Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í febrúar

Blær frá Steinnýjarstöðum í Skagabyggð, f. Sjarmi 12090, m. Gola 612
Blær frá Steinnýjarstöðum í Skagabyggð, f. Sjarmi 12090, m. Gola 612

 

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum febrúar hafa verið birtar á vef okkar. Rétt er að geta þess að niðurstöðurnar í skýrsluhaldi mjólkurframleiðenda byggjast á skilum mjólkurskýrslna og annarra skráninga eins og staðan á þeim var skömmu fyrir hádegi þ. 11. mars 2020.

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 517 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 108 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.748,7 árskúa á þessum 517 búum var 6.413 kg eða 6.673 kg OLM (orkuleiðrétt mjólk) á síðustu 12 mánuðum. Meðalfjöldi árskúa á búunum 523 var 47,9.

Meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði var mest á Hurðarbaksbúinu ehf. á Hurðarbaki í Flóa, þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.979 kg. Annað í röðinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit og þar var meðalnyt árskúnna 8.521 kg. Þriðja búið í röðinni var bú Ólafar og Valgeirs í Hvammi á Barðaströnd þar sem meðalárskýrin skilaði 8.430 kg. mjólkur. Fjórða var bú Friðriks Þórarinssonar á Grund í Svarfaðardal þar sem meðalnyt árskúa reiknaðist 8.363 kg. Fimmta búið að þessu sinni var bú Eggerts, Jónu, Páls og Kristínar á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð þar sem meðalárskýrin skilaði 8.351 kg. síðustu 12 mánuði. Meðalnytin eftir árskú á Hvanneyrarbúinu var síðan 8.346 kg. og var það því hið sjötta í röðinni nú.

Nythæsta kýrin sl. 12 mánuði var Svana 753 (f. Gráni 608, dóttursonur Ófeigs 02016 og sonarsonur Lóa 01008) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð en nyt hennar reyndist 13.607 kg. á tímabilinu. Önnur í röðinni var Aría 895 (f. 767 afkomandi Teins 97001, Ófeigs 02016 og Lóa 01008) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð sem mjólkaði 13.606 kg. Þriðja nythæsta kýrin við lok febrúar var Mía 536 (f. Ýmir 13051) á Búrfelli í Svarfaðardal en hún skilaði 13.466 kg mjólkur síðustu 12 mánuði. Fjórða kýrin var Píla 1288 (f. Afli 11010) í Garði í Eyjafjarðarsveit, sem skilaði undanfarna 12 mánuði 13.350 kg. mjólkur. Fimmta í röðinni að þessu sinni var Muska 589 (f. Klettur 08030) á Grund í Svarfaðardal sem mjólkaði 13.185 kg. síðustu 12 mánuði.  

Alls náðu 128 kýr á búunum 517, sem afurðaskýrslum fyrir febrúar hafði verið skilað frá undir hádegi þ. 11. mars að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 22 nyt yfir 12.000 kg. á tímabilinu og af þeim mjólkuðu sjö meira en 13.000 kg.

Meðalfjöldi kúa á kjötframleiðslubúunum reiknaðist 21,7 en árskýrnar reiknuðust að jafnaði 18,9. Meðalkjötframleiðsla á þeim búum sl. 12 mánuði reyndist 5.164,3 kg. Meðalfallþungi 9.437 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, skráðra í slátrun frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 243,5 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra við slátrun var 743,2 dagar.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk