Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í júlí 2015

Niðurstöðurnar úr skýrslum nautgriparæktarinnar fyrir júlí sl. eru nú orðnar aðgengilegar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður sem nú birtast urðu til laust fyrir hádegi þann 11. ágúst var búið að skila skýrslum fyrir júlí frá 91% þeirra 578 búa sem nú eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu. Reiknuð meðalnyt 22.979,0 árskúa á fyrrnefndum 91% búanna, var 5.761 kg (5.737 kg í júní) sl. 12 mánuði. Meðalfjöldi árskúa á þessum búum við uppgjörið nú var 43,7. Enn er rétt að ítreka að þær niðurstöður sem nú birtast koma frá 91% skýrsluhaldara og hafa ber það í huga við skoðun þeirra.

Áður en lengra er haldið verður að geta þess að vegna sumarleyfa hefur skráning þeirra skýrslna sem sendar eru RML til skráningar tafist að einhverju leyti þannig að verið getur að einhver þeirra búa sem venjulega hafa birst á uppgjörslistanum séu ekki hér með. Það bendir aðeins á tafirnar en hefur ekkert með afurðir á viðkomandi búum að gera. Biðjumst við velvirðingar á því. 

Mest meðalnyt á síðustu 12 mánuðum á þeim búum sem skýrslur höfðu borist frá við uppgjörið nú var á búi Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, sama búinu og stóð efst fyrir mánuði, en þar var nú meðalnyt árskúnna að þessu sinni 7.916 kg. Annað búið núna, líkt og seinast var bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal þar sem nytin var 7.758 kg eftir hverja árskú. Þriðja í röðinni nú var bú Kristjáns Hans Sigurðssonar í Lyngbrekku á Fellsströnd í Dölum þar sem meðalnytin reyndist 7.676 kg. Í fjórða sæti að þessu sinni var Félagsbúið í Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum en meðalnyt árskúnna þar á tímabilinu var 7.651 kg. Fimmta búið í röðinni var bú Arnars Bjarna og Berglindar í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en það bú var í fjórða sæti við seinasta uppgjör. Meðalnytin í Gunnbjarnarholti reiknaðist 7.611 kg eftir árskú.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Ausa nr. 306 (f. Þverteinn 97032) í Garðakoti í Hjaltadal í Skagafirði en hún mjólkaði 12.456 seinustu 12 mánuði. Hún var í öðru sæti fyrir mánuði. Næst í röðinni var Urður nr. 1229 (f. Laski 00010) á Hvanneyri í Borgarfirði en hún skilaði 11.940 kg á tímabilinu. Þriðja kýrin nú var Aþena 624 (f. Aðall 02039) í Laxárholti 2 á Mýrum en hún skilaði 11.855 kg seinustu 12 mánuðina. Fjórða nythæsta kýrin við lok júlí reyndist Króna 131 (f. 198 undan Stíg 97010) í Ásgarði í Reykholtsdal í Borgarfirði en hún mjólkaði 11.813 kg. Króna stóð efst á listanum fyrir mánuði. Fimmta kýrin í röðinni nú var Varða 420 (f. Glæðir 02001) á Skúfsstöðum í Hjaltadal í Skagafirði og mjólkaði hún 11.788 kg síðustu 12 mánuði.

Alls náðu  24 kýr á þeim búum, sem afurðaskýrslum fyrir júlí hafði verið skilað frá undir hádegi 11. ágúst að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Við seinasta uppgjör náðu 17 kýr þessu marki. Ein fyrnefndra 24 kúa náði að skila meiri mjólk en 12.000 kg, sbr. hér á undan.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk