endurspeglar fóðrun
Nú þegar sala á mjólkurfitu er orðin jafn mikil og sala á mjólkurpróteini þurfa sumir bændur að auka framleiðslu sína á mjólkurfitu og hækka fituhlutfall mjólkur sinnar. Hátt fituhlutfall miðað við próteinhlutfall gefur hærra hlutfall af smjöri miðað við framleiðslu á undanrennudufti. Í dæmi 3 í töflu 1 sést að fituinnihaldið er óeðlilega lágt þó að próteinhlutfallið sé nokkuð eðlilegt. Það getur bent til þess að vambarumhverfið er ekki mjög hagstætt eða að kýrnar séu með skitu. Nokkrar fóðrunarlegar ástæður geta verið fyrir því að fituinnihaldið er lágt:

  • Of lítið gróffóðurát vegna rangrar fóðrunaraðferðar (s.s. of lítið gefið eða fóður orðið ólystugt eftir marga daga á fóðurgangi)
  • Léleg gróffóðurgæði eða lítið át (hátt kjarnfóðurhlutfall)
  • Lágt sykurinnihald í gróffóðrinu veldur ólystugara gróffóðri og þar með fær kýrin minna af byggingarefnum fyrir mjólkurfitu
  • Trénisinnihald (NDF) gróffóðurs óþarflega lágt og of smátt saxað fóður hefur neikvæð áhrif á vambarumhverfið og dregur úr jótrun
  • Stórir skammtar af kjarnfóðri í einu valda miklum sýrustigssveiflum í vömb og þar af leiðandi lélegt vambarumhverfi
  • Röng kjarnfóðurtegund miðað við gróffóðurát og –gæði. Sé mikið kjarnfóður gefið (yfir 12-14 kg/dag) ætti það að innihalda smávegis sykurrófuhrat til að veita vambarörverunum nægilegt tréni til að vinna úr.
  • Mikil vanfóðrun á bæði próteini og orku
  • Selenskortur

Þá ber að nefna að lágt fituinnihald getur verið erfðafræðilegs eðlis enda lengi verið ræktað fyrir aukinni nyt og próteinmyndun hjá kúnum en minni áhersla lögð á fitumyndun vegna aðstæðna á markaðnum. Kynbótamat hjarðarinnar fyrir einstökum eiginleikum s.s. fituinnihaldi getur gefið vísbendingar um þetta.

Lágt próteinhlutfall í mjólk bendir til orkuskorts
Ef kýrnar fá of litla orku úr fóðrinu eða ef vambarumhverfið er lélegt verður framleiðsla própíonsýru í vömbinni lítil. Þar með verður upptaka glúkósa í blóðinu lágt, en glúkósi er eitt mikilvægasta hráefnið í framleiðslu mjólkurpróteina í júgranu. Á sumum bæjum fer saman lágt próteinhlutfall og lélegar afurðir sem þá kemur af of litlu próteini í fóðrinu. Dæmi 4 í töflu 1 sýnir tanksýni með lágt próteinhlutfall og há úrefni. Þó svo að fríar fitusýrur séu ekki mjög miklar virðast kýrnar þó fá of litla orku úr fóðrinu. Það sést best á lágu fituinnihaldi.

Í dæmi 5 er einnig lágt próteininnihald en ekki aðrar vísbendingar sem gefa til kynna að kýrnar fái of litla orku. Þetta tanksýni er úr hjörð þar sem kýrnar bera á afmörkuðum tíma og voru því allar komnar um það bil 1-2 mánuði frá burði. Á þeim tíma er þurrefnisinnihald í mjólkinni hvað lægst án þess að fóðruninni sé beint ábótavant. Mynd 1 sýnir verðefnahlutfall í mjólkinni frá burðartíma í október fram í júní. Þar sést greinilega hvernig verðefnahlutfallið fer lækkandi fyrstu vikurnar eftir burð en hækkar svo jafnt og þétt út mjaltaskeiðið.

Háar fríar fitusýrur og hátt úrefni = orkuskortur
Verði fitukúlurnar í mjólkinni fyrir hnjaski og springa veldur það háu hlutfalli af fríum fitusýrum auk bragðgalla af mjólkinni. Þetta getur verið bæði vegna fóðrunar eða vegna galla eða bilunar í mjaltabúnaði. Flæði mikið loft inn í mjaltakerfið við mjaltir, rangur halli á mjólkurrörum eða frysting mjólkur í mjólkurtanknum geta verið ástæður þess að fríar fitusýrur mælast háar í tankmjólkinni. Einnig geta of tíðar mjaltir í mjaltaþjónum valdið því að fitan í mjólkinni verður viðkvæm eða óstöðug og þolir því verr alla meðhöndlun s.s. dælingu og hræringu í tanknum. Þá getur orkuskortur í fóðrinu valdið því að mjólkurfitukúlurnar verða viðkvæmari en ella. Í mörgum tilvikum er hægt að finna ástæður hárra fitusýra með því að skoða betur hina þættina sem mældir eru í tanksýnunum. Í dæmi 6 í töflu 1 eru úrefni og fríar fitusýrur háar, verðefna- og laktósahlutfallið lágt en frostmarkið eðlilegt. Það bendir sterklega til þess að vandinn sé fóðrunarlegs eðlis. Lítið gróffóðurát, hvort sem það kemur af of lítilli gjöf eða lélegu fóðri sem veldur lítilli lyst, of lítil kjarnfóðurgjöf eða sein upptröppun á kjarnfóðri eftir burð geta valdið orkuskorti. Einnig geta verið óbeinar orsakir s.s. lélegt vambarumhverfi sem veldur hraðara flæði í gegnum kúnna (þunnt á þeim) og þannig nýtist fóðrið illa.

Laktósaframleiðsla gefur einnig mikilvægar upplýsingar
Hvorki úrefnainnihald né laktósahlutfall í mjólkinni hefur áhrif á skilaverð til bóndans en þau geta hins vegar veitt mikilvægar upplýsingar um fóðrunina, sérstaklega þegar horft er á þau saman. Í dæmi 6 kemur fram hátt innihald af fríum fitusýrum og lágt hlutfall laktósa sem bendir til þess að kýrnar sjálfar séu ástæða þess að fríu fitusýrurnar eru háar, en ekki t.d. mjaltakerfið. Hins vegar getur það verið vegna mjaltakerfis eða tæknilegra annmarka þegar fríu fitusýrurnar rjúka upp án þess að laktósahlutfallið breytist (en algengast er að það sé á bilinu 4,6-4,8%).

Laktósa-hlutfall gefur bóndanum mikilvægar upplýsingar þegar frostmarkið er of hátt, eins og sést í dæmi 7 í töflu 1. Of hátt frostmark (þegar frostmarkið fer að nálgast 0°C) kemur í flestum tilvikum af of mikilli vatnsíblöndun, s.s. þegar vatni er bætt í endaeininguna eða mjólkurlögnina eftir mjaltir til að dæla mjólk fram í tank. Í slíkum tilfellum ætti verðefnainnihald ekki að vera hátt. Hins vegar getur frostmark mjólkurinnar verið afbrigðilegt vegna sérstakra aðstæðna við fóðrun. Laktósa-hlutfall í mjólk stjórnast af osmótískum þrýstingi í júgranu, sem aftur stjórnast af steinefnaframboði kúnna. Í Noregi tíðkast að gefa kúm „kartöfludrykk“, þ.e.a.s. hrat og öll þau næringarefni sem verða eftir þegar kartöfluákavíti er framleitt. Slíkur „kartöfludrykkur“ inniheldur mikið kalí og lítið kalk miðað við kjarnfóður. Kýrnar í dæmi 7 höfðu ekki aðgang að saltsteini og fengu því líka of lítið natríum. Með því að stilla fóðrunina af fannst lausn á þessu vandamáli; þ.e.a.s. hið tæknilega var í lagi.

Lélegt júgurheilbrigði getur valdið lágu laktósa-innihaldi, enda saltinnihald hærra í mjólk með háa frumutölu. Þegar frumutalan er há er rétt að skoða einnig laktósa-hlutfallið.

Dæmi 8 í töflu 1 bendir til þess að mjaltatæknin hafi klikkað og að í mjólkina hafi blandast mikið vatn. Heldur lágt innihald fitu, próteins og laktósa, auk þess sem frostmarkið er hátt, bendir til þess. Í eðlilegri mjólk, beint úr kúnni, er frostmarkið -0,527°C en í þessu dæmi er það -0,509°C, sem bendir til þess að um 4% vatn hafi bæst við í tanknum.

Að lokum
Verðefnainnihald mjólkur getur skipt miklu máli fyrir rekstrarafgang á kúabúum og ættu bændur að kappkosta að auka verðmæti mjólkur sinnar. Með því að stilla af fóðrun og fóðrunaraðferðir er hægt að auka verðmæti hvers mjólkurlítra, bæta fóðurnýtingu og draga úr kostnaði sem hlýst af rangri fóðrun, of hárri útskolun úrefna, lélegri frjósemi og heilbrigði. Því er mikilvægt að skoða tanksýni gaumgæfilega og leita ráða hjá fóðrunarráðgjöfum Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins.

(Þýtt og staðfært úr Buskap 5/2013)

  Jóna Þórunn Ragnarsdóttir
Ráðunautur í fóðrun hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
jona@rml.is