Aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur

Um aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur er fjallað í reglugerð um stuðning í nautgriparækt nr. 1252/2019. Þar segir:

14. gr.
Markaðsfyrirkomulag.
Öll aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur falla undir ákvæði þessarar reglugerðar og eru önnur aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á milli lögbýla óheimil hvort sem um er að ræða sölu eða gjafir. Undir reglugerð þessa fellur þar með talið flutningur á greiðslumarki milli lögbýla í eigu sömu eigenda, sbr. þó 15. gr.

Ef verðþróun á markaði verður óeðlileg að teknu tilliti til framboðs, eftirspurnar og aðstæðna að öðru leyti er ráðherra heimilt, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, að setja hámarksverð á greiðslumark. Hámarksverð getur aldrei orðið hærra en þrefalt lágmarksverð mjólkur til framleiðenda eins og það er á hverjum tíma.

Á markaði fyrir greiðslumark mjólkur sem haldinn verður þann 1. apríl 2020 verður hámarksverð greiðslumarks kr. 185.

15. gr.
Aðilaskipti innan jarða.
Þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar er heimilt að staðfesta aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur, án þess að viðskiptin hafi verið gerð á markaði skv. 16. gr., þegar aðilaskiptin að greiðslu­marki fara fram milli aðila innan sama lögbýlis. Með sama hætti er heimilt að staðfesta sölu á greiðslu­marki frá einu lögbýli til annars lögbýlis í eigu sama aðila, enda hafi öll lögbýlin verið í hans eigu fyrir 31. desember 2018. Auk þess er heimilt að staðfesta tilfærslu greiðslumarks milli lögbýla ef framleið­andi, sem er einstaklingur, flytur búferlum með allan sinn rekstur, það er leggur niður rekstur á einu lögbýli í því skyni að hefja hann á öðru lögbýli, enda sé viðkomandi sannanlega ábúandi á nýju jörðinni, með skráð lögheimili þar og stundi þar búrekstur.

16. gr.
Markaðsframkvæmd.
Markaður fyrir greiðslumark mjólkur skal haldinn þrisvar á ári; þann 1. apríl, 1. september og þann 1. nóvember. Beri þessar dagsetningar upp á laugardag eða sunnudag færist markaðsdagur til næst­komandi mánudags. Seljanda er einungis heimilt að bjóða til kaups á apríl- og september­markaði það magn greiðslumarks, sem hann hefur ekki þegar nýtt innan verðlagsársins fyrir inn­legg í afurða­stöð.

Þeir sem óska eftir að kaupa eða selja greiðslumark á markaðnum skulu skila inn tilboðum með rafrænum hætti sem skulu tilgreina nafn og kennitölu tilboðsaðila, heimili og búsnúmer, netfang, ef það er fyrir hendi og það magn og verð greiðslumarks, sem boðið er til sölu eða leitað er eftir kaupum á. Frestur til að skila inn tilboðum rennur út 10. mars þegar markaður er haldinn 1. apríl, 10. ágúst þegar markaður er haldinn 1. september og þann 10. október þegar markaður er haldinn 1. nóvember.

Einungis er heimilt að skila inn einu tilboði um kaup eða sölu fyrir hvert lögbýli og af sama aðila eða tengdum aðila. Tilboðsgjöfum er skylt að gæta að því að einungis eitt tilboð komi frá aðilum sem teljast tengdir. Óheimilt er að bjóða fram mismunandi verð í sama tilboði. Óheimilt er aðilum að gefa upp magn og verð sem tiltekið er í tilboðunum, sem opnuð eru á markaðsdegi samkvæmt þessari grein. Sé það gert skal þeim tilboðum vikið til hliðar.

Nýliðar skulu eiga forkaupsrétt á 5% af því greiðslumarki sem boðið er til sölu á hverjum markaði, svo lengi sem þeir uppfylla skilyrði reglugerðarinnar um gilt kauptilboð og að því gefnu að þeir bjóði verð sem er jafnt eða hærra en jafnvægisverð skv. 17. gr.

Að hámarki er hægt að óska eftir 50.000 lítrum til kaups á hverjum markaði, eða alls 150.000 lítrum árlega. Framkvæmdanefnd búvörusamninga gerir tillögu til ráðherra um breytt hámark ef aðstæður krefja. Þá má hlutdeild framleiðanda eða framleiðenda sem eru í eigu einstakra aðila, einstak­linga, lögaðila eða tengdra aðila ekki nema hærra hlutfalli en 1,2% af árlegu heildar­greiðslu­marki mjólkur.

