Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í október 2014

Fyrsti kálfur á Íslandi tilkominn með djúpfr. sæði
Fyrsti kálfur á Íslandi tilkominn með djúpfr. sæði

Niðurstöðurnar úr skýrslum nautgriparæktarinnar fyrir októbermánuð eru orðnar aðgengilegar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður sem nú birtast urðu til á miðnætti aðfaranótt 11. nóvember var búið að skila skýrslum fyrir síðastliðinn mánuð frá 92% þeirra 577 búa sem nú eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu. Reiknuð meðalnyt 21.811,4 árskúa á fyrrnefndum búum, síðastliðna 12 mánuði, var 5.763 kg en var 5.743 kg við lok mánaðarins á undan. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum búum var 41,2 og hafði þeim fjölgað um 0,4 frá næstliðnu uppgjöri.

Rétt er að ítreka það sem fram kom að þær niðurstöður sem birtar eru nú koma frá 92% skýrsluhaldara og gott að hafa þann fyrirvara í huga þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar.

Mest meðalnyt á síðustu 12 mánuðum, líkt og við síðasta uppgjör var á búi Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal. Þar var meðalnytin nú 7.935 kg á árskú. Næsta bú í röðinni að þessu sinni var hið sama og seinast, bú Sigurðar og Báru í Lyngbrekku á Fellsströnd, en þar var reiknuð meðalnyt eftir október 7.793 kg eftir árskú. Þriðja búið nú og einnig fyrir mánuði, var bú Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd með reiknaða meðalnyt 7.740 kg á árskú. Í fjórða sæti nú í október, líkt og síðast, var Félagsbúið á Espihóli í Eyjafjarðarsveit en þar var meðalnytin 7.698 kg á árskú. Fimmta búið í röðinni núna var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal. Meðalnytin þar reyndist 7.651 kg eftir árskú. Á 34 búum reiknaðist meðalnytin nú 7.000 kg eða meiri en þau voru 38 við uppgjörið á undan.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var Flóra 1294 (f. Náttfari 00035) í Flatey á Mýrum í Hornafirði en nyt hennar reyndist 13.171 kg. Hún var í öðru sæti fyrir mánuði. Önnur á listanum yfir afurðahæstu kýrnar að þessu sinni var Bomba 157 (f. Indriði nr. 94 undan Fonti 98027) á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði en hún skilaði 12.954 kg á tímabilinu. Sú kýr var hin þriðja í röðinni við lok september. Þriðja kýrin nú var Agla 361 (f. Þrasi 98052) í Viðvík í Skagafirði en hún mjólkaði 12.851 kg sl. 12 mánuði og sat efst á listanum við seinasta uppgjör. Fjórða kýrin nú var Huppa 352 í Kálfagerði í Eyjafirði og mjólkaði hún 12.296 kg á tímabilinu. Kýrin sem var í fimmta sæti eftir uppgjör október var Gína 1049 (f. Sveppur 98035) í Þverholtum á Mýrum vestra. Nyt hennar var 12.140 kg og fyllti hún fjórða sætið fyrir mánuði. 

Alls náðu 25 kýr á þeim búum, sem afurðaskýrslum hafði verið skilað frá á miðnætti aðfaranótt 11. nóvember að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum en fyrir mánuði voru þær 21. Af þessum hópi mjólkuðu 6 yfir 12.000 kg og af þeim hópi náði sú efsta að lyfta sér vel yfir 13.000 kg.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk