Minnislisti fjósbyggjandans

Árið 2011 var lokið við uppgjör rannsóknaverkefnisins „Betri fjós“ en það verkefni leiddi m.a. í ljós að þrátt fyrir að töluverð reynsla hafi skapast hér á landi við hönnun, byggingu eða breytingu fjósa, þá reyndust öll fjós sem heimsótt voru í því rannsóknaverkefni innihalda einhverja galla. Flesta gallana hefði mátt koma í veg fyrir með meiri þekkingu á hönnun og/eða frágangi við byggingu eða breytingu fjósanna. Skýringuna á þessum mistökum má vafalítið heimfæra upp á smæð markaðarins á Íslandi, en harla erfitt og raunar ólíklegt er að hægt sé að fá jafn góða þjónustu við hönnun fjósa og leiðbeiningar við byggingu eða breytingar fjósa hér á landi og kúabændur erlendis geta fengið, enda eru nýbyggingar eða breytingar á fjósum hér á landi ekki taldar nema í fáeinum tugum árlega.

Hér á landi hefur þó margt verið gert undanfarna áratugi í þeim tilgangi að miðla fræðslu og þekkingu á þessu sviði. Þannig hafa t.d. verið haldin fjósbyggingarnámskeið reglulega undanfarin 15 ár, þar sem bændur og hönnuðir hafa haft tækifæri til þess að sækja sér nýja þekkingu og læra af reynslu annarra. Tilgangur námskeiðanna hefur fyrst og fremst verið að miðla upplýsingum til verðandi framkvæmdaaðila um það sem þarf að varast og að hverju þarf að huga svo ekki verði til óþarfa mistök. Námskeið þessi hafa alltaf verið afar vel sótt, en á þeim hefur einnig vaknað áhugi á því að bændur og hönnuðir geti fengið í hendur „verkfæri“ sem geri þá betur færa til þess að yfirfara teikningar og áætlanir svo líkurnar á því að finna óþarfa mistök aukist og þar með að auðvelda bændunum að takast á við hið mikla og kostnaðarsama verkefni sem það er að byggja nýtt fjós eða breyta fjósi.

Erlendis er oft farin sú leið við yfirferð teikninga að notast við einskonar minnislista eða „tékklista“ sem tekur til helstu þekktra mistaka sem koma upp við hönnun, hvort sem er um nýbyggingu að ræða eða breytingu á fjósi. Slíkur listi verður vissulega seint 100% tæmandi, en vonandi má með honum forða mörgum kúabændum hér á landi frá því að gera dýr mistök við hönnun eða frágang, sér í lagi við hönnun á helstu vinnurýmum svo sem mjaltaaðstöðu, mjólkurhúsi og aðstöðurými en langalgengast er að finna hönnunarmistök á þessum rýmum. Nú hefur verið tekin saman sambærilegur listi sem inniheldur um 200 spurningar  tekur til helstu rýma í fjósum s.s. mjaltaaðstöðu (bæði hefðbundinnar og mjaltaþjóna), aðstöðurýmis, fóðrunaraðstöðu, smákálfaaðstöðu, aðstöðu fyrir geldneyti, hvíldar- og göngurými kúa og tækjarýmis. Hönnun aðstöðu utan fjóss féll ekki undir þetta verkefni, né hönnun á haughúsum eða öðru rými neðan við göngu- eða legusvæði gripa.

Verkefnið var kostað af Þróunarsjóði nautgriparæktar og unnið af Snorra Sigurðssyni, sviðsstjóra ráðgjafasviðs mjólkurgæða hjá SEGES P/S í Danmörku.

Sjá nánar:

Aðbúnaður og húsvist

ss/gj