Fræðsla

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur boðið sauðfjárbændum upp á nokkra fræðslumöguleika síðastliðin ár.

Sauðfjárskólinn var verkefni sem nokkur búnaðarsambönd á Norður- og Austurlandi höfðu verið með í boði áður en RML var stofnað. Fljótlega eftir stofnun RML var ákveðið að halda áfram með þetta verkefni og bjóða sauðfjárbændum um allt land að taka þátt í Sauðfjárskólanum. Síðan hafa um 190 sauðfjárbú tekið þátt í Sauðfjárskólanum á svæðinu frá Austur-Skaftafellssýslu til Eyjafjarðar. Sauðfjárskólinn hefur verið þannig uppbyggður að haldnir eru 7 fræðslufundir sem dreifast á u.þ.b. eitt ár. Á fundunum hefur verið reynt að fara í gegnum sem flesta þætti sem miklu máli skipta við rekstur sauðfjárbús, s.s. jarðrækt, fóðrun, skýrsluhald, kynbætur, húsakost, sjúkdóma o.fl. Starfsmenn RML hafa að mestu séð um þessa fræðslu en dýralæknir hefur þó verið fenginn á einn fundinn. Þar sem búið er að starfrækja Sauðfjárskólann í nær öllum sýslum landsins er hann ekki í gangi sem stendur. Til að fara af stað með þessa fundaröð þurfa búin sem taka þátt á hverjum fundarstað að vera a.m.k. fimmtán. Árið 2015-2016 kostaði Sauðfjárskólinn 70.000 krónur á bú. Þátttakendur geta sótt um námsstyrk í Starfsmenntasjóð bænda.

Dagsnámsskeið – Haustið. Hér er um að ræða um 7 klst námskeið þar sem farið er í gegnum ýmsa þætti hauststarfana með sérstakri áherslu meðferð lamba og þá ekki síst líflambaval. Hluti kennslurnar fer fram í fjárhúsi þar sem þátttakendur fá leiðsögn í að meta byggingu og holdafar lifandi lamba. Haustið 2016 voru haldin tvö námsskeið, á Tjörnesi og að Stóra-Ármóti. Þetta námskeið kostaði 18.000 krónur haustið 2016. Lágmarksfjöldi þátttakenda eru fimmtán.

Fundir fjárræktarfélaga. Löng hefð er fyrir því að ráðunautar komi á fundi hjá fjárræktarfélögum og flytji þar fræðsluerindi sem tengjast sauðfjárræktinni. Fjárræktarfélögin geta beðið um slík fræðsluerindi á sínum fundum gegn hóflegu gjaldi.