Spurt og svarað um DNA-sýnatöku

Hvernig merki nota ég til að taka sýni?
Til þess að taka sýni þarf að kaupa merki með áföstu sýnatökuglasi. Hér á landi standa til boða tvær tegundir merkja, annars vegar frá OS í Noregi, umboðsaðili Plastiðjan Bjarg-Iðjulundur á Akureyri, og hins vegar frá AgroTag í Danmörku.

Sýnatökumerkin frá OS eru svokölluð TST-merki.
Sýnatökumerkin frá AgroTag heita MultiFlex Ddna og fást líka með örmerkjum (HDX).

Hvar panta ég merkin?

Allar merkjapantanir verða að fara fram á bufe.is í samræmi við ákvæði reglugerðar um merkingar búfjár.

Hvernig númera ég kvígurnar?

Þegar pöntuð eru eyrnamerki þarf að skipta pöntuninni þannig að hluti merkjanna sé til sýnatöku og hinn hlutinn hefðbundin eyrnamerki. Þessu er best lýst með dæmi. Segjum að panta eigi 100 merki og næsta númer sé 801. Þá má t.d. byrja á að panta 50 stk. af hefðbundnum merkjum til notkunar í nautkálfa sem verða þá númer 801-850. Síðan eru pöntuð 50 stk. af merkjum til sýnatöku sem verða þá númer 851-900 og notast í kvígur. Auðvitað má snúa þessu á hinn veginn og hafa kvígurnar með lægri númerunum og á sama hátt má panta þann fjölda sem hentar í hvert skipti.

Af hverju get ég ekki haft tvær númeraraðir?

Þetta er góð spurning sem margir hafa velt fyrir sér. Sumir myndu vilja hafa sitt hvora númeraröðina, aðra í naut og hina í kvígur. Ástæðan fyrir því að þetta er ekki hægt er sú að bufe.is er ekki gert til þess að ráða við slíkt. Unnið er að lausn á þessu en ekki er hægt að segja nákvæmlega hvenær slíkt verður hægt. Þangað til verðum við að nota þá lausn að panta á víxl hefðbundin merki og merki til sýnatöku.

Þarf sérstaka töng fyrir einstaklingsmerki til sýnatöku?

Já, fyrir merkin frá OS er sérstök töng fyrir TST-merki. Fyrir merki frá AgroTag er ein og sama töng fyrir öll merki frá þeim.
Það er ekki hægt að nota töng frá AgroTag fyrir merki frá OS og öfugt.

Hvernig tek ég sýni?

Sýnataka fer fram um leið og einstaklingsmerki eru sett í.

Leiðbeiningamyndband - ísetning merkja til DNA-sýnatöku 

Leiðbeiningar um sýnatöku með merkjum frá AgroTag í Danmörku 

Leiðbeiningar um sýnatöku með merkjum frá OS í Noregi 

Hvað geri ég við sýnin – á ég að senda þau eitthvert?

Nei, strax að lokinni töku sýna eru þau sett í box sem best er að staðsetja í mjólkurhúsinu. Þetta box á hver og einn kúabóndi að hafa fengið sent. Sjá nánar í leiðbeiningum og myndbandi.
Sýnunum er svo safnað með mjólkurbílunum og komið áfram til greiningar.

Hvernig á að geyma sýnin?

Sýnin á ekki að geyma til lengri tíma. Setjið þau strax í sýnaboxið í mjólkurhúsinu þar sem mjólkurbíllinn safnar þeim í næstu ferð. Sýnin eru ekki viðkvæm en liggi þau lengi í t.d. sólarljósi geta þau skemmst og orðið ónothæf til greiningar.

Þarf að skrá sýnatökuna og þá hvar?

Nei, það þarf ekki að skrá sýnatökuna. Númer sýnanna eru einstaklingsnúmer gripanna þannig að það þarf ekki að tengja saman sýna- og einstaklingsnúmer sérstaklega.

Sýnataka mistókst eða sýnið týndist/tapaðist – hvað geri ég?

Ef sýni mistekst eða sýnið misferst eru í meginatriðum tvær leiðir í boði:

a. Klippa merkið úr og endurnúmera kvíguna með öðru númeri.
b. Endurpanta merki með sýnatökuglasi og sama númeri og endurtaka sýnatökuna.

Það er enginn vökvi í glasinu – hvað geri ég?

Ef svo ólíklega vill til að það sé enginn vökvi í glasinu á ekki að nota viðkomandi merki. Vökvinn er til þess að verja sýnin fyrir rotnun en ef þau rotna næst ekki að greina þau. Enginn vökvi þýðir ónothæft merki.

Skiptir máli úr hvoru eyranu sýnið er tekið?

Nei, það skiptir ekki máli en ef um er að ræða merki með örmerki, sem t.d. fóður – og mjaltabúnaður getur lesið, er ávallt miðað við að þannig merki fari í vinstra eyra.

Af hverju eru einungis tekin sýni úr kvígukálfum?

Vegna smæðar íslenska kúastofnsins er fjöldi afkvæmaprófaðra nauta takmarkaður. Það þýðir að til þess að ná nægum fjölda arfgerðargreindra gripa til þess að ná ásættanlegu öryggi verðum við að nota arfgerðargreingar á kúm/kvígum. Þess vegna er farin sú leið að taka sýni úr kvígum.

Sýni verða tekin úr völdum nautkálfum sem koma til greina á nautastöð vegna kostnaðar við hverja arfgerðargreiningu.

Á ég að taka úr sýni öllum kvígukálfum?

Já, það er ætlast til þess að tekin séu sýni úr öllum kvígukálfum.

Get ég tekið sýni úr eldri gripum sem ekki hefur verið tekið sýni úr?

Já, það verður mögulegt með því að endurpanta merki í þá gripi sem taka á sýni úr og panta þá merki með sýnatökuglasi. Það er einnig hægt að fá RML til þess að taka sýni úr þessum gripum. Ávinningur af sýnatöku úr eldri gripum er hins vegar minni en úr yngri gripum.

Hvað kostar sýnið?

Bændur greiða einungis þann mun sem er á verði hefðbundins eyrnamerkis og eyrnamerkis með sýnatökuglasi. Sá munur er um 600 kr. á grip. Arfgerðargreiningar á kvígum verða kostaðar af sameiginlegum fjármunum en arfgerðargreingar nautkálfa sem ekki er verið að skoða með kaup á nautastöð í huga eru kostaðar af bændum sjalfum. Kostnaður við hvert sýni úr nautkálfi er 7.000 kr. + vsk.

Verða kvíguskoðanir áfram með sama sniði?

Já, kvígur/kýr verða áfram skoðaðar með sama hætti. Þær upplýsingar sem þannig safnast eru þá í raun staðfesting á því að erfðamatið sé rétt auk þess sem arfgerðir taka breytingum með hverri kynslóð. Eiginleikar og arfgerðir þurfa því að vera í stöðugri endurskoðun.

Hvaða niðurstöður gefa sýnin og hver er ávinningurinn?

Ein fyrsta og mikilvægasta niðurstaðan er staðfesting á ætterni. Sýnin eru arfgerðargreind og út frá þeim og öðrum upplýsingum er reiknað erfðamat, það er mat á kynbótagildi gripsins. Það mat liggur því fyrir nánast um leið og niðurstöður greiningarinnar eða mun fyrr en sambærilegt hefðbundið kynbótamat. Ávinningurinn af arfgerðargreiningum liggur í mun hraðari erfðaframförum fyrir stofninn með styttu ættliðabili, staðfestum ætternisupplýsingum og öruggara mati. Þannig verður til dæmis hægt að velja nautsmæður með sama öryggi og reynt naut.

Hver og einn bóndi getur svo t.d. nýtt niðurstöðurnar til vals á gripum. Þannig má til dæmis hugsa sér að allra lökustu kvígunum verði fargað og þær efnilegustu sæddar með nautsfeðrum. Þá má einnig sæða lökustu gripina með holdasæði en hafið í huga að ekki er heimilt að sæða íslenskar kvígur með slíku sæði. Upplýsingar um eiginleika sem stýrast af einföldum erfðum, t.d. arfblendni fyrir horn og jafnvel litaafbrigði, verður vonandi hægt að fá úr sýnunum þegar fram líða stundir.

Er hægt að nota erfðamengisúrval til að auka litafjölbreytni í kúastofninum?

Já, það verður vonandi hægt þegar fram líða stundir. Það verður þó að hafa í huga að eftir því sem við veljum fyrir fleiri eiginleikum dregur úr framförum hvers og eins eiginleika.