Til að tilboð sé gilt skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýlinu. Sé um leiguábúð að ræða skal seljandi skila vottfestri yfirlýsingu frá mótaðila (jarðareiganda/leiguliða) um samþykki sölu. Þá skal seljandi, sem er eigandi lögbýlis, leggja fram þinglýsingarvottorð fyrir það lögbýli sem greiðslu­mark er selt frá og skriflegt, þinglýst samþykki allra veðhafa fyrir sölunni.

Heimilt er að krefja um frekari upplýsingar og gögn ef tilefni þykir til þess innan fyrirfram­ákveðins tímamarks. Heimilt er að senda kröfu til innheimtu fyrir kauptilboði ef hún er ekki greidd á gjald­daga á kostnað tilboðsgjafa. Einnig er heimilt að leggja fram með kauptilboði eða fyrir upphaf mark­aðs­dags staðgreiðslu fyrir andvirði greiðslumarksins. Kaupandi skal inna af hendi staðgreiðslu fyrir andvirði greiðslumarksins fyrsta virka dag næsta mánaðar eftir opnun tilboða.

17. gr.
Flokkun tilboða.
Við opnun tilboða, er skráð magn og verð á hverju tilboði um kaup eða sölu. Við flokkun tilboða um sölu skal þeim raðað upp eftir hækkandi verði við hvert innfært tilboð. Kauptilboðum skal raðað upp eftir lækkandi verði við hvert innfært tilboð á sama hátt. Nýliðar skulu eiga forkaups­rétt á 5% af því greiðslumarki sem boðið er til sölu á hverjum markaði, sbr. 16. gr.

Náist ekki fullt jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar greiðslumarks skiptist greiðslumark sem selt verður hlutfallslega milli kaupenda í samræmi við magn hvers tilboðsgjafa.

Greiðslumarki sem boðið er til sölu á hærra verði en jafnvægisverði skal vísað frá markaði og á sama hátt kauptilboðum sem eru lægri en jafnvægisverð, sbr. þó ákvæði 7. gr. um sölu á sér­skráðu greiðslumarki lögbýla í leiguábúð á forræði leiguliða.

Öll viðskipti sem fara fram á viðkomandi markaðsdegi skulu fara fram á því jafnvægisverði sem markaðurinn gefur í það sinn eða hámarksverði, sbr. 3. gr.

18. gr.
Aðilaskipti að greiðslumarki.
Aðilaskipti að greiðslumarki, sem uppfylla skilyrði um jafnvægisverð og jafnvægismagn, eru án takmörkunar þegar í hlut á eigandi jarðar sem jafnframt er ábúandi. Sé ábúandi lögbýlis hins vegar annar en eigandi/eigendur þess þarf samþykki beggja/allra fyrir ráðstöfun greiðslumarks frá lögbýli. Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýli á markaði og skal það sérstaklega skráð á nafn hans.

Leiguliða er heimilt að selja sérskráð greiðslumark án samþykkis jarðareiganda. Skal hann þá bjóða það fram á markaði, sbr. 16. gr. Sé um ábúðarlok að ræða skal það boðið fram á næsta mögu­lega markaðsdegi.

19. gr.
Ákvörðun um viðskipti, gildistaka tilboða, réttaráhrif o.fl.
Tilboð gerð um kaup eða sölu á greiðslumarki eru bindandi á markaðsdegi. Kaup- eða sölu­tilboð má draga til baka hvenær sem er innan hvers markaðstímabils, sem hefst að loknum hverjum mark­aðs­degi og stendur fram að þeim næsta.

Aðilaskipti að greiðslumarki sem fara fram á markaði í nóvember skulu taka gildi frá og með 1. janúar á næsta verðlagsári á eftir. Aðilaskipti sem fara fram á markaði í apríl og september skulu taka gildi frá og með 1. janúar á yfirstandandi verðlagsári. Greiðslumark sem flyst á milli aðila á þennan hátt skal taka sömu hlutfallsbreytingum og heildargreiðslumark gerir við ákvörðun á heildar­greiðslu­marki hvers árs. Aðilaskipti að greiðslumarki taka ekki gildi fyrr en staðfesting ráðu­neytisins liggur fyrir.

Við aðilaskipti að greiðslumarki á markaði í apríl og september skal seljandi endurgreiða bein­greiðslur út á greiðslumark vegna yfirstandandi verðlagsárs sem svara til þess magns sem selt er. Skal fjárhæð þessara greiðslna dregin frá söluverði við frágang viðskipta og ráðstafa til endur­úthlutunar sem beingreiðslum.

Heimilt er að birta yfirlit yfir viðskipti með greiðslumark og verð á því. Upplýsingar sem þannig eru birtar skal ekki vera hægt að rekja til einstakra aðila.