Aðstoð við að kortleggja möguleg rannsóknasvæði

Í janúar síðastliðnum hlaut rannsóknarverkefnið ExGraze - Áhrif langtíma beitarfriðunar á kolefnisupptöku og kolefni í graslendisjarðvegi styrk úr Rannsóknarsjóði til þriggja ára. Verkefnastjóri er Anna Guðrún Þórhallsdóttir Háskólanum á Hólum en samstarfsmenn eru m.a. Rene van der Wal prófessor frá Landbúnaðarháskólanum í Svíþjóð, Richard Bardgett prófessor frá Háskólanum í Manchester og Áslaug Geirsdóttir prófessor við Háskóla Íslands auk annarra innlendra aðila.

Í verkefninu er ætlunin að mæla og bera saman kolefnisbúskap – þ.e. upptöku og uppsöfnun kolefnis í jarðvegi á beittu og óbeittu/friðuðu landi á 40 stöðum víða um land. Óbeitt, þ.e. afgirt friðuð hólf, er víða að finna um landið og fjöldi slíkra svæða henta vel í rannsóknina. Mörg þessara hólfa voru girt af frá beitilandi á sínum tíma til að þessi planta þar trjágróðri og á mörgum stöðum hefur beitin haldist utan girðingarinnar. Annarsstaðar hafa girðingar verið settar upp til að friða fyrir beit af öðrum ástæðum en svæðið umhverfis áfram með beit. Við höfum sérstakan áhuga á fá upplýsingar um öll hólf sem hafa þekkta friðunarsögu – þ.e. vitað um tímalengd friðunar og að hólfin hafi verið friðuð allan þann tíma en beitin haldist utan girðingarinnar. Heimamenn þekkja sitt land og er því leitað til bænda og landeigenda sem vita um slík svæði að senda okkur upplýsingar

Rannsóknaraðilar eru í samstarfi við RML um öflun þessara upplýsinga og hægt er að nálgast eyðublað til útfyllingar hér á heimasíðunni þar sem upplýsingum er komið á framfæri. Einnig má hafa samband við ráðgjafa RML beint og koma upplýsingum á framfæri. Upplýsingum verður safnað saman í gagnagrunn og völd svæði heimsótt og skoðuð í sumar. Á næsta sumri hefjast síðan mælingar á þeim svæðum sem verða valin.

Við þurfum að fá upplýsingar um staðsetningu girðinganna, bæjarheiti og sveitarfélag/póstnúmer ásamt tengiliði. Þá þurfa að koma fram upplýsingar um aldur girðinganna – hvenær þær voru settar upp og, ef plantað hefur verið - hvort trjám hafi verið plantað í alla girðinguna eða hluti hennar einungis friðaður. Þar sem við erum að sækjast eftir samanburði sitt hvoru megin girðingar þá þarf að vera beit utan girðingarinnar og æskilegt að fá upplýsingar um hvort mismunandi beitt hólf (meiri beit eða minni) liggi að friðaða hólfinu. Þá væri gott að láta fylgja nálægð við veg og/eða aðgengi að rannsóknasvæðunum.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins tekur við ábendingum um möguleg rannsóknasvæði. Þá má einnig senda póst á annagudrun@holar.is með sömu upplýsingum.

Upplýsingar sem óskað er eftir að fylgi með ábendingu:

Bæjarheiti og póstnúmer:
Tengiliður:
Aldur girðingar/friðunar:
Áætluð stærð girðingar:
Áætlaður hluti án trjáplantna:
Fjöldi mismunandi beittra hólfa sem liggja að friðaðri girðingu:
Aðgengi – fjarlægð frá vegi:

Sjá nánar: 
Kortlagning beitarfriðunarsvæða

/okg