Gripagreiðslur

Í reglugerð um stuðning í nautgriparækt nr. 348/2022 er kveðið á um gripagreiðslur. Hlutdeild hvers framleiðanda í heildarframlagi til gripagreiðslna á hverju verðlagsári fer eftir fjölda árskúa samkvæmt afurðaskýrsluhaldi hans. Við ákvörðun á fjölda árskúa skal fyrsta við­mið­unar­tímabilið vera 1. desember 2016 til 30. nóvember 2017. Síðan skal fjöldi árskúa sóttur mán­aðar­lega úr afurðaskýrsluhaldi og breytingar á gripagreiðslum taka gildi tveimur mánuðum eftir það.

Heildargripagreiðslur verða eins og sýnt er í töflu hér að neðan, og skiptast þær í tvo flokka, mjólkur­kýr og holdakýr. Útreikningur á fjölda mjólkurkúa byggir á gögnum úr lögbundnu skýrslu­haldi (HUPPU) þar sem stofn skal vera íslenskur og framleiðsluform mjólkurframleiðsla eða kjöt­framleiðsla. Ef stofn er af holdanautakyni og framleiðsluform er mjólkurframleiðsla reiknast árskúa­fjöldi þeirra gripa sem mjólkurkýr. Við útreikning á fjölda holdakúa er miðað við að stofn sé af holda­nautakyni og framleiðsluform kjötframleiðsla. Árlega verður greiðslum sem til ráðstöfunar eru í hvorum flokki deilt á allar árskýr í viðkomandi flokki. Gripagreiðslur skerðast ef fjöldi mjólkurkúa framleið­anda eða framleiðenda á lögbýli sem eru í eigu einstakra aðila, einstaklinga, lögaðila eða tengdra aðila, er yfir þeim mörkum sem að neðan greinir, skv. eftirfarandi töflu:

Mjólkurkýr (árskýr) Hlutfall af óskertri greiðslu
1 - 50 100%
51 - 100 75%
101 - 140 50%
141 - 180 25%
> 180 0%

Gripagreiðslur skerðast ef fjöldi holdakúa framleiðanda eða framleiðenda á lögbýli sem eru í eigu einstakra aðila, einstaklinga, lögaðila eða tengdra aðila, er yfir þeim mörkum sem að neðan greinir, skv. eftirfarandi töflu:

Holdakýr (árskýr) Hlutfall af óskertri greiðslu
1 - 200 100%
201 - 220 75%
221 - 240 50%
241 - 260 25%
> 260 0%

Ef heildarfjöldi árskúa á landinu er annar en sú viðmiðun sem stuðst var við í samningi skv. 1. gr., þ.e. 25.000 mjólkurkýr og 3.000 holdakýr, breytist greiðsla ríkissjóðs á hverja árskú til samræmis.

Upphæðir gripagreiðslna
Á árinu 2024 munu gripagreiðslur vegna mjólkurkúa nema 1.853 millj. kr. eða 74.122 kr. á árskú miðað við 25.000 árskýr. Gripagreiðslur vegna holdakúa verða 327 millj. kr. eða 109.003 kr. á árskú miðað við 3.000 árskýr.

Handhafar greiðslna
Greiðslur samkvæmt reglugerð þessari fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. eru skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlis með lögheimili á Íslandi og
  2. stunda nautgriparækt og reka nautgripabú á lögbýlinu með virkt virðisaukaskattsnúmer og starfsemi þeirra fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40.

Hjón og einstaklingar í óvígðri sambúð, samkvæmt skráningu í þjóðskrá, sem standa saman að búrekstri geta óskað eftir því við Matvælastofnun að greiðslum samkvæmt reglugerð þessari sé skipt jafnt á milli aðila. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna.

Skilyrði fyrir greiðslum eru:

 a) þátttaka í afurðaskýrsluhaldi með fullnægjandi skilum í samræmi við 4. gr. og
 b) fullnægjandi skil á haustskýrslu í Bústofn skv. 10. gr. laga nr. 38/2013 um búfjárhald.

 

Sjá nánar:

Reglugerð um stuðning í nautgriparækt nr. 348/2022