Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum janúar

Úlfar frá Hnúki í Vatnsdal, sonur Jarfa 16016 og Úllu 601.
Úlfar frá Hnúki í Vatnsdal, sonur Jarfa 16016 og Úllu 601.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir hinn fyrsta mánuð nýhafins árs, janúar, hafa nú verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggjast á skilum eins og þau voru um hádegið þann 13. febrúar.

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 471 búi en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 127 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.281,2 árskúa á fyrrnefndum 471 búi var 6.346 kg. eða 6.385 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 51,6.

Mest meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuðina var á búi Laufeyjar og Þrastar á Stakkhamri 2 á Snæfellsnesi þar sem árskýrin skilaði að meðaltali 8.954 kg. Næstmest var meðalnytin á búi Dalbæjar 1 ehf. í Dalbæ 1 í Hrunamannahreppi en þar reiknaðist meðalnyt árskúnna 8.666 kg. á umræddu tímabili. Þriðja í röðinni var bú Göngustaða ehf. á Göngustöðum í Svarfaðardal þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.653 kg. á tímabilinu. Fjórða að þessu sinni var bú Gísla og Jónínu á Stóru-Reykjum í Flóa þar sem hver árskýr mjólkaði að meðaltali 8.477 kg. á síðustu 12 mánuðum. Í fimmta sæti var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem meðalnyt árskúa reyndist 8.464 kg.

Nythæsta kýrin síðustu 12 mánuði var Fata 2106 (f. Sjarmi 12090) í Skáldabúðum 2 í hinum forna Gnúpverjahreppi sem skilaði 15.653 kg. á síðustu 12 mánuðum. Næst henni kom kýr nr. 1112 (f. Roði 11051) í Hrepphólum í Hrunamannahreppi sem mjólkaði 14.622 kg. á umræddu tímabili. Þriðja kýrin að þessu sinni var Snotra 273 (f. Sigurfari 08041) í Ytri-Villingadal í Eyjafirði með 13.833 kg. nyt síðustu 12 mánuðina. Fjórða í röðinni nú var kýr nr. 614 (f. nr. 359, sonur Flóa 02029) á Núpi á Berufjarðarströnd sem mjólkaði 13.831 kg. Fimmta var Lúsý 555 (f. Gustur 09003) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð sem mjólkaði á tímabilinu 13.798 kg.

Alls náðu 147 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir janúar hafði verið skilað frá um hádegi hinn 13. febrúar, að mjólka 11.000 kg. eða meira á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 33 nyt yfir 12.000 kg. Tíu kýr af þeim hópi mjólkuðu meira en 13.000 kg. á tímabilinu og tvær þeirra skiluðu nyt yfir 14.000 kg. og önnur þeirra, sú sem mjólkaði mest skilaði talsvert á 16. þúsund kg. eins og fram hefur komið.

Meðalfjöldi kúa á hreinu kjötframleiðslubúunum reiknaðist 25,8 en árskýrnar þar voru að jafnaði 26,5 nú við lok janúar. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum sl. 12 mánuði reyndist 6.943,3 kg.

Meðalfallþungi 10.190 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 251,4 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 745,6 dagar.

 

Sjá nánar:

https://www.rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2023