Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn marsmánuð

Drungi frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð, undan kú 1065 og Mikka 15043. Mynd frá Nautastöð BÍ.
Drungi frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð, undan kú 1065 og Mikka 15043. Mynd frá Nautastöð BÍ.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar við lok marsmánaðar, hafa nú verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggjast að hluta á skilum eins og þau voru nokkru fyrir hádegi þann 11. apríl en hvað varðar mjólkurframleiðsluhlutann, þá hafa þær verið uppfærðar og sá hluti miðaður við stöðuna eftir hádegi þann 12. apríl.
Þegar niðurstöðurnar voru endurreiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 465 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 125 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.342,8 árskúa á fyrrnefndum búum var 6.344 kg. eða 6.366 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 52,4.

Mest meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuðina var á búi Laufeyjar og Þrastar á Stakkhamri 2 á Snæfellsnesi þar sem árskýrin skilaði að meðaltali 8.953 kg. Næstmest varð meðalnytin á Merkurbúinu í Stóru-Mörk 1 undir Eyjafjöllum en þar mjólkaði árskýrin að meðaltali 8.738 kg. Þriðja í röðinni reyndist bú Göngustaða ehf. á Göngustöðum í Svarfaðardal þar sem meðalárskýrin skilaði 8.611 kg. á tímabilinu. Fjórða nú að þessu sinni var bú Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi en þar reyndist meðalnyt árskúnna 8.484 kg. Fimmta var bú Gísla og Jónínu á Stóru-Reykjum í Flóa þar sem hver árskýr mjólkaði að jafnaði 8.384 kg. á umræddu tímabili.

Nythæst á síðustu 12 mánuðum var kýr nr. 1112 (f. Roði 11051) í Hrepphólum í Hrunamannahreppi sem mjólkaði 14.363 kg. Önnur í röðinni var Fata 2106 (f. Sjarmi 12090) í Skáldabúðum 2 í hinum forna Gnúpverjahreppi sem skilaði 14.170 kg. á síðustu 12 mánuðum. Næst henni kom Helga 291 (f. Seiður 14040) Skúfsstöðum í Hjaltadal í Skagafirði sem mjólkaði 13.533 kg. á umræddu tímabili. Fjórða kýrin í röðinni nú var Hera 543 (f. Dropi 10077) á Þorleifsstöðum í Blönduhlíð í Skagafirði en nyt hennar á 12 mánaða tímabilinu reyndist 13.515 kg. Í fimmta sæti var kýr nr. 790 (f. Voði 14086) í Eystri-Leirárgörðum sem mjólkaði 13.343 kg. á tímanum sem um ræðir.

Alls náðu 127 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir mars hafði verið skilað frá uppúr hádegi hinn 12. apríl, að mjólka 11.000 kg. eða meira á síðustu 12 mánuðum. Af þeim hópi skiluðu 31 nyt yfir 12.000 kg. Þar af mjólkuðu átta kýr meira en 13.000 kg. á umræddum 12 mánuðum og tvær þeirra skiluðu nyt yfir 14.000 kg. eins og fram hefur komið.

Meðalfjöldi kúa á hreinu kjötframleiðslubúunum reiknaðist 25,8 en árskýrnar þar voru að jafnaði 26,6 nú í endaðan mars. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum sl. 12 mánuði reyndist 6.849,4 kg.

Meðalfallþungi 9.866 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 251,4 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 745,9 dagar.

 

Sjá nánar:

rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2023