Væntanlegar verðhækkanir á áburði – hvað er til ráða?

Flest bendir til þess að verð á áburði muni hækka umtalsvert milli ára á næstu mánuðum og þá einkum verð á köfnunarefni. Það eru einnig blikur á lofti varðandi hvort áburðarsalar muni geta annað eftirspurn eftir áburði hér á landi. Bændur og einnig stjórnvöld þurfa því að vera vakandi fyrir þróun mála á næstu misserum.

Áburður er stærsti einstaki kostnaðarliðurinn í rekstri sauðfjárbúa og sá næststærsti í rekstri kúabúa á eftir kjarnfóðri en hækkun á heimsmarkaðsverði á áburði mun óhjákvæmilega einnig hafa áhrif til hækkunar á kjarnfóðri. Bændur standa því núna frammi fyrir áskorunum og ákvarðanatöku sem mun hafa mikil áhrif á búreksturinn og afkomuna.

Ákvarðanir teknar á sem bestum grunni

Nú sem fyrr er mikilvægt að ákvarðanir um áburðargjöf séu teknar á sem bestum grunni. Upplýsingar úr jarðvegs- og heyefnagreiningum geta m.a. gefið vísbendingar um hvort kölkun geti skilað sér í betri áburðarnýtingu, lifun sáðgresis og þá einkum smára sem bindur köfnunarefni. Einnig gefa niðurstöður heyefnagreininga upplýsingar um hvort áburðargjöf síðasta vors hafi skilað tilætluðu efnainnihaldi í heyforða vetrarins. Í því skyni er mikilvægt að sýnið sé ekki blanda af heyi úr ólíkum túnum eða túnum sem hafa fengið ólíka áburðargjöf. Vert er að benda á safn-heysýni, sem tekin eru af fleiri en einu túni, gefa ekki eins góðar upplýsingar um efnainnihald heyja af einstökum túnum og nýtast því síður við áburðaráætlanir þó að þau gefi niðurstöður um fóðrið sem slíkt. Gott utanumhald og skráningar á áburðargjöf, uppskerumagni og heygæðum getur hjálpað við að taka upplýstar ákvarðanir. Efnagreiningar á heyi, jarðvegi og búfjáráburði gefa hins vegar alltaf bestu upplýsingarnar um aðgengi næringarefna. Upplýsingar um efnainnihald búfjáráburðar búsins má nota til að velja tegundir tilbúins áburðar og magn áburðarefna, í skipulagi áburðardreifingar. Áburðaráætlun sem er vel undirbyggð hefur trúlega aldrei verið eins mikilvæg.

Tækni og tímasetningar áburðardreifingar

Dreifingartími bæði búfjáráburðar og tilbúins áburðar skiptir miklu máli þegar kemur að nýtingu áburðarefnanna. Þá skiptir einnig miklu máli hvaða tækni er nýtt við dreifinguna. Í stuttu máli má segja að nýtingin á búfjáráburðinum sé best þegar hann er borinn á að vori þegar gróður er tilbúinn að taka við næringarefnunum og að hann sé borinn á með gætni og við góðar aðstæður þannig að köfnunarefnið tapist ekki út í andrúmsloftið. Áburðardreifingin þarf að vera jöfn og á það einkum við um dreifingu tilbúins áburðar. Notkun gps búnaðar sem er tengdur við tölvustýrðan áburðardreifara getur haft mikið að segja en þá er samt mikilvægt að hafa í huga að viðhald og stillingar dreifarans séu í lagi. Þeir sem eru stórtækir í áburðardreifingu ættu að sannreyna dreifinguna reglulega með bakkaprófi.

Er allt hey í harðindum?

Góð meðferð á verðmætum er og verður alltaf brýn. Það er mikilvægt að gera sér vel grein fyrir í hverju verðmæti felast og hvernig verðmat hefur og getur breyst yfir tíma. Huga þarf sérstaklega að nýtingu og umgengni á fóðri og aðföngum. Til dæmis í tengslum við varðveislu heyfyrninga þar sem tryggja þarf meindýravarnir og skjól. Mikilvægt er að hafa í huga að þegar fóðrað er til afurða þarf gróffóður og beit að uppfylla ákveðnar kröfur um gæði. Ganga þarf vel frá áburði sem geyma á milli ára. Hann skal geymdur innan dyra ef því verður við komið og standa á þurrum fleti, helst vörubretti.

Ekki spara til skaða

Ekki er hægt að alhæfa með hvaða hætti bændur eiga núna að bregðast við heldur þarf hver og einn að skoða sínar aðstæður Það eru alltaf einhver tækifæri til staðar en að draga mikið úr áburðarkaupum án þess að það sé ígrundað og brugðist við um leið með einhverjum hætti í bústjórninni, kann ekki góðri lukku að stýra. RML hvetur því bændur til að skoða alla möguleika til að bregðast við miklum hækkunum tilbúins áburðar og út frá heildar áhrifum á búreksturinn.

/okg