Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í júní 2014

Niðurstöðurnar úr skýrslum nautgriparæktarinnar í júní 2014 hafa nú verið birtar á vef okkar. Þegar niðurstöðurnar sem nú birtast urðu til á miðnætti aðfaranótt 11. júlí var búið að skila skýrslum fyrir síðastliðinn mánuð frá 87% þeirra búa sem nú eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu. Reiknuð meðalnyt 21.112 árskúa á búunum, sem skýrslurnar höfðu borist frá, síðastliðna 12 mánuði var 5.702 kg en var 5.707 kg mánuðinn á undan. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum búum sem skýrslum hafði verið skilað frá á miðnætti aðfaranótt 11. júlí var 39,8 og hafði hækkað um 0,5 frá uppgjöri maímánaðar.

Mest meðalnyt á síðustu 12 mánuðum var á búi bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal en þar var reiknuð meðalnyt 7.953 kg eftir árskú. Þetta bú var í öðru sæti í síðasta mánuði. Annað í röðinni nú var bú Sigurðar og Báru í Lyngbrekku á Fellsströnd. Nytin þar var nú 7.935 kg eftir árskú. Lyngbrekkubúið sat efst við síðasta uppgjör. Þriðja búið að þessu sinni var Hriflubú sf. í Hriflu í Þingeyjarsveit (áður í Ljósavatnshreppi), en þar var reiknuð meðalnyt núna 7.794 kg á árskú. Fjórða búið nú var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði en þar reiknaðist nytin 7.707 kg á árskú. Fyrir mánuði voru þessi bú í sömu sætum á listanum en nú höfðu orðið sætaskipti. Fimmta búið í röðinni í þetta sinn var bú Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd. Meðalnytin á því búi var 7.611 kg eftir árskú. Á 30 búum reiknaðist meðalnytin nú 7.000 kg eða meiri en þau voru 29 við síðasta uppgjör.

Nythæsta kýrin á seinustu 12 mánuðum var Gola 970 (f. Hjarði 06029) á Gili í Skagafirði og mjólkaði hún 12.048 kg á tímabilinu. Hún var sú fjórða á þessum lista fyrir mánuði. Önnur í röðinni nú var Dimmalimm nr. 379 (f. Kistill 00017) í Garðakoti í Hjaltadal í Skagafirði en hún mjólkaði 11.569 kg. Hún var í fyrsta sæti á listanum fyrir mánuði. Kýrin sem reiknaðist þriðja í röðinni við lok júní var Bomba nr. 157 (f. nr. 94 undan Fonti 98027) á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Nyt hennar var í þetta sinn 11.536 kg og var hún fimmta í röðinni við lok maí. Í fjórða sæti að þessu sinni var Huppa nr. 1123 (f. Kappi 01031) á Stóra-Ármóti í Flóa og mjólkaði hún 11.341 kg síðustu 12 mánuðina. Huppa var þriðja í röðinni við seinasta uppgjör. Fimmta kýrin við lok júní var Ausa nr. 306 (f. Þverteinn 97032) í Garðakoti í Hjaltadal og skilaði hún 11.119 kg á tímabilinu. Alls náðu 7 kýr á þeim búum, sem afurðaskýrslum hafði verið skilað frá á miðnætti síðastliðna nótt, að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni

/sk