Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í nýliðnum október

Lottó frá Stóra-Dunhaga í Hörgársveit, undan Stera 13057 og Lukku 628.
Lottó frá Stóra-Dunhaga í Hörgársveit, undan Stera 13057 og Lukku 628.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum október hafa verið birtar á vef okkar. Rétt er að geta þess að niðurstöðurnar í skýrsluhaldi mjólkurframleiðenda byggjast á skilum mjólkurskýrslna og annarra skráninga eins og staðan á þeim var nálægt hádegi þ. 11. nóvember 2019.

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 531 búi en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 108 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 25.560,7 árskúa á þessum 531 búi var 6.297 kg eða 6.546 kg OLM (orkuleiðrétt mjólk) á síðustu 12 mánuðum. Meðalfjöldi árskúa á búunum 531 var 48,1.

Meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuði var mest hjá Hurðarbaksbúinu ehf. á Hurðarbaki í Flóa, þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.434 kg. Annað í röðinni var bú Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal, þar sem hver árskýr skilaði nú að jafnaði 8.380 kg. Í þriðja sæti nú var bú Eggerts, Jónu, Páls og Kristínar á Kirkjulæk í Fljótshlíð þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.353 kg. Fjórða var bú Ólafar og Valgeirs í Hvammi á Barðaströnd og meðalnyt árskúnna þar reiknaðist 8.290 kg. síðustu 12 mánuði. Í fimmta sæti var að þessu sinni bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsveit þar sem nyt árskúnna reiknaðist að jafnaði 8.235 kg.  

Nythæsta kýrin sl. 12 mánuði var var Svana 753 (f. Gráni 608, dóttursonur Ófeigs 02016 og sonarsonur Lóa 01008) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð en hún mjólkaði 14.152 kg. á tímabilinu. Önnur í röðinni var Rækja (f. Kóngur 11059), einnig í Flatey á Mýrum, en nyt hennar var 13.727 kg. síðustu 12 mánuðina. Þriðja nythæsta kýrin reyndist vera Embla 509 (f. Kambur 06022) í Skollagróf í Hrunamannahreppi, sem mjólkaði 13.668 kg.

Alls náðu 130 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir októbermánuð hafði verið skilað frá nærri hádegi þ. 11. nóvember að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 35 yfir 12.000 kg. nyt á tímabilinu og 11 af þeim mjólkuðu meira en 13.000 kg.

Meðalfjöldi kúa á kjötframleiðslubúunum reiknaðist 22,3 en árskýrnar reiknuðust að jafnaði 17,5. Meðalkjötframleiðsla á þeim búum sl. 12 mánuði reyndist 5.072,3 kg. Meðalfallþungi allra ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, skráðra í slátrun frá öllum búum undanfarna 12 mánuði var 242,5 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra við slátrun var 742,1 dagur.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk