Áhugaverðar greinar í Icelandic Agricultural Science

Þrjár fyrstu greinarnar í hefti 30/2017 af alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences voru að koma út. Þessar þrjár mjög áhugaverðu greinar fjalla um ólík efni og hægt er að nálgast þær allar með því að smella á tengil hér neðst í fréttinni. 

Fyrsta greinin nefnist á íslensku „Ástæður bjögunar, erfðaframför og breytingar á erfðafylgni fyrir kjötmat og ómmælingar í íslenska sauðfjárstofninum“ og er eftir Jón Hjalta Jónsson og Ágúst Sigurðsson.

Höfundar könnuðu hvort kynbótamat fyrir kjötmatseiginleika hjá íslensku sauðfé væri bjagað vegna vals á grundvelli dóma á lifandi lömbum. Einnig að athuguðu þeir áhrif úrvals á erfðafylgni fitu og gerðar sláturlamba og erfðaframfarir í stofninum. Erfðastuðlar voru metnir með gögnum fyrir árin 2000-2013 frá Bændasamtökum Íslands aðskilið fyrir mismunandi tímabil. Niðurstöður kynbótamats með tvíbreytugreiningu á kjötmatseiginleikum voru bornar saman við kynbótamat einnig keyrt með ómmælinganiðurstöður. Erfðafylgni var metin 0,41 árin 2001-2003 en 0,29 og 0,26 fyrir 2006-2008 og 2011-2013. Kynbótamat fyrir gerð reyndist bjagað hjá hrútum sem mikið er sett á undan í tvíbreytugreiningunni en engin merki svipfarsvals sáust gagnvart fitunni. Erfðaframfarir voru metnar -0,05 staðalfrávik erfða á ári fyrir fitu og 0,08 staðalfrávik erfða á ári fyrir gerð.

Höfundar komast að þeirri niðurstöðu að fjölbreytu kynbótamat og minnkandi erfðafylgni geti stuðlað að enn meiri ræktunarframförum til framtíðar. Þetta eru því afar áhugaverðar niðurstöður fyrir alla þá sem stunda rannsóknir á kynbótamati sauðfjár og koma niðurstöðum til ræktenda.

Grein númer tvö í ritinu nefnist „Yfirlit um byggkynbætur og yrkjatilraunir á Íslandi 1987-2014“ eftir Hrannar Smára Hilmarsson, Magnus Göransson, Morten Lillemo, Þórdísi Önnu Kristjánsdóttur, Jónatan Hermannsson og Jón Hallsteinn Hallsson.

Höfundar ráðast í það mikla verk að gefa yfirlit yfir kynbætur á byggi og yrkjatilraunir sem gerðar voru hérlendis á 28 ára tímabili, frá 1987 til 2014. Samanburðartilraunir fóru fram á 40 stöðum á landinu á tímabilinu, en tilraunastöðunum fækkaði og arfgerðum í hverri tilraun fjölgaði að jafnaði eftir því sem leið á tímabilið. Þetta er fyrsta samantekt á því mikla tilraunastafi sem unnið hefur verið á þessum 28 árum. Ein athyglisverðasta niðurstaða greinarinnar er að uppskera í íslensku tilraunum jókst á sama tíma og ræktunartímabilið styttist eftir sem leið á rannsóknatímann. Þetta getur bæði stafað af góðum árangri íslenska kynbótastarfsins og breyttum veðurfarsaðstæðum. Þá skiluðu íslensku kynbótalínurnar ekki aðeins meiri uppskeru í tilraunum eftir sem á leið heldur þroskuðust þær einnig fyrr.

Ræktun byggs á jaðri heimskautasvæða eins og Íslandi er á mörkum þess mögulega, sem endurspeglast meðal annars í stuttri ræktunarsögu byggs hérlendis. Mikilvægi byggræktunar hefur aukist undanfarin ár fyrir íslenskan landbúnað, sem meðal annars hefur verið skýrt sem afleiðing prófana á erlendum byggyrkjum og ekki síður kynbóta á íslenskum yrkjum fyrir íslenskar aðstæður, en einnig vegna batnandi umhverfisskilyrða. Niðurstöðurnar sem kynntar eru hér gefa gott yfirlit yfir sögu kynbótaverkefnisins og eru því mikilvægar áframhaldandi byggyrkjatilraunum fyrir íslenskan landbúnað og geta einnig nýst öðrum sambærilegum verkefnum á jaðarsvæðum í heiminum.

Grein númer þrjú í ritinu nefnist „Stofn gæsamatar (Arabidopsis thaliana) frá Íslandi greindur með aðferðum frumuerfðafræði og raðgreiningu erfðamengis“ eftir Terezie Mandáková, Hjört Þorbjörnsson, Rahul Pisupati, Ilka Reichardt, Martin A. Lysak og Kesara Anamthawat-Jónsson.


Það er ekki á hverjum degi sem ný plöntutegund finnst á Íslandi, en hér greina höfundar einmitt frá því. Latneska heitið á plöntunni er Arabidopsis thaliana og fékk hún íslenska heitið gæsamatur. Þessi nýja tegund fannst í maí 2015 á jarðhitasvæði við Deildartunguhver á Vesturlandi. Þurrkuðum plöntum var komið fyrir í plöntusafni AMNH og sýnum var safnað fyrir litningagreiningu og raðgreiningu erfðamengis. Nú vill svo til að fjöldi greininga er til víðsvegar frá í heiminum á erfðaefni gæsamatar, þannig að hægt var að rekja skyldleika íslensku plantnanna. Raðgreining sýndi mestan skyldleika við sýni frá Svíþjóð, en þó með lágum skyldleikastuðli. Því er niðurstaðan sú að þótt íslenski gæsamaturinn sé skyldari stofnum frá Skandinavíu en stofnum annars staðar frá, hefur hann upphaflega ekki borist frá neinum af þeim stofnum sem fyrirfinnast í safni 1001 erfðamengja gæsamatar víðsvegar að úr heiminum. Nú hafa sýni frá Íslandi bæst í safnið og þó okkur flestum þyki skemmtilegast að vita um nýja plöntutegund á Íslandi þá eru sérfræðingar erlendis sennilega enn spenntari fyrir raðgreiningunni rannsókn höfunda á skyldleika íslensku plantnanna við gæsamat annars staðar í heiminum.

Sjá nánar

Greinarnar

Þorsteinn Guðmundsson
ritstjóri IAS

 

þk/okg