Skráning á uppskeru í Jörð.is

Í ljósi þess að á næsta ári verður farið að greiða framlög eða svokallaðar landgreiðslur skv. rammasamningi um starfsskilyrði landbúnaðarins, er áhugavert að skoða hvernig bændur eru í stakk búnir gagnvart þeim skilyrðum sem verða í gildi eftir um það bil eitt ár.

Skilyrði fyrir því að njóta landgreiðslna er að til sé viðurkennt túnkort fyrir spildur sem sótt er um framlög fyrir og að spildurnar séu uppskornar á því ári þegar framlag er greitt enda liggi fyrir uppskeruskráning. Það hefur verið gefið út að nota á forritið Jörð.is til að halda utan um skráningar.

Í dag, 21. september, hefur verið skráð að hluta eða öll uppskera ársins 2016 á 169 búum í Jörð.is. Skráð uppskera af túnum er u.þ.b. 26.600 tonn/þe og ef við reiknum með að meðal uppskera af hektara sé um 3500 kg/þe þá er búið að skrá uppskeru á um 7500 hektara. Á meðfylgjandi mynd má sjá uppskerumagn eftir því í hvaða viku sláttur fór fram.

Samkvæmt rammasamningnum er gert ráð fyrir 247 milljónum í landgreiðslur á næsta ári. Í dag eru ekki til neinar tölur sem segja til um fjölda uppskorinna hektara af grasi á ári en gera má ráð fyrir að þeir séu eitthvað nálægt 80 þúsund sem falla undir tilteknar reglur. Þannig má reikna með að bú með 50 uppskorna hektara fái 150 þúsund á ári í landgreiðslur, 3000 kr/ha. Hins vegar ef við tökum stöðuna í dag þá verður upphæðin rúmar 1,6 milljónir og 169 bændur mjög sáttir með sinn hlut.

Full ástæða er til að hvetja bændur til að kynna sér Jörð.is og hefja skráningar á uppskeru og öðru því sem sem þetta skýrsluhaldsforrit í jarðrækt hefur upp á að bjóða. Þá ættu bændur sem ekki eiga stafrænt túnkort í Jörð.is að fá það unnið sem fyrst.

RML býður upp á margskonar þjónustu og ráðgjöf fyrir bændur og þar á meðal eru námskeið og almenn aðstoð við skráningar og utanumhald í Jörð.is. Túnkortagerð er einnig á vegum RML á tilteknum svæðum.

Eðli málsins samkvæmt verður ekki hægt að aðstoða alla í einu í september 2017.

bpb/okg